Efnahagsmál - 

13. mars 2009

Bréf til formanna stjórnmálaflokkanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bréf til formanna stjórnmálaflokkanna

Samtök atvinnulífsins lýsa þungum áhyggjum af stöðu atvinnu- og efnahagsmála í bréfi til formanna stjórnmálaflokkanna. Þar segir að allt of hægt hafi gengið að taka lykilákvarðanir um endurreisn atvinnulífsins og seinagangurinn valdi íslenskum fyrirtækjum enn meiri erfiðleikum en fyrirsjáanlegt var. Rúmir fimm mánuðir séu liðnir frá hruni bankanna og tímabært að ráðast í brýnar aðgerðir, t.d. lækkun stýrivaxta í a.m.k. 10%. Samtök atvinnulífsins hafa óskað eftir viðræðum við forystumenn flokkanna um þá alvarlegu stöðu sem ríkir í atvinnulífinu þegar kosningar eru framundan og stjórnmálaleg óvissa bætist við aðra erfiðleika sem við er að etja.

Samtök atvinnulífsins lýsa þungum áhyggjum af stöðu atvinnu- og efnahagsmála í bréfi til formanna stjórnmálaflokkanna. Þar segir að allt of hægt hafi gengið að taka lykilákvarðanir um endurreisn atvinnulífsins og seinagangurinn valdi íslenskum fyrirtækjum enn meiri erfiðleikum en fyrirsjáanlegt var. Rúmir fimm mánuðir séu liðnir frá hruni bankanna og tímabært að ráðast í brýnar aðgerðir, t.d. lækkun stýrivaxta í a.m.k. 10%. Samtök atvinnulífsins hafa óskað eftir viðræðum við forystumenn flokkanna um þá alvarlegu stöðu sem ríkir í atvinnulífinu þegar kosningar eru framundan og stjórnmálaleg óvissa bætist við aðra erfiðleika sem við er að etja.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, skrifar undir bréfið fyrir hönd samtakanna, en þar er m.a. vikið að brýnustu aðgerðunum sem ráðast verður í að mati SA: Lækkun vaxta, afnám gjaldeyrishafta, endurreisn bankakerfisins og víðtækar aðgerðir til að vinna gegn auknu atvinnuleysi.

Í bréfinu segir m.a.:

"Helst hefur miðað í aðgerðum gegn atvinnuleysi þótt það fari enn vaxandi, en aðrar aðgerðir eru í biðstöðu. Það þarf að bregðast við fjárhagslegri stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs en hann tæmist væntanlega á haustmánuðum. Þessi bið skapar mikla óvissu í atvinnulífinu og þrátt fyrir góðan vilja í bönkunum hafa þeir verið gagnrýndir fyrir að fælast ákvarðanir.

Það kemur sífellt betur í ljós að fyrirhuguð stofnun nýrra ríkisbanka er ekki fær leið og mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar vegna takmarkaðs aðgangs þeirra að erlendu lánsfé á næstu árum og þar með möguleika þeirra til að þjóna atvinnulífinu. Áform ríkisstjórnarinnar um að steypa mörgum af lykilfyrirtækjum landsins inn í eitt eignarhaldsfélag á vegum ríkisins munu ekki stuðla að öflugu efnahagslífi heldur þvert á móti draga úr skilvirkni og samkeppni sem bitna mun alvarlega á frammistöðu þeirra."

Þá segir í bréfinu að óvissa um þróun vaxta og gengis krónunnar skapi óþolandi aðstæður við nauðsynlega fjárhagslega uppstokkun margra fyrirtækja. Afar brýnt sé að meiri vissa og trúverðugleiki fáist í þessum efnum. Á meðan þetta óvissuástand ríki séu mörg fyrirtæki uggandi um að gripið verði til ótímabærra og ómarkvissra aðgerða vegna skuldastöðu og greiðsluerfiðleika þeirra. Miklu máli skipti að fyrirtæki sem hafa eðlilega framlegð séu ekki stöðvuð og sett í þrot þrátt fyrir tímabundna erfiðleika.

Þá er undirstrikað í bréfinu að helstu samtök á vinnumarkaði fái aðkomu að störfum peningastefnunefndar Seðlabankans.

Sjá nánar:

Bréf SA til formanna stjórnmálaflokka (PDF)

Samtök atvinnulífsins