Breyttar áherslur við stjórn peningamála

Þróunin á gjaldeyrismarkaðnum að undanförnu kallar á breytingu peningamálastefnunnar í landinu. 

Raungengi á mælikvarða launa, öðru nafni hlutfallslegur launakostnaður, er hugtak sem notað er til að bera saman samkeppnisstöðu ríkja við helstu viðskiptalönd. Þeir þættir sem raungengið stendur saman af eru gengisþróun gjaldmiðilsins, þróun launakostnaðar innanlands og erlendis og framleiðniþróun innanlands og erlendis. 

Við mat á þróun raungengisins er vægi gjaldmiðla viðskiptalandanna ákveðið á grundvelli viðskiptavogar, þ.e. vægis gjaldmiðla ríkjanna í utanríkis-viðskiptunum. Þannig er tekið mið af viðskiptamagni bæði frá ríkjum sem selt er til og keypt er frá.  Raungenginu er ætlað að sýna þróun hlutfallslegs verðs vöru og þjónustu innanlands miðað við önnur lönd. Lækkun raungengis sýnir bætta samkeppnisstöðu og hækkun raungengis sýnir versnandi samkeppnis-stöðu. Eftirfarandi mynd sýnir þróun raungengisins á Íslandi, Norðurlöndunum og evrusvæðinu frá 2000. 

Smellið hér til að fá stærri mynd

Mesta hækkun raungengisins á öllu OECD svæðinu
Það er einkar athyglisvert að líta á nýlegar breytingar raungengis meðal OECD-ríkjanna. Eftirfarandi mynd sýnir þróunina frá nóvember 2001 til nóvember 2002. 

Smellið hér til að fá stærri mynd

Hækkun raungengisins var meiri á Íslandi en í nokkru öðru landi OECD og sýnir þannig mikinn viðsnúning í samkeppnisstöðunni á þessu tímabili. Þessi staðreynd þarf raunar ekki að koma á óvart þar sem gengi krónunnar var mjög lágt í nóvember 2001 og var ekki um það deilt að svo lágt gengi ætti sér ekki efnahagslegar forsendur og fengi því ekki staðist til lengri tíma. Hvað sem því líður þá hefur krónan hækkað gagnvart öðrum gjaldmiðlum um 8% til viðbótar frá því í byrjun nóvember. Þannig mun samkeppnisstaða Íslands í þessum samanburði halda áfram að versna enn um sinn.

Hið kunna "Big-Mac-index" sem tímaritið Economist birtir (og setur fram bæði í gamni og alvöru) bendir til þess að krónan sé talsvert ofmetin gagnvart dollara. Samanburður á verði hamborgara frá McDonald's sýnir að hann var 100% dýrari á Íslandi en í Bandaríkjunum í janúar á þessu ári en var 66% dýrari í apríl 2002.1)

Það er ekki óvarlegt að ætla að gildandi gengi krónunnar gagnvart evru þyrfti að lækka um u.þ.b. 10% til að ná sambærilegu raungengi og var árið 2001.

Það er ekki aðeins raungengið sem hækkar meira hér á landi en á meðal viðskiptalanda því kaupmáttur launa gerir það einnig. 

Gengi krónunnar hefur hækkað ört síðustu 12 mánuði. Þar sem gengi krónunnar er sá þáttur sem mest áhrif hefur á breytingar á samkeppnisstöðunni, þá ætti peninga-málastefna Seðlabankans að miðast við að skapa skilyrði fyrir lægra raungengi krónunnar. 

Smellið hér til að fá stærri mynd

Svigrúm til vaxtalækkunar
Við núverandi efnahagsaðstæður hefur Seðlabankinn töluvert svigrúm til að lækka vexti án þess að tefla stöðugleika í peningamálum í tvísýnu. Verðbólga er vel undir verðbólgumarkmiði bankans og verðbólguvæntingar standa ekki til þess að hún fari yfir sett mörk. Fjármála-markaðir eru þeirrar skoðunar, þar sem verðbólguálag þriggja ára ríkisvíxla hefur lækkað í 2,15% og á fimm ára ríkisskuldabréfum í 2,39%, sem er vel innan við 2,5% verðbólgumarkmið bankans. Þannig sjá fjármálamarkaðir ekki vaxandi verðbólgu á sjóndeildarhringnum þrátt fyrir virkjunar- og álversframkvæmdir.

Þessu til viðbótar má nefna að útlánavöxtur banka og sparisjóða heldur áfram að dragast saman.

Frá innflutningshliðinni er ekki að vænta verðbólgu-þrýstings. Sum viðskiptalönd Íslands, einkum Þýskaland, standa frammi fyrir verðhjöðnun. Krónan er svo sterk um þessar mundir að nokkur lækkun hennar myndi alls ekki valda hækkun innfluttra vara.

Þrátt fyrir um tug vaxtalækkana á síðasta ári halda raunvextir áfram að hækka á Íslandi og eru sívaxandi byrði á fyrirtækjunum. Raunvextir á Íslandi eru nú meira en 3% hærri en á meðal viðskiptalandanna.

Allir framangreindir þættir benda til þess að svigrúm er til verulegra vaxtalækkana.

Vextir á Íslandi eru ekki aðeins háir í augum landsmanna því þeir eru einnig háir frá sjónarhóli umheimsins. Íslensk skuldabréf eru góður fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta, enda kemur það fram í vaxandi kaupum þeirra hér á landi.  Fjárfestingar útlendinga í íslenskum skuldabréfum voru þegar á fyrstu níu mánuðum ársins 2002 meiri en þær voru á öllu árinu 2001.2) Erlendir bankar og fjárfestingarsjóðir ráðleggja viðskiptavinum sínum að fjárfesta í íslenskum skuldabréfum. Í janúar gaf Jyske Bank út rannsóknarskýrslu þar sem mælt var sterklega með fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum.

Viðskiptahallinn endurvakinn?
Sterk króna vekur ugg um að viðskiptahallinn taki að vaxa á ný. Þegar krónan var síðast sterk í lok síðasta áratugar þá myndaðist gríðarlegur viðskiptahalli og erlendar skuldur ruku upp. Sem betur fer náðist jafnvægi á ný á síðasta ári.

Eftir samdrátt einkaneyslu á síðasta ári benda nýjustu gögn til þess að einkaneysla fari vaxandi á ný á þessu ári. Í janúar jókst innflutningur bíla um 70% miðað við janúar 2002.3)  Á sama tíma sýnir síðasta væntingavísitala Gallups að tiltrú neytenda hafði aukist um 4,3%. Í lok síðasta árs jókst velta debetkorta og greiðslukorta um 6,5% að raungildi eftir að hafa dregist saman fram eftir árinu 2002. 

Sterk króna og meðfylgjandi vöxtur einkaneyslu kemur að sjálfsögðu versluninni vel í bráð, en hún skaðar samkeppnishæfni útflutningsgreina og framleiðenda vöru og þjónustu sem keppa við innflutning. 

Framangreindir þættir bætast við fyrirsjáanlegan viðskiptahalla af völdum virkjunar- og álversframkvæmda.

Það eru því margar ástæður til að stuðla að lækkun of hátt verðlagðrar krónu um þessar mundir. Seðlabankinn er hvattur til þess að stuðla að því marki!

Christoph Kuhn, hagfræðingur hjá SA

1) The Economist, Nr. 3/2003

2) Seðlabanki Íslands

3) Hagstofa Íslands