Bréf SA til alþingismanna vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins hafa sent alþingismönnum bréf þar sem fjallað er um framgang mála í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga 5. maí 2011. Í bréfinu segir að mikið beri í milli á mati SA og ríkisstjórnarinnar á því hvernig tekist hafi til en veigamest af öllu sé að uppgangur í atvinnulífinu hafi ekki orðið eins og stefnt var að. Fjárfestingar í atvinnulífinu aukist ekki  eins og þurfi til þess að störfum fjölgi og atvinnuleysi minnki umtalsvert. Bréfið má lesa í heild á vef SA.

Í bréfinu segir m.a.:

"Verst er að ríkisstjórnin hefur haft afar takmarkaðan áhuga á ýmsum málum og lítið eða ekkert sinnt þeim. Nánast ekkert af því sem rakið er í IV. kafla yfirlýsingarinnar, "Sókn í atvinnumálum", hefur orðið að veruleika. Þetta rýrir trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og hefur skapað vantraust í garð hennar í röðum atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt sig fram um að vinna með ríkisstjórninni til þess að stuðla að sköpun nýrra starfa og endurheimt lífskjara. Um það bera stöðugleikasáttmálinn frá júní 2009 vitni og samstarfið við ríkisstjórnina í tengslum við kjarasamningana 5. maí sl. en niðurstaða þess birtist í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir takmarkaðan árangur munu samtökin halda áfram að vinna með ríkisstjórninni og öðrum aðilum á vinnumarkaði að framgangi þeirra mála sem enn er unnið að á grundvelli yfirlýsingarinnar."

Samtök atvinnulífsins telja rétt að minna á að AGS spáði í nóvember 2008 við gerð efnahagsáætlunarinnar með þáverandi ríkisstjórn að hagvöxtur á árunum 2011-2013 yrði 13,8%. Síðustu spár gera einungis ráð fyrir 7,7% hagvexti á þessum þremur árum og að landsframleiðslan verði um 100 milljörðum króna minni á árinu 2013 en spáð var.

"Það munar mikið um 100 milljarða króna minni verðmætasköpun árið 2013 þegar litið er til starfa, atvinnuleysis, lífskjara, skatttekna og afkomu ríkissjóðs. Skortur á fjárfestingum í atvinnulífinu er meginskýringin á því að ásættanlegur árangur næst ekki ásamt því að ríkisstjórnin hefur ekki sýnt raunverulegan vilja til þess að fjárfestingar aukist. Sérstaklega á þetta við um sjávarútveg og orkufrekan iðnað, helstu útflutningsgreinar Íslendinga. Eins hægir þetta á afkomubata ríkissjóðs."

Bréf SA til alþingismanna 16. janúar 2012 (PDF)