Bjartsýni stjórnenda fer minnkandi

Mun fleiri stjórnendur telja að núverandi aðstæður í atvinnulífinu séu góðar en að þær séu slæmar, en flestir telja þær hvorki góðar né slæmar. Væntingar um að þær fari batnandi eru minni en áður. Nægt framboð er af starfsfólki en helst skortir það í flutningum og ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ráð fyrir lítilsháttar fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði.

Fjárfestingar aukast meira á árinu en undanfarin ár. Að jafnaði vænta stjórnendur 3,0% verðbólgu næstu tvö árin en aðeins 1,2% hækkun á vörum og þjónustu eigin fyrirtækja næstu sex mánuði. Stjórnendur búast við að gengi krónunnar veikist um 2% á næstu 12 mánuðum og að stýrivextir Seðlabankans hækki. Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í mars 2015 fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Aðstæður góðar í atvinnulífinu
Stjórnendur telja almennt að aðstæður í atvinnulífinu séu góðar og er það jafn gott og mat þeirra var á árinu 2007. 52% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu hvorki vera góðar né slæmar, 41% telur þær góðar en 6% slæmar. Í öllum atvinnugreinum telja fleiri stjórnendur aðstæður vera góðar en slæmar og er matið jákvæðast í verslun og þjónustu en lakast í byggingarstarfsemi og iðnaði.

Minnkandi bjartsýni varðandi næstu 6 mánuði
Sú breyting hefur átt sér stað milli kannana að mat stjórnenda á núverandi aðstæðum er betra en á aðstæðum eftir sex mánuði. Það hefur ekki gerst síðan í desember 2007, sbr. meðfylgjandi mynd, sem sýnir svonefnda vísitölu efnahagslífsins. Þrátt fyrir það telja 40% þeirra aðstæður verða betri, tæplega helmingur að þær verði óbreyttar, en rúmlega 10% að þær verði verri.

undefined

Nægt framboð af starfsfólki
Skortur á starfsfólki er ekki tilfinnanlegur að mati stjórnenda sem er svipuð niðurstaða og í undanförnum könnunum. 83% stjórnenda telja nægt framboð af starfsfólki en 17% að það sé skortur. Skorturinn er mestur í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu, þar sem 30% stjórnenda telja skort ríkjandi, en minnstur í sjávarútvegi og fjármálaþjónustu þar sem 10% stjórnenda telur skort vera á starfsfólki.

Lítilsháttar fjölgun starfsmanna á næstunni
Hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfa 31 þúsund starfsmenn. 21% stjórnenda sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 13% sjá fram á fækkun en 67% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna fæst að starfsmannafjöldi þeirra í heild muni vaxa um 350 eða um 0,3% á næstu sex mánuðum. Mest fjölgun er áformuð í flutningum og ferðaþjónustu, þar á eftir í iðnaði og þjónustu en minnst í verslun. Í fjármálastarfsemi eru ekki áformaðar breytingar á starfsmannafjölda.

undefined

Batnandi nýting framleiðslu- og þjónustugetu
Þeim stjórnendum fer áfram fækkandi sem telja vandalítið að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu og að sama skapi fer þeim fjölgandi sem telja það nokkuð vandamál. Nánar til tekið telja 63% það vera vandalaust samanborið við 69% fyrir ári síðan.

Búast við auknum hagnaði árið 2015 …
40% stjórnenda búast við að hagnaður, sem hlutfall af veltu, verði meiri á þessu ári en árið 2014, helmingur að hann verði óbreyttur en rúmlega 10% að hann verði minni. Hlutfall þeirra sem telja að hagnaður aukist hefur hækkað töluvert frá síðustu könnun.

... og aukinni framlegð
Væntingar stjórnenda um framlegð, EBITDA, næstu sex mánuði eru svipaðar og um hagnað á árinu.  Þannig búast 40% við því að framlegð aukist, helmingur að hún standi í stað og rúm 10% að hún minnki. Framlegð hefur aukist á síðustu sex mánuðum að mati stjórnendanna.

Væntingar um aukna eftirspurn bæði innanlands og erlendis
Helmingur stjórnenda býst við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum, 46% að hún standi í stað en einungis 4% að hún minnki. Svipað gildir um erlenda eftirspurn þar sem 46% búast við því að hún aukist, 50% að hún verði óbreytt og 4% að hún minnki.

Fjárfestingar aukast á árinu
Fjárfestingar fyrirtækjanna munu aukast á árinu samkvæmt könnuninni. 30% stjórnenda sjá fram á auknar fjárfestingar, 18% að þær minnki og 52% að þær verði svipaðar og árið 2014. Þetta bendir til meiri atvinnuvegafjárfestinga en um langt árabil, þar sem fjárfestingavísitala atvinnulífsins hefur ekki verið hærri frá árinu 2005. Langmest aukning fjárfestinga er áætluð í flutningum og ferðaþjónustu.

undefined

Vænta hækkunar stýrivaxta
Stjórnendur búast við að stýrivextir Seðlabankans verði (veðlánavextir) 5,6% eftir 12 mánuði en þeir eru nú 5,25%. Þetta er  0,3% lægra en í síðustu könnun.

Væntingar um 3,0% verðbólgu á árinu
Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 3,0%, sem er um 0,5% hærra en í síðustu könnun, en að meðaltali eru verðbólguvæntingarnar 2,7%. Miðgildi væntinga stjórnenda á verðbólgu eftir 2 ár er 3,1% en 3,6% að meðaltali.

Tæp 60% stjórnenda eiga von á því að verð á vöru og þjónustu eigin fyrirtækja á innanlandsmarkaði verði óbreytt næstu sex mánuði, tæp 40% búast við að það hækki en 5% að það lækki. Að jafnaði er búist við 1,2% verðhækkun á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu sex mánuðum og 1,7% hækkun aðfanga. Búist er við 0,5% verðhækkun vöru og þjónustu á erlendum markaði.

undefined

Vænta lítilsháttar lækkun gengis krónunnar
Stjórnendur vænta þess að gengi krónunnar veikist um 2,0% á næstu 12 mánuðum.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmdin í höndum Gallups. Kannanir með 7 og 19 spurningum skiptast á.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 19. febrúar til 10. mars 2015 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 450 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 269 þeirra þannig að svarhlutfall var 60%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Iðnaður, (2) sjávarútvegur, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) flutningar, samgöngur og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.