Breytt fjármögnun heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Samtök atvinnulífsins fagna fyrirhuguðum breytingum á rekstrarumhverfi heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem heilbrigðisráðherra hefur nýverið kynnt. Með því að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata sem stuðla að betri þjónustu við sjúklinga og hagkvæmari rekstri aukast líkur á að heilsugæslan geti almennt orðið fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu.

Með breytingunum er áhersla lögð á að skilgreina heilbrigðisþjónustu sem stendur fólki til boða og veita því valfrelsi um hvar þjónustan er sótt. Fjármögnun allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu verður byggð á sömu forsendum. Með skilgreindum þjónustusamningum og árangursmælingumer aðstaða einkaaðila og  opinberra stofnana jöfnuð. Með breytingunum er stuðlað að  samkeppni og bættri nýtingu fjármuna. Það er þó stjórnvalda að meta þörfina á grundvelli gildandi viðmiða óháð því hver veitir þjónustuna.

Fjármagn til reksturs á að endurspegla sjúklingahópinn sem hver heilsugæslustöð þjónar. Markmiðið er að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda.

Hlutdeild einkaframkvæmdar við heilbrigðisþjónustu á Íslandi nemur um 30% og virðist vera hin hæsta á Norðurlöndunum. Á einkareknum læknastofum fer fram fjölbreytt heilbrigðisþjónusta. Hlutdeild þess reksturs hefur aukist um 2 prósentustig undanfarinn áratug sem hefur dregið úr álagi á Landspítalanum, stytt biðtíma og verið hagkvæm þar sem kostnaður vegna hverrar aðgerðar er lægri á einkareknum læknastofum en á sérhæfðum sjúkrahúsum.

Stofnun Sjúkratrygginga Íslands hefur styrkt hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að styrkja þetta hlutverk stofnunarinnar enn frekar og jafna samningsstöðu aðila. Stofnuninni er heimilt að bjóða út rekstur og kaup á heilbrigðisþjónustu. Hún gerir kröfur til veitenda þjónustu, m.a. um hæfni, þjónustustig, hagkvæmni og rekstrarlega ábyrgð, óháð því hvort reksturinn er í höndum opinbers aðila eða einkaaðila.

Einungis tvær einkareknar heilsugæslustöðvar eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu og reknar á grundvelli samninga við Sjúkratryggingar. Að öðru leyti er heilsugæslan rekin af ríkinu og fjármögnuð af fjárlögum. Opinberar úttektir á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu sýna að einkareknu heilsugæslustöðvarnar eru í efstu sætum hvað varðar afköst og ánægju sjúklinga.

Nýtt fjármögnunarkerfi byggist á þekktri aðferð sem m.a. er notuð í Svíþjóð. Þrátt fyrir ríkisstjórnarskipti þar árið 2014 var haldið áfram að þróa þá aðferð áfram. Aðferðin byggist á því að hópurinn sem skráður er hjá viðkomandi heilsugæslustöð er skilgreindur eftir líklegri þörf fyrir þjónustu. Fjármagn til reksturs á að endurspegla þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónar. Markmiðið er að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda. Ef hlutfall aldraðra, öryrkja eða einstæðra foreldra er hátt í þjónustuhópi heilsugæslustöðvar hefur það áhrif á fjárframlög til stöðvarinnar. Þannig tekur fjármögnunin mið af þekktum breytistærðum sem vitað er að hafa áhrif á kostnað við þjónustu heilsugæslustöðva. Í þessu felst að heilsugæslustöð fær meira greitt fyrir sjúkling sem er t.d. aldraður með þunga sjúkdómsbyrði heldur en þann sem er á besta aldri og almennt við góða heilsu. Eitt af markmiðum þessa fyrirkomulags er að skapa heilsugæslustöðvum hvata til að þjóna sjúklingum sínum vel og vilja til að halda þeim hjá sér, hvort sem þeir eru með mikla þjónustuþörf eða ekki.

Sænsku samtök atvinnulífsins, Svenskt Näringsliv, gáfu nýlega út skýrslu[1] sem lýsir áhrifum aukins valfrelsis á  gæði þjónustunnar í heilbrigðisgeiranum í Svíþjóð og nokkrum löndum Evrópu. Frá innleiðingu kerfisins árið 2010 hefur heilsugæslustöðvum fjölgað um 20% í Svíþjóð með samsvarandi auknu aðgengi að þjónustu fyrir sjúkratryggða. Ein af meginniðurstöðum könnunarinnar er að sjúklingurinn fær nú betri og greiðari þjónustu hjá heilsugæslunni en áður þar sem þjónustan tekur meira mið af þörfum hans.

Samtök atvinnulífsins fagna því að fyrirhugað sé að skapa aukin sveigjanleika í heilsugæslunni. Núverandi vandi heilsugæslunnar er margþættur. Lengi hefur verið ljóst að heilsugæslan getur ekki að óbreyttu staðið undir því hlutverki að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Skortur á læknum og langur biðtími veldur sjúklingum erfiðleikum og því leita þeir annað eftir þjónustu, oft að dýrara úrræði á hærra þjónustustigi, þ.e. hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum og á bráðamóttöku sjúkrahúsa.

Samtök atvinnulífsins fagna því jafnframt að við innleiðingu nýrra aðferða við samninga á þjónustu og fjármögnun heilsugæslunnar skuli byggt á reynslu frá Norðurlöndunum sem hafa átt við svipuð vandamál að etja við að mæta þörfum fólks fyrir heilbrigðisþjónustu. Góð og hagkvæm heilbrigðisþjónusta grundvallast á skilvirkri heilsugæslu.

________________________________

[1] Förbättrad Välfärd. Jämlik vård och fria vårdval. Författad av Clas Rehnberg, professor i hälsoekonomi vid  Karolinska Institutet. Svenskt Näringsliv – janúar 2016 (PDF)