Fréttir - 

16. apríl 2015

Björgólfur Jóhannsson formaður SA 2015-2016

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Björgólfur Jóhannsson formaður SA 2015-2016

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, var endurkjörinn formaður samtakanna á aðalfundi SA 16. apríl. Björgólfur var kjörinn með rúmlega 98% greiddra atkvæða í rafrænni atkvæðagreiðslu sem fram fór meðal aðildarfyrirtækja SA og var þátttaka góð. Björgólfur ávarpaði Ársfund atvinnulífsins í kjölfarið en ávarp hans má lesa hér á vef SA.

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, var endurkjörinn formaður samtakanna á aðalfundi SA 16. apríl. Björgólfur var kjörinn með rúmlega 98% greiddra atkvæða í rafrænni atkvæðagreiðslu sem fram fór meðal aðildarfyrirtækja SA og var þátttaka góð. Björgólfur ávarpaði Ársfund atvinnulífsins í kjölfarið en ávarp hans má lesa hér á vef SA.

 „Kaupgjaldssamningar á Íslandi hafa allt fram á síðustu ár minnt mig á smásögu eftir Ignazio Silone. Fátækir bændur og landeigandi skiptu með sér vatni úr fjallalæk, sem féll um hið þurra land þeirra. Deilunni um skiptingu vatnsins lauk með því, að hvor aðili skildi fá tvo þriðju hluta vatnsins! Um þetta var samið. Allir voru ánægðir.“ Þetta er tilvitnun í æviminningar Benjamíns H. J. Eiríkssonar, sem út komu 1996.

Við stöndum frammi fyrir kröfum um 30% - 50% kauphækkanir einstakra verkalýðsfélaga á sama tíma og efnahagslegt svigrúm er fyrir einn tíunda af kröfunum. Forysta verkalýðsfélaganna stefnir félagsmönnum sínum til verkfalla og telur að þótt kröfurnar fáist samþykktar þá muni það ekki hafa áhrif út fyrir eigin raðir. Kannski telja einhverjir að þetta geti gengið upp hjá fámennum hópum. Að það skiptu engu máli fyrir aðra þótt laun eins hóps hækki hressilega.

En það er ekkert rými fyrir laumufarþega sem geta rifið sig lausa frá samfélaginu. Það fylgjast allir með og sértök launahækkun eins hóps leiðir óhjákvæmilega til aukinna krafna annarra. Enda hefur þorri stéttarfélaganna uppi svipaðar kröfur. Og það er engin leið til að verða við þeim.

Ég hef áður hvatt til að þess að gætt sé hófs þegar laun stjórnenda fyrirtækja og stjórna þeirra eru ákveðin. Samtök atvinnulífsins hafa markað ákveðna stefnu um launaþróun næstu misserin. Sú stefna á að sjálfsögðu að ná til stjórnenda fyrirtækjanna og stjórna þeirra. Það er ekkert svigrúm nú til að leiðrétta laun þessa hóps frekar en annarra. Þar verða allir að sýna ábyrgð.

Breytt skipulag vinnumarkaðar

Allir sem komnir eru af barnsaldri þekkja víxlverkanir kaupgjalds og verðlags. Og viðsemjendurnir eru vissulega flestir komnir vel til vits og ára. Þeir vita hvað gerist þegar launahækkanir í kjarasamningum fara langt umfram það sem fyrirtækin standa undir. Vörur hækka í verði, vextir verða hærri, skuldir fólks hækka og gengi krónunnar lækkar. Og það mun taka lengri tíma en ella að lífskjör almennings batni og verði svipuð því sem best gerist í kringum okkur.

Vandinn sem við er að etja tengist skipulagi vinnumarkaðarins. Það er brýn nauðsyn að  ná samkomulagi  aðila á almennum og opinberum vinnumarkaði um leikreglur við gerð kjarasamninga og úrræði til að styðja við þær. Kjarasamningar verða að byggja á svigrúmi útflutnings- og samkeppnisgreina til launabreytinga og styðja við almenna hagstjórn sem tryggi stöðugleika, lága verðbólgu, hóflega vexti og festu í gengi krónunnar. Markmiðið verði að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins, öflugan hagvöxt, fjölgun starfa og betri lífskjör.

Ný leið í kjarasamningum

Í aðdraganda kjarasamninganna gáfu heildarsamtök á vinnumarkaði út skýrslu um efnahagsumhverfi og launaþróun. Þar kom fram að laun allra helstu hópa höfðu þróast mjög svipað undanfarin ár. Það er að vísu misjafnt hvað hver hópur fékk í hverjum samningum en þegar upp var staðið var munurinn lítill. Höfrungahlaup einstakra hópa milli samninga skilar þeim ekki miklum árangri.

undefined

Samtök atvinnulífsins hafa boðið stéttarfélögunum að fara nýja leið í samningunum. Þess verði freistað að hækka grunnlaun en lækka um leið álagsgreiðslur á laun. Breytingarnar geta leitt til minni yfirvinnu og að dagvinnulaun dugi til framfærslu. Þetta gerist þó ekki í einu vetfangi. Fyrirtækin þurfa tíma til aðlögunar. En þegar fram í sækir geti ný launakerfi orðið ráðandi í atvinnulífinu.

Samtökin eru stolt af árangri af kjarasamningunum síðasta árs. Kaupmáttur hefur aldrei aukist jafn mikið á einu ári. Verðbólga var minni en um áratugaskeið og stýrivextir lækkuðu töluvert á sama tíma. Þetta sýnir að hóflegar launahækkanir eru best til þess fallnar að tryggja aukinn kaupmátt, betri lífskjör og til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í landinu. Og með þessu hefur nú þegar myndast innistæða fyrir frekari lækkun vaxta, sem mun hverfa eins og dögg fyrir sólu nái kröfur stéttarfélaganna fram að ganga.

Mikill jöfnuður á Íslandi

undefined 

Hér á landi er jöfnuður meiri en víðast. Tekjujöfnuður samkvæmt svokölluðum Gini – stuðli er næstmestur hér í Evrópu.

undefined

Það er einnig athyglisvert að bera saman tekjuskatt og tryggingagjöld og taka mið af vaxtabótum, barnabótum og öðrum tekjutilfærslum til einstakra hópa. Í ljós kemur að einstætt tveggja barna foreldri með lágar tekjur er í svipaðri stöðu hér og á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar er fjölskylda með tvö börn betur sett hér en annars staðar. Þegar verið er að bera saman laun milli landa verður að taka tilliti til áhrifa skatta og þeirra bóta, sem greiddar eru þeim sem á þurfa að halda.

undefined

Sama mynstur kemur einnig í ljós þegar aðrir tekjuhópar eru bornir saman. Greiddir skattar hér eru svipaðir eða lægri en annars staðar á Norðurlöndum þegar bætur eru teknar með í reikninginn. Danir greiða á þennan mælikvarða hærri skatta en aðrir Norðurlandabúar.

Allir vilja meira en aðrir

Nú vill svo til að formaður Bandalags háskólamanna, sem leiðir verkfall hópa innan bandalagsins vill endurtaka kjarasamninga bandalagsins, sem hann skrifaði undir 1989. Það er því rétt að rifja upp að í þeim fimm ára samningi fólst að félagsmenn BHM fengu mun meiri launahækkanir en áður hafði verið samið um á vinnumarkaðnum. Að auki skyldu félagsmennirnir fá sambærilegar hækkanir og aðrir næstu árin. Þessi kjarasamningur var gerður eftir sex vikna verkfall meðal annars í framhaldsskólunum. Engin leið var til að samningsaðilar á almenna vinnumarkaðnum gætu sætt sig við þessa niðurstöðu. Enda var samningurinn afnuminn með bráðabirgðalögum í kjölfar þjóðarsáttasamninganna 1990. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve ábyrgðarlaus nálgun formanns BHM er að viðfangsefni sínu.

Myndin af kröfugerðum stéttarfélaganna er því þessi: Starfsgreinasambandið krefst tugprósenta launahækkana og vill líka að þeir sem hæst hafa launin fái mest og greiða félagsmennirnir nú atkvæði um vinnustöðvanir sem hefjast innan tíðar. Önnur landssambönd og BHM leggja einnig fram mjög háar kröfur.  Markmið allra hópa er að enginn fái meira en þeir – og að þeir fái meira en aðrir.

Það heyrist ekki í neinum forystumanni stéttarfélags, sem virðist hafa áhyggjur af því að verðlag og vextir hækki, skuldabyrði fólks vaxi, að gengi krónunnar muni veikjast og að nýr verðbólguspírall geti farið af stað.

Í aðdraganda þjóðarsáttarsamninganna 1990 höfðu helstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar dregið þá ályktun að óstöðugleiki og óðaverðbólga kæmu verst við þá sem lægstar hefðu tekjurnar. Það sama kom einnig berlega í ljós í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þetta á enn við og þeir sem fara verst út úr nýjum kollsteypum eru þeir sem síst mega við áföllum í sínum heimilisrekstri.

Aukin samkeppnishæfni til framfara

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tillögur og hugmyndir um hvernig megi auka samkeppnishæfni fyrirtækjanna þannig að fjárfestingar aukist, nýsköpun eflist og að þau stundi markvissa vöruþróun og markaðssókn. Með stöðugleika síðasta árs hefur Ísland þokast ofar á listum um samkeppnishæfni en þó er enn mikið verk að vinna áður en landið verður meðal þeirra tíu efstu.

Frjáls viðskipti eru grundvöllur framfara í atvinnulífinu. Alþjóðleg viðskipti og samkeppni tryggir best árangur fyrirtækjanna og að neytendur fái sem bestar vörur og þjónustu á sem hagstæðustu verði. EES – samningurinn er mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands og hefur reynst atvinnulífinu, og um leið þjóðinni, afar verðmætur. Það er nauðsynlegt að nýta þá möguleika sem í honum felast, fylgjast betur með undirbúningi að breytingum sem á honum kunna að verða og trassa ekki að framfylgja honum.

Meðan gjaldeyrishöft eru við líði þá eru viðskiptin ekki frjáls, það dregur hægt og rólega úr nýsköpun og nauðsynlegum fjárfestingum. Sérstaklega á þetta við um greinar sem byggja á hugviti og framtaki einstaklinga en ekki á aðgengi að sérstakri aðstöðu eða auðlindum. Með höftum vex efnahagslífið hægar en ella, framfarir eru hægari og um leið verða störf færri en annars.

Þótt höftin dragi smám saman þrótt úr atvinnulífinu þá hafa þau ekki á sér yfirbragð bráðavanda, sem verði að leysa strax. Því hafa þau staðið allt of lengi og stöðugt er slegið á frest að leysa brýn mál sem höftunum tengjast. En höftin verða ekki losuð án óvissu um hver atburðarásin geti orðið og hver áhrif verða á gengi krónunnar. Stjórnvöld geta ekki komist undan því að tryggja að viðskipti með krónunna geti verið að langmestu leiti frjáls og án afskipta og eftirlits hvort sem á við um fjárfestingar íslenskra fyrirtækja erlendis eða erlendra aðila hér á landi.

Getum gert betur

Árangur íslensks samfélags á mörgum sviðum er undraverður. Við lifum lengur en flestir og lífsgæði eru með því besta. Þrátt fyrir þetta stendur þjóðin vissulega frammi fyrir verðugum verkefnum á næstu árum og áratugum. Skuldbindingar ríkisins eru miklar og framundan eru risavaxnar áskoranir eins og að standa undir stöðugt vaxandi lífeyrisútgjöldum, kostnaði vegna sífellt eldri þjóðar og auknum heilbrigðisútgjöldum. Á sama tíma verður skattbyrði fólks og fyrirtækja ekki aukin heldur verður að draga úr kostnaði og auka hagkvæmni á sem flestum sviðum. Einkarekstur, samkeppni og árangursmælikvarðar eru nauðsynleg tæki til að gera betur í opinberum rekstri.

Því öflugra sem atvinnulífið er, því meiri verða tekjur ríkis og sveitarfélaga. Þegar vel gengur í rekstri fyrirtækjanna, geta þau greitt betri laun og þá aukast tekjur hins opinbera. Lífskjörin batna.

Samtökin hafa lagt vaxandi áherslu á góða stjórnarhætti í atvinnulífinu og hvatt til aukinnar þátttöku kvenna í rekstri og stjórnun fyrirtækja. Sett hafa verið viðmið um setu fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða. Samtökin höfðu frumkvæði að þvi að gerður væri staðall um jafnlaunavottun. Þau hvetja fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum, til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og að starfsmönnum sé tryggt gott og öruggt starfsumhverfi.

Velgengni í atvinnulífnu byggir á traustu og stöðugu efnahagsumhverfi. Starfsskilyrðin verða að vera svipuð og í helstu samkeppnislöndum. Í fyrirsjáanlegri framtíð verður íslenska krónan gjaldmiðill okkar og sá kostnaður sem henni fylgir gerir kröfur um enn meiri stöðugleika og hagstæðara rekstrarumhverfi en ella. Vextir sem fylgja smáum gjaldmiðli eru hærri en ella og hætta á sveiflum í verðmæti hans sömuleiðis meiri. Kröfur til aga í hagstjórn og rekstri hins opinbera eru síst minni en annars staðar.

Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið þjóðarinnar að hér ríki stöðugleiki, að atvinnulífið sé öflugt, að skattbyrðin sé hófleg, að utanríkisviðskiptin séu í jafnvægi og að kaupmáttur fari vaxandi.

Hverjar verða kröfurnar næst?

Það stangast á við öll þessi markmið að efna til verkfalla til að ná fram kröfum um launabreytingar langt umfram það sem hægt er að standa undir. Sama hvernig fer, þá verður engin sigurvegari í þeim átökum. Allir tapa.

Forystumenn stéttarfélaganna virðast komast upp með að svara ekki spurningum um hvað felist í launakröfum og villa um fyrir almenningi um laun og tekjur félagsmanna. Aðgerðir þeirra hafa áhrif langt út fyrir eigin raðir. Því verða fjölmiðlar og aðrir, sem hafa það hlutverk að upplýsa og fræða almenning um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, að vera miklu betur á verði gagnvart hópi sem er í stöðu til að valda gríðarlegu tjóni, sem taka mun mörg ár að bæta. Það má til dæmis spyrja forystumennina, hvaða kröfur verða uppi næst þegar kjarasamningar verða lausir og verðbólgan  10 til 20 prósent, vextirnir miklu hærri en nú, verðmæti krónunnar mun minna og skuldir allra hafa hækkað mjög mikið.

Við höfum reynt þetta allt áður og það er sorglegt að menn vilji hefja þennan leik að nýju.

Átök ekki góð leið til framfara

Það er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvernig standi á miklum vilja til átaka í þjóðfélaginu. Á mörgum sviðum virðist enginn vilja gefa eftir fyrr en í fulla hnefana. Menn beita þeim meðölum sem tæk eru til að ná fram markmiðum sínum og jafnvel án tillits til þess hvaða áhrif þau hafa á aðra. Villandi samanburður, þar sem sagður er hálfur sannleikur, veður uppi. Allt er lagt út á versta veg, mönnum gerðar upp annarlegar hvatir og neikvæðni ráðandi í almennri umræðu.

Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Samfélag manna breytist hægt og hlutirnir þróast til betri vegar á löngum tíma. Í nálægum löndum er þetta viðurkennt, stjórnvöld koma og fara án þess að kollsteypur verði í efnahagslífinu eða reynt sé að knýja fram víðtækar breytingar á þjóðfélagsgerðinni á skömmum tíma. Kjarasamningar ár eftir ár og áratug eftir áratug byggja á mjög lágum hlutfallshækkunum og því að kaupmáttur aukist hægt og bítandi.

Við þekkjum sjálf allt of mörg dæmi um hverjar afleiðingarnar geta orðið þegar menn sjást ekki fyrir í ákafa sínum og athöfnum.

Það ná engir hópar til sín betri lífskjörum en aðrir á skömmum tíma og engin leið til að verkföll geti bætt mönnum upp fyrri áföll eða meintar misgjörðir frá fyrri árum. Tækifærin eru hins vegar næg og unga fólkið okkar verður að geta notið ávaxtanna af því að stofna til eigin rekstrar þegar vel gengur. Gróskan í atvinnulífinu er í litlu fyrirtækjunum. Þar eru hlutirnir gerðir betur en áður.

Leiðin til betri lífskjara fyrir hvern og einn er sú sama og fyrir alla aðra. Það er ekki til nein töfralausn eins og sú sem landeigandinn og bændurnir fundu í sögunni hér að framan.

Samtök atvinnulífsins vilja vinna með forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvöldum að leiðum til að bæta hag allra.

Björgólfur Jóhannsson, á Ársfundi atvinnulífsins, 16. apríl 2015.

Samtök atvinnulífsins