Samkeppnishæfni - 

25. Nóvember 2016

Breyta verður lögum um samkeppnismál

Samkeppnismál

Samkeppnismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Breyta verður lögum um samkeppnismál

Samtök atvinnulífsins telja að ekki verði lengur skotist undan því að fella úr gildi lagaákvæði sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Ákvæðið var samþykkt með breytingu á samkeppnislögunum í febrúar 2011 og er mjög óeðlilegt, þ.e. að ef ríkisstofnun hugnast ekki niðurstaða tiltekins máls að hún geti farið í mál við þann sem úrskurðar um ákvarðanir hennar.

Samtök atvinnulífsins telja að ekki verði lengur skotist undan því að fella úr gildi lagaákvæði sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla. Ákvæðið var samþykkt með breytingu á samkeppnislögunum í febrúar 2011 og er mjög óeðlilegt, þ.e. að ef ríkisstofnun hugnast ekki niðurstaða tiltekins máls að hún geti farið í mál við þann sem úrskurðar um ákvarðanir hennar.

Þá er ákvæðið skaðlegt atvinnulífinu þar sem það lengir málarekstur, eykur óvissu í rekstri fyrirtækja og kostnað. Samtök atvinnulífsins lögðu til árið 2012 að ákvæðið yrði fellt úr gildi og eru SA enn þeirrar skoðunar. Hættan er alltaf sú að Samkeppniseftirlitið höfði mál fyrir dómstólum hafi úrskurður áfrýjunarnefndar fallið fyrirtækjum í vil. Úrskurðir áfrýjunarnefndar hætta þá að skipta máli og eru einungis til að tefja fyrir endanlegri úrlausn mála. Þetta þýðir í raun að búið er að taka úr sambandi möguleika fyrirtækja til að ljúka málum á stjórnsýslustigi.

Í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins sl. mánudag, 21. nóvember um úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í málum sem tengjast Mjólkursamsölunni segir að Samkeppniseftirlitið muni nú fara yfir úrskurðinn og taka afstöðu til þess hvort rétt sé að bera hann undir dómstóla.

Þegar stjórnvald tekur ákvörðun sem leggur kvaðir á fyrirtæki er almennt gert ráð fyrir því að sá sem ákvörðunin beinist að geti leitað réttar síns fyrir æðra settu stjórnvaldi.

Þegar Samkeppniseftirlitið tekur íþyngjandi ákvörðun gegnir áfrýjunarnefnd samkeppnismála þessu hlutverki og fyrirtæki og aðrir geta skotið málum til nefndarinnar til úrskurðar. Vilji fyrirtæki eða aðrir enn ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar er alltaf hægt að skjóta málum til dómstóla.

Það sem er einstakt í tilviki samkeppnislaganna er að Samkeppniseftirlitið þarf ekki að una úrskurði áfrýjunarnefndarinnar heldur getur sjálft höfðað málarekstur fyrir dómstólum og krafist þess að upphafleg ákvörðun stofnunarinnar verði látin standa eða tilteknum atriðum í úrskurði áfrýjunarnefndar verði breytt.

Þannig getur Samkeppniseftirlitið höfðað mál gegn áfrýjunarnefnd samkeppnismála fyrir dómstólum þrátt fyrir að þá almennu meginreglu stjórnsýslunnar að lægra sett stjórnvald (Samkeppniseftirlitið) sé bundið af úrlausn æðra setts stjórnvalds (áfrýjunarnefndar).

Lagaákvæðinu verður að breyta. Það má gera með því að leggja niður áfrýjunarnefndina, heimila fyrirtækjum, sem sæta ákvörðunum eftirlitsins, að leita beint til dómstóla eða eins og eðlilegast er að fella úr gildi málshöfðunarheimild stofnunarinnar.

Með lagaákvæðinu var enn aukið á óvissuna sem fyrirtæki búa við vegna alls þess tíma sem það tekur Samkeppniseftirlitið að rannsaka mál og taka ákvörðun. Úrskurði áfrýjunarnefnd fyrirtæki í hag getur stofnunin enn skapað óvissu sem staðið getur um langa hríð með því að hefja málarekstur fyrir dómstólum.

Nánari umfjöllun má finna í skýrslu SA sem út kom í október 2012, bls. 21 – 22:

Viðhorf atvinnulífsins: Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra (PDF)

Tengt efni:

Umfjöllun í hádegisfréttum Bylgjunnar 26. nóvember 2016 - smelltu til að hlusta

undefined

Samtök atvinnulífsins