Brúnin þyngist á stjórnendum

Þriðjungur stjórnenda telur að núverandi aðstæður í atvinnulífinu séu góðar, tæplega fimmtungur að þær séu slæmar, en helmingurinn að þær séu hvorki góðar né slæmar. Væntingar um að aðstæður fari batnandi eru mun minni en áður. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir það í byggingarstarfsemi, flutningum og ferðaþjónustu. Stjórnendur gera ráð fyrir lítilsháttar fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði.

Að jafnaði vænta stjórnendur 4,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem er mikil breyting frá sambærilegri könnun í desember 2014 þegar stjórnendur væntu þess að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans næðist á árinu.

Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í maí 2015 fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Aðstæður góðar í atvinnulífinu
Þróun undanfarins árs, að sífellt fleiri stjórnendur telji aðstæður í atvinnulífinu góðar, hefur gengið til baka og er mat þeirra á aðstæðum svipað og fyrir ári síðan. 48% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu hvorki vera góðar né slæmar, 33% telja þær góðar en 19% slæmar. Þetta er mun lakari niðurstaða en í síðustu könnun sem gerð var í mars sl., en þá taldi 41% aðstæður vera góðar en aðeins 6% slæmar. Í öllum atvinnugreinum telja fleiri stjórnendur aðstæður vera góðar en slæmar og er matið jákvæðast í fjármála- og tryggingastarfsemi og verslun.

Vaxandi svartsýni
Í annarri könnuninni í röð er mat stjórnenda á aðstæðum eftir sex mánuði verra en á núverandi aðstæðum. Það er óvenjulegt þar sem frá miðju ári 2008 hafa stjórnendur ávallt búist við betri tíð, sbr. meðfylgjandi mynd, sem sýnir svonefnda vísitölu efnahagslífsins. Þessu var öfugt farið fyrir efnahagshrunið 2008, þar sem á árunum 2005-2007 voru stjórnendur uggandi um að versnandi tímar væru framundan. Nú telja fleiri að aðstæður verði verri eftir sex mánuði en að þær verði betri. 33% þeirra telja að aðstæður verði verri, 40% að þær verði óbreyttar, en 27% að þær verði betri.

undefined

Skortur á starfsfólki fer vaxandi

Skortur á starfsfólki fer vaxandi í samanburði við síðustu kannanir eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd. 2% stjórnenda telja að það sé skortur en 80% að svo sé ekki. Niðurstaðan markast mjög af skorti á starfsfólki í byggingariðnaði þar sem 42% stjórnenda telja skort ríkja og í flutningum og ferðaþjónustu þar sem 27% þeirra telja skort ríkja. Minnstur er skorturinn í verslun og fjármálaþjónustu þar sem 5-10% stjórnenda telur skort vera á starfsfólki.

Lítilsháttar fjölgun starfsmanna á næstunni
Hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfa 26 þúsund starfsmenn. 23% stjórnenda sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 16% sjá fram á fækkun en 61% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna í úrtakinu fæst að störfum hjá þeim fjölgi um 80 eða um 0,3% á næstu sex mánuðum. Sé þessi niðurstaða yfirfærð á  almenna vinnumarkaðinn í heild nemur áformuð starfsmannafjölgun 250 störfum. Mest fjölgun er áformuð í byggingarstarfsemi og flutningum og ferðaþjónustu, þar á eftir í sérhæfðri þjónustu og verslun en horfur eru á fækkun starfsmanna í fjármálastarfsemi, sjávarútvegi og iðnaði.  

undefined

Væntingar um aukna eftirspurn bæði innanlands og erlendis
Tæplega 40% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum, tæplega helmingur að hún standi í stað en örfáir búast við að hún minnki. Svipað gildir um erlenda eftirspurn þar sem 46% búast við því að hún aukist, 48% að hún verði óbreytt og 7% að hún minnki.

Væntingar um 4,0% verðbólgu á árinu
Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 4,0%, sem er um 1,0% hærra en í síðustu könnun, en að meðaltali eru verðbólguvæntingarnar 4,4%. Þetta er mikil aukning verðbólguvæntinga frá síðustu könnunum. Í mars sl. var miðgildi verðbólguvæntinga 3,0% og meðaltalið 2,7% og í desember 2014 var miðgildið 2,5% og meðaltalið 2,3%.

undefined

Vænta lítilsháttar lækkun gengis krónunnar
Stjórnendur vænta þess að gengi krónunnar veikist um 2,0% á næstu 12 mánuðum.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmdin í höndum Gallups. Kannanir með 7 og 19 spurningum skiptast á.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 12. maí til 5. júní 2015 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 438 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 260 þeirra þannig að svarhlutfall var 59%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Iðnaður, (2) sjávarútvegur, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) flutningar, samgöngur og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.