Bráðavandi atvinnulífsins verði leystur

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, segist í samtali við fréttastofu RÚV vera í meginatriðum sammála nýrri ríkisstjórn um áherslur í efnahagsmálum. Einkum því að skapa atvinnu, lækka vexti, afnema gjaldeyrishöft, koma fjárfestingum af stað og skapa þær aðstæður að fyrirtæki þori að ráða fólk í vinnu. Vilhjálmur segist þó vera ósammála þeim leiðum sem fara eigi í sjávarútvegi. Einnig að stofna eigi eignaumsýslufélag um illa stödd fyrirtæki.

Vilhjálmur óskar eftir góðu samstarfi við nýja ríkisstjórn um lausn á bráðavanda atvinnulífsins. Þá sé mikilvægt að stöðugleikasáttmáli verði gerður eins og SA hefur lagt áherslu á.

Í frétt RÚV segir: "Í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar segir að hún fagni frumkvæði aðila vinnumarkaðarins að samráði og samstöðu með ríki og sveitarfélögum um stöðugleikasáttmála. Það sé forgangsmál að ná breiðri samstöðu um markvissa áætlun í efnahags-, kjara- og félagsmálum á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður í sameiginlegri vinnu aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin sé reiðubúin til viðræðna um þau meginmarkmið sem sett hafi verið fram í þeirri vinnu."

Í Morgunblaðinu í dag fagnar Vilhjálmur Egilsson samstarfsvilja ríkisstjórnarinnar. "Það er margt ágætt í þessu plaggi og fyrir okkur í Samtökum atvinnulífsins er sérstök ástæða til þess að fagna miklum samstarfsvilja við okkur, varðandi vinnumarkaðsmál og ýmis önnur hagsmunamál atvinnulífsins."

Vilhjálmur segir þó nokkur mál sem samtökin séu ekki sammála stjórninni um og þar blasi tvennt við: áform um eignarhaldsfélag á vegum ríkisins og fyrningarleiðina í sjávarútvegsmálum. Við fyrstu sýn virtist þó dregið úr mikilvægi eignarhaldsfélags á vegum ríkisins miðað við það sem áður hefði komið fram og flokkarnir nálguðust það sjónarmið sem SA hefði haldið fram; að bankarnir yrðu í lykilhlutverki í uppbyggingu atvinnulífsins og stofnuðu á sínum vegum eignarhaldsfélög sem héldu utan um þau fyrirtæki sem lentu hjá bönkunum en skilið yrði á milli bankanna sem þjónustuaðila annars vegar og eiganda hins vegar.

Sjá nánar:

Frétt á vef RÚV

Smellið hér til að hlusta á frétt RÚV

Morgunblaðið 11. maí 2009

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar