Efnahagsmál - 

07. nóvember 2002

Betri afkomuvæntingar fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Betri afkomuvæntingar fyrirtækja

Um 28% fyrirtækja reikna með batnandi afkomu á næstu mánuðum en um 14% með versnandi afkomu, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins. Þetta eru almennt betri væntingar en fyrir ári síðan, þegar 20% reiknuðu með batnandi afkomu en 28% reiknuðu með að hún færi versnandi. Líkt og fyrir ári síðan gera þó flest fyrirtæki ráð fyrir að afkoman haldist svipuð á komandi mánuðum, eða 55% fyrirtækja (49% fyrir ári síðan).

Um 28% fyrirtækja reikna með batnandi afkomu á næstu mánuðum en um 14% með versnandi afkomu, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins. Þetta eru almennt betri væntingar en fyrir ári síðan, þegar 20% reiknuðu með batnandi afkomu en 28% reiknuðu með að hún færi versnandi. Líkt og fyrir ári síðan gera þó flest fyrirtæki ráð fyrir að afkoman haldist svipuð á komandi mánuðum, eða 55% fyrirtækja (49% fyrir ári síðan).

Niðurstaðan kemur að vissu leyti á óvart, enda bókhaldsleg afkoma fyrirtækja víðast hvar mjög góð um þessar mundir, sem skýrist að miklu leyti af fjármagnsliðum í kjölfar gengishækkunar krónunnar. Þá kemur aukin bjartsýni nokkuð á óvart í ljósi hás launastigs í landinu (laun nema um 67% af vergum þáttatekjum), en launakostnaður fer enn hækkandi umfram verðlag og hækkar jafnframt sem hlutfall af tekjum fyrirtækja. Ljóst er því að betri afkomuvæntingar eiga sér sérstakar skýringar, m.a. lækkun á tekju- og eignarskatti fyrirtækja, sem kemur til áhrifa á næsta ári. Jafnframt má ætla að aukinn efnahagslegur stöðugleiki, lægri verðbólga og lægri vextir ýti undir bjartsýni, auk þess sem margir reikna eflaust með framlegðaráhrifum af hagræðingaraðgerðum sem ráðist hefur verið í á tímum minnkandi umsvifa. Ekki er teljanlegur munur á afkomuvæntingum fyrirtækja eftir stærð þeirra eða starfssvæði, en talsverður munur er hins vegar milli starfsgreina.

Mest er bjartsýnin í ferðaþjónustu (SAF) og verslun og þjónustu (SVÞ), en minnst í fiskvinnslu (SF) og útgerð (LÍÚ). Fjórðungur fjármálafyrirtækja (SFF) reiknar með batnandi afkomu en ekkert þeirra sem svöruðu með versnandi afkomu. Afkomuvæntingar virðast vera þokkalegar í iðnaði (SI) og meðal rafverktaka (SART).

Mikill viðsnúningur í ferðaþjónustu
Fyrir ári síðan reiknuðu einungis 9% fyrirtækja í ferðaþjónustu með batnandi afkomu en 42% með versnandi afkomu, þannig að viðsnúningurinn er þar alger milli ára. Könnunin í fyrra var gerð rúmum mánuði eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum, sem augljóslega hafði mikil áhrif á afkomuvæntingar í greininni. Raunin varð sú að fjöldi ferðamanna hélst líklega lítið breyttur (en upplýsingar þar að lútandi eru ekki eins traustar og áður eftir að Schengen-samningurinn gekk í gildi) en samsetning þeirra breyttist verulega. Einkum virðist hafa fækkað svonefndum fyrirtækjahópum, sem bitnar á afkomu veitingahúsa og afþreyingarfyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Þá hætti Go flugfélagið að fljúga til Íslands, sem bitnar einkum á þessum sömu aðilum. Aukna bjartsýni í ferðaþjónustunni má einnig hugsanlega rekja til fyrirætlana um aukin framlög til beinnar markaðssetningar í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Umræða um aukið sætaframboð til landsins getur þar einnig haft áhrif.

Verri horfur í fiskvinnslu
Hin helsta breytingin milli ára er í fiskvinnslu, en fyrir ári síðan reiknuðu 45% fyrirtækja í greininni með batnandi afkomu og 24% með versnandi afkomu. Líkt og í ferðaþjónustunni er viðsnúningurinn þar nánast alger milli ára. Þessi niðurstaða kemur frekar á óvart, en skýringa mun m.a. vera að leita í hærra gengi krónunnar. Þá hefur slæm staða í veiðum og vinnslu á rækju eflaust áhrif, en aukið framboð frá Kanada hefur valdið offramboði á Evrópumarkaði.

Um könnunina
Könnun SA var gerð dagana 8. október til 5. nóvember. Fyrirspurnir voru sendar tæplega 1.400 fyrirtækjum og bárust svör frá um 600 þeirra, eða rúmum 42%.


 

Samtök atvinnulífsins