21. desember 2025

Börnin borga brúsann

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Börnin borga brúsann

Þegar kemur að sköpun verðmæta er það ekki svo að velgengni eins sé ólán annars, enda er ekki til föst stærð verðmæta sem einungis þarf að ákveða hvernig skuli skiptast milli manna. Ef svo væri hefðu lífskjör fólks ekki vaxið með veldisvexti eftir að ríki fóru í auknum mæli að nýta sína styrkleika og sérhæfingu með viðskiptum sín á milli. Verðmætin jukust og undir hverjum og einum komið að grípa tækifærin.

Öðru máli gegnir um ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði. Tekjur ríkissjóðs eru takmarkaðar og ráðast reyndar að mestu af téðri sköpun verðmæta hverju sinni. Þegar yfirvöld ráðast í aðgerðir til handa ákveðnum hópum eru það þannig iðulega aðrir hópar sem borga brúsann. Þetta er eðli samneyslunnar.

Ákall aldraðra og öryrkja um bætt kjör hefur borið árangur á umliðnum árum. Bætur almannatrygginga hafa hækkað umfram laun í landinu, sem þó hafa hækkað verulega. Um langa hríð hafa ráðstöfunartekjur eldra fólks jafnframt vaxið umfram yngri aldurshópa. Þrátt fyrir þetta hyggst ríkisstjórnin gefa enn frekar í með hækkun bóta og frítekjumarks ellilífeyris, jafnvel að því marki að sjálfbærni ríkissjóðs og virkni á vinnumarkaði er ógnað.

Hvað með unga fólkið? Eftir því sem þjóðin eldist munu sífellt færri þurfa að standa undir tekjum stækkandi hóps þeirra sem standa utan vinnumarkaðar. Áskoranir blasa við. Staða menntakerfisins er slæm, skattar háir, dagvistun barna ótrygg, húsnæðismarkaðurinn dýr og vaxtastig hátt.

Vandséð er hvernig standa á undir umfangsmiklum velferðarkerfum án þess að hugað sé í auknum mæli að stöðu þeirra sem munu fjármagna kerfin til framtíðar. Það eru hagsmunir allra að málefni ungs fólks fái verðskuldað svigrúm ofar á forgangslista stjórnvalda. Eitt er víst - það vex sem að er hlúð.

Grein Önnu Hrefnu birtist fyrst sem Endahnútur í Viðskiptablaðinu 17. desember

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri SA og forstöðumaður efnahagssviðs