Efnahagsmál - 

07. nóvember 2002

Breytingar á skattkerfinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Breytingar á skattkerfinu

Einkennilegt hefur verið að fylgjast með umræðunni um skattamálin að undanförnu. Þannig hefur því m.a. verið haldið fram að skattar til "stórfyrirtækja" séu að lækka á meðan skattbyrði einstaklinga sé að aukast. Er engu líkara en margir málshefjendur hafi það að markmiði að villa um fyrir fólki, en þau villandi og áróðurskenndu útspil sem einkennt hafa umræðuna skýrast að vísu að mestu af þeim vinnubrögðum nokkurra þingmanna að heyja prófkjörsbaráttu sína úr þingsölum með aðstoð fjölmiðla.

Einkennilegt hefur verið að fylgjast með umræðunni um skattamálin að undanförnu. Þannig hefur því m.a. verið haldið fram að skattar til "stórfyrirtækja" séu að lækka á meðan skattbyrði einstaklinga sé að aukast. Er engu líkara en margir málshefjendur hafi það að markmiði að villa um fyrir fólki, en þau villandi og áróðurskenndu útspil sem einkennt hafa umræðuna skýrast að vísu að mestu af þeim vinnubrögðum nokkurra þingmanna að heyja prófkjörsbaráttu sína úr þingsölum með aðstoð fjölmiðla.

Þá hefur ASÍ ítrekað fjallað um "hækkun tekjuskatta einstaklinga og hækkun tryggingagjalds" líkt og þar fari tvær hliðar á sama peningnum. Nú er það svo að það eru launagreiðendur, bæði svokölluð "stórfyrirtæki" og "smáfyrirtæki", sem greiða tryggingagjaldið, en ekki launþegar. Þá greiða t.d. öll hlutafélög sömu skattprósentu, án tillits til stærðar og því eru engin málefnaleg rök fyrir því að gera stærri fyrirtækin tortryggileg í umræðunni. Hækkun tryggingagjaldsins er að sönnu íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu og vóg hún að nokkru á móti lækkunaráhrifum annarra skattbreytinga síðasta árs. Hins vegar ræður stærð fyrirtækja engu um það hve launakostnaður vegur þungt í rekstri þeirra. Þá ber að varast einfaldan samanburð á skattprósentum einstaklinga og fyrirtækja enda er gjaldaumhverfi fyrirtækja mun flóknara að samsetningu en það sem einstaklingar búa við.

Meiri lækkun hjá einstaklingum
Þær breytingar sem Alþingi gerði á skattaumhverfinu fyrir um ári síðan sneru ekki bara að fyrirtækjum og í fjárhæðum talið fólu breytingarnar raunar í sér meiri lækkun fyrir einstaklinga heldur en fyrirtæki. Helstu breytingar voru helmings lækkun almenns eignarskatts einstaklinga og lögaðila, lækkun tekjuskatts fyrirtækja úr 30% í 18%, hækkun tryggingagjalds um 0,77% (síðar breytt í 0,5% til að koma til móts við launahækkanir desembersamkomulags við verkalýðshreyfinguna), afnám sérstaks eignarskatts einstaklinga og lögaðila og lækkun stimpilgjalda. Ýmislegt fleira mætti nefna, svo sem hækkun frítekju- og fríeignamarka einstaklinga vegna sérstaks tekjuskatts og vegna eignarskatts. Samkvæmt því frumvarpi sem lagt var fram um þessar breytingar, voru brúttóáhrif skattabreytinganna á ríkissjóð þau, án afleiddra áhrifa á framvindu efnahagsmála, að gjöld fyrirtækja lækkuðu um 1.700 m.kr., en gjöld einstaklinga um 5.400 m.kr. Lækkun stimpilgjalda var talin skiptast nokkuð jafnt. Aðalástæðan fyrir hækkuðum tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga að undanförnu er gríðarleg kaupmáttaraukning í þjóðfélaginu, sem ekki á sinn líka í öðrum löndum. Það var því ekki að undra þótt Geir H. Haarde fjármálaráðherra spyrði Jóhönnu Sigurðardóttur að því í þingsölum á dögunum, hvort það væri verra að hafa 100 þúsund krónur í laun og borga 11% skatt, en að hafa 70 þúsund krónur í laun og borga engan skatt!

Skattabreytingin góð fyrir efnahagslífið
Í athugasemdum með skattafrumvarpinu var fjallað um þau veigamiklu efnahagslegu áhrif sem vænst var af þessum aðgerðum, sem myndu m.a. birtast í auknum fjárfestingum, aukinni atvinnu, aukinni tekjumyndun og almennt auknum umsvifum í þjóðarbúskapnum. Nefnt var að ætla mætti að þessar aðgerðir myndu leiða til bæði aukinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flyttu starfsemi sína til útlanda. Þetta eru göfug markmið og til þess fallin að efla hér atvinnulífið og almenna velferð í landinu. Þessar breytingar hafa líka þegar haft jákvæð áhrif á efnahagslífið. Má þar til dæmis nefna yfirlýsingar Marels hf. um að skattabreytingin sé ástæða þess að fyrirtækið flytji nú aukinn hluta starfsemi sinnar heim til Íslands.

Jákvæðar breytingar í það heila tekið
Samtök atvinnulífsins fögnuðu þessum skattabreytingum þegar þær voru kynntar á síðasta ári, enda er samkeppnishæft skattaumhverfi eitt helsta áherslumál samtakanna. Vissulega hefðu samtökin viljað að gengið yrði lengra í t.d. afnámi stimpilgjalda og afnámi eignarskatta á fyrirtæki, enda um nánast óþekkta skattheimtu að ræða í öðrum löndum. Þá hljóðaði tillaga SA upp á að tekjuskattur fyrirtækja yrði lækkaður í 15%. Loks var hækkun tryggingagjaldsins að sjálfsögðu ekki fagnaðarefni. Það var hins vegar mat Samtaka atvinnulífsins að í það heila tekið væru umræddar skattabreytingar jákvætt útspil til eflingar íslensks atvinnulífs, sem aftur er ófrávíkjanleg forsenda betri lífskjara í landinu.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins