Fréttir - 

30. Desember 2014

Betri lífskjör með stöðugleika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Betri lífskjör með stöðugleika

Komandi ár getur markað tímamót í íslensku efnahagslífi. Nú gefst einstakt tækifæri til að bæta lífskjör varanlega á grundvelli nýfengins stöðugleika. Til þess þarf að halda vel á spöðunum. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum fjórum árum. Hagvöxtur hefur verið samfelldur frá 2011, verðbólgan hefur hjaðnað, kaupmáttur aukist og störfum fjölgað. Atvinnulífið hefur rétt úr kútnum eftir mikinn samdrátt áranna 2008 til 2010.

Komandi ár getur markað tímamót í íslensku efnahagslífi. Nú gefst einstakt tækifæri til að  bæta lífskjör varanlega á grundvelli nýfengins stöðugleika. Til þess þarf að halda vel á spöðunum. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum fjórum  árum. Hagvöxtur hefur verið samfelldur frá 2011, verðbólgan hefur hjaðnað, kaupmáttur aukist og störfum fjölgað. Atvinnulífið hefur rétt úr kútnum eftir mikinn samdrátt áranna 2008 til 2010.

Á árinu jókst kaupmáttur launa um 5%, verðbólga fór úr 4% í 1%, almenningur horfir bjartari augum til framtíðar og stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru bjartsýnni en þeir hafa verið um árabil. Þetta er gott vegarnesti inn í nýtt ár.

Enn eru þó hindranir á veginum. Ríkissjóður er afar skuldsettur þótt tekist hafi að ná tökum á hallarekstri hans. Sá árangur náðist ekki með niðurskurði í ríkisrekstrinum heldur með stórfelldum skattahækkunum á atvinnulíf og heimili ásamt niðurskurði fjárfestinga og viðhalds. Núverandi ríkisstjórn hefur að undanförnu lækkað skatta á heimilin samhliða bættri afkomu en hækkað skatta á atvinnulífið enn frekar. Ríkisstjórnin verður að sýna mun meiri ráðdeild ef takast á að greiða niður himinháar skuldir ríkissjóðs og draga úr skattbyrði atvinnulífsins. Ekki má gleyma mikilvægi þess að losa um gjaldeyrishöftin. Samkeppnishæft og alþjóðlegt atvinnulíf verður ekki byggt upp innan hafta. Mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar nú eru farsælt afnám gjaldeyrishafta og aukið aðhald í ríkisrekstrinum.

Jákvæð þróun
Markverðast er þó að í fyrsta sinn um áratugaskeið er efnahagslífið knúið af útflutningsgreinunum.  Útflutningstekjur hafa numið liðlega 55% af landsframleiðslu undanfarin fimm ár samanborið við 33% að meðaltali allt frá stríðslokum fram að efnahagshruninu 2008. Þetta er grundvallarbreyting á íslensku efnahagslífi. Útflutningsgreinarnar standa nú undir lífskjörum þjóðarinnar svipað og á við um önnur Norðurlönd. Hér er nú hæst hlutfall útflutningstekna af landsframleiðslu á Norðurlöndum en var lægst fyrir sex árum.

Þessi þróun er mjög jákvæð og í anda ráðlegginga í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey. Þar kom fram að nauðsynlegt er að auka enn hlutdeild útflutningsgreina til að byggja upp samkeppnishæf lífskjör við nágrannalönd. Þetta þurfti  ekki að koma á óvart. Útflutningur héðan hefur ávallt verið einhæfur og ekki nægt til að standa undir neyslu og fjárfestingum. Afleiðingin var viðvarandi viðskiptahalli og skuldasöfnun í áratugi. Samkeppnisfær lífskjör verða að byggja á auknum útflutningstekjum. Árangur undanfarinna ára er mikilvægt skref í rétta átt.

Ekki er sjálfgefið að það takist að viðhalda þessum góða árangri. Tuttugasta öldin geymir samfellda hamfarasögu útflutningsgreina á Íslandi. Há og viðvarandi verðbólga, knúin áfram af launahækkunum langt umfram það sem tíðkast í nágrannalöndunum, hefur reglubundið grafið undan útflutningsatvinnuvegunum þar til í óefni var komið og samkeppnisstaða þeirra var rétt af með gengisfellingu. Af þessu virðumst við lítið hafa lært. Að aflokinni hverri gengisfellingu hefst jafnan sama atburðarás og orsakaði hana. Niðurstaðan er líka ávallt sú sama, aftur og aftur. Gengi krónunnar hefur fallið eða verið fellt um tugi prósenta á fimm til tíu ára fresti. Ekki vegna óhagstæðra ytri skilyrða heldur vegna lélegrar hagstjórnar heima fyrir.

Áskoranir framundan
Nú er tækifæri til að brjótast út úr þessum vítahring. Útflutningsfyrirtækin búa við hagfelld og stöðug rekstrarskilyrði. Viðskiptakjörin erlendis eru að batna eftir áföll síðustu ára, innlend verðbólga er lítil og vextir fara lækkandi. Uppskeran er eins og sáð var til. Lykillinn að áframhaldandi velgengni felst í því að éta ekki útsæðið, eins og tíðkast hefur á undanförnum áratugum

Þrátt fyrir góðan árangur af síðustu kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er mikil ólga ríkjandi. Helsta orsök hennar er að einstakir hópar opinberra starfsmanna hafa samið um mun meiri launahækkanir en samið var um á almennum vinnumarkaði. Þróunin er kunnugleg.  Takist ekki að stöðva hefðbundið höfrungahlaup á vinnumarkaði má búast við að gamalkunnugar víxlhækkanir launa og verðlags hefjist á nýjan leik. Innlend verðbólga mun aukast, raungengið styrkjast og enn á ný verður grafið undan starfsskilyrðum útflutningsfyrirtækja.

Það er til önnur leið. Með samstilltu átaki er unnt að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga og tryggja að launahækkanir samræmist verðstöðugleika. Þannig er best að tryggja aukinn kaupmátt og lægri vexti. Þannig  er unnt að skapa atvinnulífinu samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Lífskjörin batna.

Tökum höndum saman og nýtum tækifærin á nýju ári.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kemur út í dag.

Samtök atvinnulífsins