Blekkingarleikur með skattlagningu lífeyrissjóða

Enn koma fram tillögur um skattlagningu lífeyrissjóðanna frá stjórnmálamönnum sem vilja láta taka sig alvarlega. Nú síðast er lagt til að ríkið "innleysi" skattinneign sína af viðbótarlífeyrissparnaði landsmanna til að fjármagna niðurfærslu Íbúðarlánasjóðs á lánum. Auk þess verði lagðar sérstakar byrðar á lífeyrissjóði vegna hagnaðar af svokölluðum Avens viðskiptum á árinu 2010.

Í Avens viðskiptunum keyptu lífeyrissjóðir skuldabréf í krónum á umsömdu verði í evrum eftir að Seðlabanki Íslands hafði keypt þessi sömu skuldabréf á enn hagstæðara verði af Seðlabanka Lúxemborgar. Seðlabanki Íslands hagnaðist verulega á þessum viðskiptum og gaf lífeyrissjóðunum möguleika á því að fá hluta af hagnaði sínum í framhaldinu. Lífeyrissjóðirnir hefðu aldrei keypt skuldabréfin af Seðlabankanum ef þeir hefðu vitað að til stæði að hirða hagnað þeirra tveimur árum síðar. Skilaboðin til stjórnarmanna lífeyrissjóða eru einföld: Það er aldrei hægt að treysta neinu sem kemur frá opinberum aðilum. Þannig er ljóst að forsendur bresta fyrir áframhaldandi þátttöku lífeyrissjóða í útboðum Seðlabankans á krónueignum fyrir gjaldeyri nema að þessi tillaga sé formlega jörðuð af ríkisstjórn og Seðlabanka.

Viðbótarlífeyrissparnaður hefur verið byggður upp frá árinu 1997 samhliða skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Með viðbótarsparnaði hafa einstaklingar getað uppfyllt þarfir sínar fyrir aukinn sveigjanleika í töku lífeyris og eins þarfir fyrir makalífeyri og jafnvel líftryggingu að hluta til. Viðbótarlífeyrissparnaður er órjúfanlegur hluti af heildarkerfi lífeyrissparnaðar.

Núverandi fyrirkomulag á skattlagningu lífeyrissparnaðar er nauðsynlegt og heilbrigt vegna þess að með því verða lífeyrisþegar jafnframt skattgreiðendur á þeim tíma sem þeir taka lífeyri. Þegar horft er til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar í framtíðinni má ganga út frá því að á árinu 2050 verði rúmlega tveir á vinnumarkaði fyrir hvern einn á lífeyrisaldri.  Þessi breyting þýðir að lífeyrisþegarnir sjálfir munu alltaf þurfa að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem þeir fá frá hinu opinbera.

Stjórnmálamenn samtímans sem tala fyrir því að innleysa skattinneign lífeyrissjóðanna núna geta aldrei staðið við það að útgreiðslur úr lífeyrissjóðum verði skattfrjálsar þegar þar að kemur. Byrðarnar af opinberri þjónustu munu alltaf lenda á lífeyrisþegunum sjálfum að stórum hluta og tekjur þeirra skattlagðar á ný þótt þær hafi verið skattlagðar áður. Loforð um skattfrelsi tekna úr lífeyrissjóðum í framtíðinni er því blekkingarleikur og viðkomandi stjórnmálamönnum til vansa að taka þátt í þeim leik.

Vandi skuldugra heimila og fyrirtækja er mikill. Of hægt hefur gengið að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og fjölga störfum sem er eina raunhæfa leiðin til að komast út úr vandræðunum. Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram margar tillögur um hvernig auka megi fjárfestingu í atvinnulífinu, glæða hagvöxt, minnka atvinnuleysi og auka tekjur heimila og fyrirtækja.

Æskilegt væri að stjórnmálamenn sem vilja láta taka mark á sér hugsuðu um hvernig hægt væri að nota skattkerfið til þess að glæða fjárfestingu og tekjuaukningu í samfélaginu. Ef vilji er fyrir hendi má beita skattkerfinu í þágu skuldugra heimila með réttum hvötum þar sem fólk fær svigrúm til að greiða niður skuldir með vinnu og tekjum. Sú leið er miklu líklegri til árangurs heldur en blekkingarleikur með skattlagningu lífeyrissjóða.

   

Vilhjálmur Egilsson