„Boð og bönn tryggja ekki störf”

Mikilvægi sveigjanleikans á íslenskum vinnumarkaði var meðal helstu umfjöllunarefna á málþingi SA og norrænu ráðherranefndarinnar um Evrópuvinnurétt og jafnréttislöggjöf. Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, og Þórarinn V. Þórarinsson, forstjóri Landssímans, sögðu m.a. að takmarkanir á rétti fyrirtækja til þess að segja upp starfsfólki gætu haft þau áhrif að fækka störfum í stað þess að fjölga þeim.


Í setningarávarpi sínu sagði Ari Edwald m.a. að það væri að sínu viti staðreynd að sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar væri mikið verðmæti fyrir þjóðarbúið og hefði átt mikinn þátt í því lága atvinnuleysi, hreyfanleika og vexti, sem hér hefði verið, miðað við mörg Evrópulönd. Óhóflegar takmarkanir á  breytingum í atvinnurekstrinum og á því að hægt væri að segja upp starfsmönnum gætu hæglega orðið bjarnargreiði við launafólk og komið í veg fyrir að ný störf yrðu til. "Stjórnendur þora þá t.d. ekki að ráða nýtt fólk vegna aukinna verkefna sem kynnu að vera tímabundin", sagði Ari.

Í erindi sínu fjallaði Þórarinn V. Þórarinsson um það mikla launaskrið sem orðið hefur hér á landi undanfarin ár, hátt gengi og óvenjulega hátt atvinnustig. Hann varpaði fram þeirri spurningu á hverju íslensk fyrirtæki gætu hugsanlega byggt í alþjóðlegri samkeppni, í ljósi m.a. lítils innanlandsmarkaðar og mikillar fjarlægðar frá öðrum mörkuðum. Þórarinn sagði megin atriðið þar vera sveigjanleikann og snerpuna í íslensku samfélagi. Íslenskt efnahagslíf hefði notið þess að hér hefði ríkt skilningur á mikilvægi þess að viðhalda sveigjanleikanum. Takmörkun á rétti fyrirtækja til að segja upp starfsfólki, þ.e. aðlaga starfsmannafjölda sinn að aðstæðum fyrirtækisins, gæti fækkað störfum í stað þess að fjölga þeim. Fyrirtæki legðu þá síður út í fjölgun starfsfólks til að bregðast við skyndilegum breytingum, ef erfitt væri að skera aftur niður í starfsmannafjölda. Þórarinn lagði áherslu á að ekkert gæti tryggt atvinnuöryggi fólks nema heilbrigt atvinnulíf. Boð og bönn tryggðu ekki störf. Þess vegna yrði að viðhalda sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar.

Í erindi Sigurðar Líndal lagaprófessors kom m.a. fram að verulegar breytingar væru að verða á íslenskum vinnumarkaði vegna stækkunar fyrirtækja og áhrifa frá aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. "Hér má nefna að uppsagnarréttur atvinnurekenda er takmarkaður, upplýsingaskylda er stóraukin og formkröfur hertar." Sagði Sigurður að afleiðing þessa fyrir þjóðfélagið í heild yrði ósveigjanlegri vinnumarkaður sem draga kynni úr samkeppnishæfni fyrirtækja og ef til vill um síðir bitna á launþegum.

Skiptar skoðanir voru í umræðum á málþinginu um ágæti mikils sveigjanleika og um hversu "ósveigjanlegur" íslenski sveigjanleikinn væri orðinn.

Sjá sérstaka síðu um ráðstefnuna.