Fréttir - 

16. nóvember 2018

Bringusund mörgæsa

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bringusund mörgæsa

Hægt er að skapa atvinnu og líf með því að feta nýjar slóðir. Gera betur í dag en í gær og sýna heiminn í nýju ljósi, finna snjallar lausnir á viðfangsefnum daglegs lífs. Bringusund mörgæsa er ekki mikið til umfjöllunar en Jónas Hallgrímsson, sem var umfangsmikill nýyrðasmiður, á orðin tvö og reyndar mörg fleiri sem lífga upp á tungumál þjóðarinnar og gera það litríkara.

Hægt er að skapa atvinnu og líf með því að feta nýjar slóðir. Gera betur í dag en í gær og sýna heiminn í nýju ljósi, finna snjallar lausnir á viðfangsefnum daglegs lífs. Bringusund mörgæsa er ekki mikið til umfjöllunar en Jónas Hallgrímsson, sem var umfangsmikill nýyrðasmiður, á orðin tvö og reyndar mörg fleiri sem lífga upp á tungumál þjóðarinnar og gera það litríkara.

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur ár hvert þann 16. nóvember á fæðingardegi skáldsins. Það er ekki sjálfgefið að lítil þjóð eigi sitt eigið lifandi tungumál. Því ber að fagna en ýmsar hættur steðja að íslenskunni um þessar mundir vegna hraðra tæknibreytinga og yfirburða enskunnar.

Hópur fólks og fyrirtækja úr ólíkum áttum vinnur að því að á íslensku megi alltaf finna svar.

Fólk mun nota röddina í auknum mæli til að stýra hvers kyns tækjum og tólum en vandinn er sá að tækin skilja ekki íslensku í dag. Sem betur fer er til áætlun um að forða tungumálinu okkar frá stafrænum dauða. Hópur fólks og fyrirtækja úr ólíkum áttum vinnur að því að á íslensku megi alltaf finna svar. Almannarómur er sjálfseignarstofnun þar sem koma saman hagsmunaaðilar úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu með myndarlegum stuðningi stjórnvalda. Stofnuninni er ætlað að leysa málið og tryggja framtíð íslenskunnar í tæknivæddum heimi samkvæmt markmiðum máltækniáætlunar. Stefnt er að því að  íslensku verði að finna í öllum tækja- og hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims innan fárra ára en tíminn til stefnu er naumur þar sem gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir.

Samkeppnishæfni atvinnulífsins byggir á tungumálinu. Lyklaborðið og músin gætu verið á útleið og rafrænar málfarslöggur mögulega beðið okkar handan við hornið. Fjölbreyttar máltæknilausnir geta einnig aukið framleiðni í atvinnulífinu því sjálfvirkar þýðingar munu nýtast í öllum viðskiptum. Ýmis forrit munu einnig auðvelda fólki lífið við að leiðrétta málfar, stafsetningu og beygingar.

Atvinnulífið gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að nýsköpun og þróun á máltækni og mun leggja sitt af mörkum til að markmið máltækniáætlunar 2018-2022 náist í nánu samstarfi við stjórnvöld, fyrirtæki, stofnanir og háskóla.

Íslenska er mál atvinnulífsins – höldum því lifandi.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. nóvember 2018.

Tengt efni:

Almannarómur bjargar íslenskunni frá stafrænum dauða

Máltækniverkefni á áætlun – frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis

Íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi – umfjöllun á vef SA

Ísl(enskan) – frétt á vef SA

Máltækninám eflt – frétt á vef SA

Nýjasta máltækni og vísindi – upptökur frá menntadegi atvinnulífsins 2017

Ekki nógu góðar hugmyndir á Íslandi – Gummi hjá Google

Máltækiárið 2018

Fer lyklaborðið sömu leið og telexið og vídeótækin?

Samtök atvinnulífsins