Efnahagsmál - 

01. júní 2006

Betri heilbrigðisþjónusta, minni tilkostnaður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Betri heilbrigðisþjónusta, minni tilkostnaður

Útgjöld til heilbrigðismála vaxa hratt á Íslandi og samkvæmt spám OECD verður íslenska heilbrigðiskerfið orðið það dýrasta í heimi innan fárra áratuga, verði ekkert að gert. Árið 2005 námu útgjöld til heilbrigðismála og umönnunar um 95 milljörðum króna hérlendis, eða 9,6% af vergri landsframleiðslu. Einkarekstur hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenskra heilbrigðisfyrirtækja sem sýnt hafa fram á að þau geta veitt betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið.

Útgjöld til heilbrigðismála vaxa hratt á Íslandi og samkvæmt spám OECD verður íslenska heilbrigðiskerfið orðið það dýrasta í heimi innan fárra áratuga, verði ekkert að gert. Árið 2005 námu útgjöld til heilbrigðismála og umönnunar um 95 milljörðum króna hérlendis, eða 9,6% af vergri landsframleiðslu. Einkarekstur hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenskra heilbrigðisfyrirtækja sem sýnt hafa fram á að þau geta veitt betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið.

Nýta þarf kosti einkarekstrar

Fjöldi verkefna blasir við á sviði íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Þar þarf til dæmis að draga úr yfirbyggingu og leita hagkvæmustu lausna við rekstur svo efla megi þjónustu, auka framleiðni og bæta nýtingu fjármuna. Nýta þarf betur ótvíræða kosti einkarekstrar á þessu sviði og tækifærin til þess blasa til dæmis við í heilsugæslu, öldrunarþjónustu, heimahjúkrun og sérfræðiþjónustu. Þessi tækifæri ber að nýta en þarna geta einkaaðilar veitt þjónustu af meiri gæðum en hið opinbera og með minni tilkostnaði. Þá þarf að fjölga valkostum neytenda og skilgreina þjónustu heilbrigðiskerfisins út frá þörfum fólks en ekki heilbrigðiskerfisins. Þannig mætti lengi telja, verkefnin eru mörg og knýjandi.

Samtök atvinnulífsins gefa á morgun út nýtt rit um heilbrigðan einkarekstur - tækifæri til sóknar í íslenskri heilbrigðisþjónustu, og verður því dreift á morgunverðarfundi um sama efni. Með þessu framtaki vilja samtökin stuðla að málefnalegri umræðu um framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu og um kosti einkarekstrar á því sviði. Það er tími til kominn.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins