Efnahagsmál - 

12. september 2002

Breyta þarf samkeppnislögum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Breyta þarf samkeppnislögum

Það er bráðnauðsynlegt að ráðast í frekari breytingar á samkeppnislögunum og það þarf að gerast á komandi þingi, segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Morgunblaðið. Hann segir réttarfarsþáttinn ekki síst knýja á um breytingar. Eftirfarandi er frásögn blaðsins:

Það er bráðnauðsynlegt að ráðast í frekari breytingar á samkeppnislögunum og það þarf að gerast á komandi þingi, segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Morgunblaðið. Hann segir réttarfarsþáttinn ekki síst knýja á um breytingar. Eftirfarandi er frásögn blaðsins:

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að fulltrúar atvinnulífsins hafi verið sammála um að rétt væri að banna ólöglegt samráð fyrirtækja beint og auðvelda beitingu viðurlaga við því, óháð því hvort tækist að sanna að slíkt samráð hefði haft neikvæð áhrif á markaðinn. Enda séu það ólöglegar samráðsaðgerðir og misbeiting markaðsráðandi stöðu sem eigi að vera viðfangsefni samkeppnisyfirvalda en ekki stærð fyrirtækja. Bann við samruna sé því fullkomlega óþarfur fylgifiskur banns við misbeitingu á markaðsráðandi stöðu. Við endurskoðun á samkeppnislögunum á árinu 2000 hafi hins vegar ekkert tillit verið tekið til tillagna fulltrúa atvinnulífsins um hækkun viðmiðunarmarka í því sambandi, en þau séu óhemju þröng hér á landi.

"Þessi endurskoðun varð því miður í skötulíki," segir Ari. "Það var strax ljóst að nefndin, sem viðskiptaráðherra skipaði á árinu 1998 til að meta þörfina fyrir endurskoðun samkeppnislaganna, var yfirvarp og ráðuneytið ætlaði sér ekki að hlusta á raddir eða reynslu úr atvinnulífinu, heldur láta þá menn skrifa lögin, sem sjálfir rannsaka og "dæma" í málum á þessu sviði. Það frumvarp sem kom fram var skrifað af Samkeppnisstofnun og Alþingi blessaði það óbreytt. Samtök atvinnulífsins skrifuðu viðskiptaráðherra bréf vegna þessa í desember 1999, áður en frumvarpið var lagt fram, en því var aldrei svarað."

Að sögn Ara eru ákvæði um húsleitir opnari og óljósari hér á landi en í nágrannalöndunum. Áhyggjuefnið sé þó ekki síst framkvæmd húsleitar. Húsleit sé beitt hér á landi í mál um þar sem rökstudd ástæða sé til að ætla að vægari aðgerðir hefðu átt að nægja.

Ari segir að stjórnsýsla samkeppnismála sé með öðrum hætti hér en í nágrannalöndunum og ýmsar verklagsreglur og viðmiðanir stjórnvalda séu miklu þrengri og harðari hér. Alveg skorti að Samkeppnisstofnun sinni fræðslu- og leiðbeiningarhlutverki jafnframt lögregluhlutverkinu. Það sé sérstaklega mikilvægt á sviðum sem um áratugi þróuðust andstætt hugmyndum samkeppnislaga undir handarjaðri ríkisins, t.d. olíuviðskipti. Auk þess megi nefna að andmælaréttur sé mjög takmarkaður í flókinni stjórnsýslu samkeppnismálanna, þar sem aðilar máls geti ekki sjálfir flutt sitt mál fyrr en fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, þ.e. ekki fyrr en á öðru stigi málsins.

"Það er því bráðnauðsynlegt að ráðast í frekari breytingar á samkeppnislögunum og það þarf að gerast á komandi þingi. Það knýr ekki síst á um þetta að það hefur komið í ljós af reynslu síðustu mánaða að réttarfarsþátturinn í þessum málum er í slæmu ásigkomulagi, en þeirri hlið mála var ekki gefinn mikill gaumur í fyrri endurskoðun."

Samtök atvinnulífsins