Brautryðjendastarf í jafnréttismálum

Íslenski jafnlaunastaðallinn er brautryðjendastarf í jafnréttismálum sem á sér ekki fordæmi, en við samningu hans var fyrirmynd sótt í alþjóðlega ISO staðla. Með notkun staðalsins er fyrirtækjum auðveldað að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja og geta þau fengið vottun þar um, ef þau svo kjósa. Þetta sagði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, m.a. á opnum kynningarfundi um nýjan jafnlaunastaðal á Grand Hótel Reykjavík.

Í erindi sínu sagði Hannes ennfremur:

"Kröfur staðalsins skipta mörgum tugum og það hefur verið fulltrúum SA leiðarljós í þessu starfi að gera hann eins einfaldan og skýran og mögulegt er þannig að hann fengi jákvæðar viðtökur hjá fyrirtækjunum. Það verður þó ekki fram hjá því litið að fyrirtæki sem hyggst hlíta honum mun þurfa að kosta til talsverðum fjármunum sem ekki munu skila beinum, mælanlegum ávinningi. Ávinningur fyrirtækis af notkun jafnlaunastaðalsins verður alltaf óbeinn en getur jafnframt orðið verulegur. Ávinningurinn getur falist í faglegri mannauðsstjórnun og þar með ánægðara og áhugasamara starfsfólki. Hann getur einnig falist í bættri ímynd fyrirtækis í augum viðskiptavina vegna áherslna á samfélagsábyrgð og góða stjórnarhætti. Jákvæð ímynd er fyrirtækjum dýrmæt eign og fjárfesting í aðferðum jafnlaunastaðalsins ætti að falla saman við heildarmarkmið framsækinna fyrirtækja.

Minnkandi launamunur

Launamunur og ekki síður tekjumunur milli kynja er staðreynd. Á síðasta ári voru regluleg laun fullvinnandi kvenna 86% af launum karla samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar. Launamunurinn hefur þó minnkað um helming síðasta áratuginn því regluleg laun kvenna voru 70% af launum karla árið 2001. Þetta eru hraðar breytingar sem sýna að konur hafa sótt mikið fram á vinnumarkaðnum.

Atvinnulífið hefur legið undir óverðskulduðu ámæli

Atvinnulífið og opinberir vinnuveitendur liggja jafnan undir ámæli í kjölfar nýrra upplýsinga um launamun kynja og niðurstaðna mismunandi rannsókna á þessum launamun. Niðurstöður rannsókna eru jafnan á þann veg að hluta launamunarins megi skýra á tiltekinn hátt en eftir standi óútskýrður launamunur, sem nefndur er kynbundinn launamunur. Þannig sýna síðustu rannsóknir á félagsmönnum VR 15% mun á heildarlaunum kynja en tæplega 11% óútskýrðan mun og sambærileg könnun fyrir SFR sýndi 24% mun á heildarlaunum og 13% óútskýrðan mun.

Rannsókn Hagfræðistofnunar HÍ fyrir SA á gagnagrunni 100 fyrirtækja leiddi í ljós að mánaðarlaun kvenna voru 18% lægri en karla árið 2006. Mismunandi menntun, starf, aldur og starfsaldur skýrðu 8% munarins, en eftir stóð 10% óútskýrður launamunur kynja. Í niðurstöðum var tekið fram að gögn um ábyrgð og frammistöðu starfsmanna væru ekki tiltæk við rannsóknina.

Loks má nefna ítarlega skýrslu Hagstofunnar um launamun kynja frá febrúar 2010, sem var samstarfsverkefni Hagstofunnar, ASÍ og SA. Byggt var á gagnasafni Hagstofunnar fyrir árin 2000-2007 og voru 20-30 þúsund einstaklingar í safninu hvert ár. Megin niðurstaða rannsóknarinnar var sú að heildarlaunamunur milli kynjanna hefði minnkað en óútskýrður launamunur aukist. Á fyrri hluta tímabilsins, árin 2000-2003 var launamunur kynja 28% og þar af tókst að skýra 22% en eftir stóð 6% óútskýrður launamunur. Á síðari hluta tímabilsins, árin 2004-2007, var launamunurinn kominn niður í 20% og þar af tókst að skýra 12% en 8% stóðu eftir óútskýrð. Í niðurstöðum skýrslunnar sagði orðrétt "að erfitt væri að meta hvort þessi niðurstaða sýndi aukinn launamismun þar sem aðrar ástæður gætu legið að baki, til að mynda að það vanti skýringarbreytur inn í líkanið eða að þær væru ekki nægilega góðar."

Óútskýrður launamunur er ekki launamismunun eða launamisrétti
Viðbrögð álitsgjafa við slíkum niðurstöðum eru oft að lýsa yfir miklum vonbrigðum með óútskýrða launamuninn. Sumir telja fyrrgreindar rannsóknir á launamun fela í sér staðfestingu á að kerfisbundin mismunun eigi sér stað, að þær staðfesti útbreidd brot á ákvæði jafnréttislaga um að greiða skuli körlum og konum jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Í umræðunni hafa verið höfð uppi stóryrði á borð við mannréttindabrot og að kynbundinn launamunur sé smánarblettur á íslensku atvinnulífi. Slík umfjöllun er ófagleg og ómálefnaleg enda um að ræða glannalega túlkun á tölfræðiniðurstöðum. Það er athyglisvert að í tengslum við slíkar niðurstöður koma aldrei fram nein dæmi um einstaklingsbundið launamisrétti milli kynja. Eins og að framan er rakið, þá er í niðurstöðum Hagfræðistofnunar og Hagstofunnar ekki fullyrt neitt um mismunun, þótt einhver launamunur sé óútskýrður, þar sem mikilvægar skýringar á því hvernig laun ákvarðast sé ekki að finna í þeim gögnum sem rannsóknirnar byggja á.

Fyrirtæki hafa ekki hag af því að mismuna fólki - þvert á móti

Það er og hefur verið afstaða SA, sem og systursamtaka í nálægum ríkjum, að það liggi í augum uppi að ekkert fyrirtæki hafi hagsmuni af því að mismuna starfsfólki sínu eftir kynferði eða öðrum þáttum. Það séu slakir stjórnarhættir að mismuna fólki og það dragi úr árangri fyrirtækja. Hagur atvinnulífsins sé ótvírætt fólginn í því að allir starfsmenn fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til starfa og starfsþróunar óháð kynferði. Fyrirtæki sem fyrst og fremst hugsa um afkomu rekstrarins vinna beinlínis gegn markmiðum sínum með því að mismuna konum og körlum í launum. Ef konur væru kerfisbundið með lægri laun en karlar fyrir jafnverðmæt störf myndu fyrirtæki alltaf ráða konur í stað karla til að lækka kostnað og þannig myndu markaðslögmálin jafna muninn.

Þörf fyrir nýjar leiðir - því ekki jafnlaunastaðal?

Jafnlaunaumræðan hefur um hríð verið stöðnuð og lent í blindgötu. Það hefur því verið brýn ástæða til að komast upp úr hjólfarinu og finna nýjar leiðir fram veginn. Jafnlaunastaðall er ein slík leið.

Fyrstu hugmyndum um jafnlaunavottun hér á landi var hreyft af háskólafólki í HR og Bifröst á fyrri hluta ársins 2007 sem hafði hug á að útfæra svipaðar hugmyndir og bandaríska fyrirtækið Catalyst hefur unnið að og að stuðla að breytingum í jafnréttisátt með ráðgjöf og umbunum. Gekk málið svo langt að tillaga um 70 milljóna króna framlag til slíks verkefnis var til umfjöllunar í ríkisstjórn sumarið 2007, en hún hlaut ekki brautargengi.

Hugmyndin um jafnlaunastaðal í svipuðum búningi og nú liggur fyrir þróaðist í tengslum við störf nefndar sem fékk það verkefni að endurskoða jafnréttislögin, sem skipuð var í júní 2006 og skilaði frumvarpi í október 2007.

Í umsögn SA um frumvarpið í nóvember 2007 sagði m.a.: "Meðal fyrirtækja er áhugi á að komið verði á vottunarkerfi sem feli í sér vottun á því að viðurkenndum aðferðum sé beitt við launaákvarðanir. SA hafa lýst sig reiðubúin til þess að styrkja tilraunaverkefni um jafnlaunavottun. Slíkar leiðir, sem byggja á samstarfi og jákvæðri nálgun, eru mun líklegri til árangurs en að leggja sektir á fyrirtæki sem ekki skila eftirlitsaðilum skýrslum eða gögnum." Nálgun SA á þeim tíma var sú að fyrirtæki sem fengið hefðu vottun á framkvæmd stefnu um launajafnrétti frá faggiltri vottunarstofu, sem starfaði samkvæmt kröfum og leiðbeiningum Staðlaráðs Íslands, yrðu undanþegin ýmsum íþyngjandi ákvæðum jafnréttislaganna. Rétt er að hafa í huga í þessu samhengi að alþjóðlegir ISO staðlar eru almennt ekki lögfestir heldur samdir með það í huga að vera valfrjálsir og fyrirtækjum frjálst að fylgja þeim.

Í jafnréttislögunum, sem samþykkt voru 26. febrúar 2008, er bráðabirgðaákvæði sem felur ráðherra að sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Rúmri viku fyrir gildistöku laganna, þann 17. febrúar, höfðu SA og ASÍ undirritað bókun með kjarasamningi um jafnréttisáherslur þar sem m.a. sagði: "Þróað verði vottunarferli sem fyrirtæki geta nýtt sér og feli í sér vottun á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfsþróunar."

Starfshópur sem skipaður var af félags- og tryggingamálaráðherra í október 2007, með aðild stjórnmálaflokkanna og heildarsamtaka vinnumarkaðarins, til að vinna að framgangi launajafnréttis á almennum vinnumarkaði gerði einnig hugmyndinni um jafnlaunastaðal ítarleg skil í skýrslu sem skilað var í þeim myrka mánuði október 2008.

Kynning og markaðssetning staðalsins framundan

Fyrirliggjandi tillaga um jafnlaunastaðal er merkilegt framtak. Liðin eru fjögur ár og fjórir mánuðir frá kjarasamningsbókun SA og ASÍ um hann en fulltrúar í tækni- og vinnunefndum hafa ekki setið auðum höndum. Þvert á móti hefur gríðarleg vinna farið fram á vettvangi Staðlaráðs, ekki síst við leit að færum leiðum og samræmingu ólíkra sjónarmiða. Ég hef stiklað á stóru í lýsingum á tilurð og aðdraganda þessa starfs sem nú hefur skilað þeim áfanga að fyrir liggur einstök tillaga að jafnlaunastaðli. Framundan er kynning og markaðssetning staðalsins meðal fyrirtækja því árangur þessa starfs er undir viðtökum þeirra kominn. Þeir sem unnið hafa að þessu verki binda vonir við að hann fái góðar viðtökur og leiðandi fyrirtæki ríði á vaðið á komandi vetri og hefji ferlið við að uppfylla kröfur staðalsins, öðrum til fyrirmyndar."

Nánari upplýsingar er að finna á vef Staðlaráðs Íslands þar sem hægt er að panta staðalinn til umsagnar, endurgjaldslaust: www.stadlar.is/forsida/