Efnahagsmál - 

07. Maí 2002

Bregðast þarf við minnkandi vægi EFTA

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bregðast þarf við minnkandi vægi EFTA

Siri Bjerke, forstöðumaður hjá NHO, norsku samtökum atvinnulífsins, flutti erindi um Evrópustefnu samtakanna á aðalfundi SA. Siri Bjerke er jafnframt fyrrverandi umhverfisráðherra Noregs. Hún sagði ESB-aðild Noregs vera langtímamarkmið samtakanna, en þar sem hún væri ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar Noregs legðu samtökin áherslu á mikilvægi þess að gera sem best úr núverandi stöðu. Hún tók fram að norsk útgerðarfyrirtæki eiga ekki aðild að NHO og að samtök þeirra eru mótfallin því að Noregur gerist aðildarríki ESB.

Siri Bjerke, forstöðumaður hjá NHO, norsku samtökum atvinnulífsins, flutti erindi um Evrópustefnu samtakanna á aðalfundi SA. Siri Bjerke er jafnframt fyrrverandi umhverfisráðherra Noregs. Hún sagði ESB-aðild Noregs vera langtímamarkmið samtakanna, en þar sem hún væri ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar Noregs legðu samtökin áherslu á mikilvægi þess að gera sem best úr núverandi stöðu. Hún tók fram að norsk útgerðarfyrirtæki eiga ekki aðild að NHO og að samtök þeirra eru mótfallin því að Noregur gerist aðildarríki ESB.

Gera sem best úr núverandi stöðu
Bjerke fjallaði í stuttu máli um þróun ESB frá gerð EES-samningsins og nefndi m.a. að EFTA-þjóðir EES væru nú eingöngu 1% íbúafjölda svæðisins, hafandi verið 8% við gerð samningsins. NHO telja nauðsynlegt að bregðast við minnkandi vægi EFTA-stoðar EES. Þannig leggja þau áherslu á nauðsyn samkeppnishæfra starfsskilyrða fyrir norskt atvinnulíf, m.a. til að vega upp á móti því hagræði sem sameiginleg mynt hefur í för með sér fyrir fyrirtæki á evrusvæðinu. Þá telja NHO nauðsynlegt að lögð verði meiri áhersla á kynningu á norskum hagsmunum og á EES-samningnum gagnvart núverandi og væntanlegum aðildarríkjum ESB. Í samskiptum við stofnanir ESB vilja þau að norsk stjórnvöld leggi sérstaka áherslu á sjávarútvegs- og orkumál.

Norska "Lissabon-stefnu"
Ennfremur vilja NHO að norsk stjórnvöld móti sér stefnu samhliða svokölluðum Lissabon-markmiðum ESB, en samkvæmt þeim á ESB að verða samkeppnishæfasta hagkerfi veraldar árið 2010. Í því sambandi er m.a. lögð mikil áhersla á netvæðingu skóla, aukin framlög til rannsókna og þróunar og virkan hagtölusamanburð milli ríkja til að stuðla að því að aðildarríkin dragi lærdóm af þeim sem best standa sig hverju sinni á hverju sviði. Loks velti Bjerke fyrir sér framtíð Evrópuumræðunnar. Hún sagðist telja að afstaða ESB til auðlindanýtingar þyrfti að breytast til að afstaða Norðmanna breyttist. Hún vildi ekki spá fyrir um tímasetningar en sagðist þó telja að Evrópumálin gætu komist á dagskrá eftir næstu þingkosningar í Noregi, sem verða árið 2005.

Sjá glærur Siri Bjerke

Samtök atvinnulífsins