Efnahagsmál - 

03. janúar 2002

Betri horfur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Betri horfur

Við upphaf nýs árs bendir margt til þess að betra jafnvægi sé að komast á í efnahagslífinu sem geti verið landsmönnum ný viðspyrna til efnahagslegra framfara. Miklar kostnaðarhækkanir, ofþensla og mikill viðskiptahalli settu mark sitt á síðustu misseri, sem hafði þær afleiðingar að gengi íslensku krónunnar gaf eftir og aukin verðbólga fylgdi í kjölfarið. Blasir reyndar við að gengi krónunnar hafi orðið lægra en efnahagslegar forsendur voru fyrir eða samkeppnisskilyrði atvinnulífsins kölluðu á og er nú að styrkjast aftur.

Við upphaf nýs árs bendir margt til þess að betra jafnvægi sé að komast á í efnahagslífinu sem geti verið landsmönnum ný viðspyrna til efnahagslegra framfara. Miklar kostnaðarhækkanir, ofþensla og mikill viðskiptahalli settu mark sitt á síðustu misseri, sem hafði þær afleiðingar að gengi íslensku krónunnar gaf eftir og aukin verðbólga fylgdi í kjölfarið. Blasir reyndar við að gengi krónunnar hafi orðið lægra en efnahagslegar forsendur voru fyrir eða samkeppnisskilyrði atvinnulífsins kölluðu á og er nú að styrkjast aftur.

Þar spilar inn í það samkomulag sem SA og ASÍ náðu í desember í samráði við ríkisstjórnina, um að fresta skoðun á forsendum kjarasaminga og setja verðbólguforsendu samninganna skýrt tölugildi miðað við maí nk. Fái sú forsenda staðist verður ekki um frekari breytingar á samningum að ræða en felast í þeim efnisatriðum sem um samdist í desember, þ.e. að viðbótarframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð verður í minna mæli háð sparnaði starfsmanns frá 1. júlí 2002 og laun hækka um 0,4% meira en ella 1.janúar 2003.

Það má til sanns vegar færa að verðbólgumarkmiðið er "metnaðarfullt" eins og það hefur verið kallað, en það er engu að síður raunhæft, þrátt fyrir þá hækkun á verðlagi sem mæld var í síðasta mánuði og búast má við nú í janúar. Eins og sést af könnun SA um starfsmannahald sem sagt er frá í þessu fréttabréfi hefur dregið verulega úr spennunni á vinnumarkaði. Einkaneysla hefur minnkað og sparnaður er að aukast. Við þessar aðstæður verður erfiðara að koma fram almennum verðhækkunum, auk þess sem olíu- og fasteignaverð virðist munu vinna með þessum markmiðum. Samkvæmt ársfjórðungstölum Þjóðhagsstofnunar fyrir þriðja ársfjórðung hefur hagvöxtur stöðvast og spáð er samdrætti á þessu ári. Þær aðstæður eru því að skapast sem Seðlabankinn hefur talið vera forsendur fyrir frekari vaxtalækkunum. Jákvæðar fréttir af aukningu aflaheimilda og líkindum á stóriðjuframkvæmdum gefa þó von um að samdrátturinn ætti ekki að verða nærri því eins mikill og síðast þegar landsframleiðsla dróst saman árið 1992, auk þess sem jákvæðar fréttir brast af útrás og nýjum áformum af ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Á miklu mun þó velta að markmið um stöðugt verðlag náist. Það verður því að gera þá kröfu til allra þeirra aðila sem haft geta áhrif á þessa framvindu að þeir leggi sitt lóð á vogarskál þessara markmiða en fari ekki sínu fram án tillits til heildarhagsmuna. Eins og áður hefur verið vikið að á þessum stað er stjórntækið verðstöðvun vissulega úrelt, en við þær aðstæður sem nú eru, að næstu örfáir mánuðir skipta sköpum um framhald verðstöðugleika og þróun efnahagslífs, er rétt að allir aðilar sýni aðhald og fresti og endurmeti þörf á hækkunum. Í raun skiptir það sköpum fyrir alla framvindu efnahagsmála á næstu misserum.


 

Ari Edwald.

Samtök atvinnulífsins