09. mars 2023

Brellin er loðnan

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Brellin er loðnan

Nú stendur yfir hámark loðnuvertíðar þessa fiskveiðiárs. Loðnan er komin að hrygningu. Hrognin eru fullþroskuð. Að lokinni hrygningu hefur loðnuhrygnan lokið sínu hlutverki.

Í sjávarbyggðunum víða um land er keppst við að vinna og frysta hrognin sem eru dýrmætasta afurð vertíðarinnar. En hrognavinnslan stendur einungis í nokkrar vikur. Fram að því er loðnan heilfryst með hrognum. En í byrjun vertíðar er hún unnin í mjöl og lýsi.

Fyrirtækin þurfa að vera vel tækjum búin, veiðiskipin að geta komið með hráefnið sem ferskast að landi og vinnufúsar hendur reiðubúnar að taka til hendinni meðan vertíðin stendur yfir. Allt þarf að ganga upp. Allir að hjálpast að.

Það krefst mikils undirbúnings og skipulagningar að ná hámarks verðmætum úr þeim afla sem heimilt er að veiða. Nauðsynlegt er að halda eftir kvóta til að nýta við hrognavinnsluna og frystingu á hrognafullri loðnu. Samstarf sjávarútvegsfyrirtækjanna og Hafrannsóknastofnunar við mat á stofnstærð og veiðiþoli þarf að vera mikið.

Nauðsynlegt er að fyrirtækin þekki vel markaði fyrir loðnuafurðir og eigi trausta viðskiptavini sem greiða sem hæst verð fyrir sem bestar afurðir – hvort sem er mjöl, lýsi, heilfryst loðna eða hrogn. Viðskiptatengsl fyrir afurðirnar byggjast upp á löngum tíma og kaupendur vita að hverju þeir ganga og þegar hámark vertíðarinnar nálgast flykkjast þeir til landsins til að fylgjast með. Þeir vega og meta stærð, þroska og gæði loðnuafurðanna og hjálpa til við að tryggja að verðmætin verði sem mest.

En loðnan gefur sig ekki á hverju ári. Ekkert var veitt árin 2019 og 2020. En á góðu ári geta verðmætin skipt tugum milljarða króna. Og góð loðnuvertíð er því mikil búbót fyrir fólkið og fyrirtækin.

Spennan er því mikil þegar dregur að vertíð. Gefur hún sig eða heldur hún sig fjarri? Verður gangan hefðbundin meðfram norðurströndinni svo austur um, suður og endar jafnvel í Faxaflóa? Kemur kannski vestanganga?

En nú virðist allt ganga vel. Það er fagnaðarefni fyrir okkur öll.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins