Efnahagsmál - 

12. apríl 2011

Bendum á það sem vel er gert og það sem þarf að bæta

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bendum á það sem vel er gert og það sem þarf að bæta

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, skrifar í dag grein í Fréttablaðið vegna gagnrýni forseta Íslands á forsvarsmenn íslensks atvinnulífs. Helgi mótmælir því að samtök í atvinnulífinu séu að tala atvinnulífið niður og minnir t.d. á átakið Ár nýsköpunar sem SI hafa staðið fyrir síðan í október sl. "Við teljum það hins vegar skyldu okkar að minna á það sem hamlar gegn endurreisn þjóðfélagsins og kemur í veg fyrir bætt kjör fólks og fyrirtækja vegna ómarkvissrar efnahagsstefnu og rangra ákvarðana. Við teljum ástæðulaust að breiða yfir það sem er að," segir Helgi m.a. í grein sinni.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, skrifar í dag grein í Fréttablaðið vegna gagnrýni forseta Íslands á forsvarsmenn íslensks atvinnulífs. Helgi mótmælir því að samtök í atvinnulífinu séu að tala atvinnulífið niður og minnir t.d. á átakið Ár nýsköpunar sem SI hafa staðið fyrir síðan í október sl. "Við teljum það hins vegar skyldu okkar að minna á það sem hamlar gegn endurreisn þjóðfélagsins og kemur í veg fyrir bætt kjör fólks og fyrirtækja vegna ómarkvissrar efnahagsstefnu og rangra ákvarðana. Við teljum ástæðulaust að breiða yfir það sem er að," segir Helgi m.a. í grein sinni.

Helgi segir nýsköpun að finna víðast hvar í atvinnulífinu, jafnt í rótgrónum fyrirtækjum sem nýjum. Hópur íslenskra fyrirtækja hafi náð glæsilegum árangri og tækifærin sem við blasi séu í raun stórkostleg. Framtíð Íslands sé björt ef þjóðinni beri gæfa til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar og koma sér saman um vænlega efnahags- og framtíðarstefnu.  Aðgangur Íslendinga, 320 þúsund manna örþjóðar, að hreinu vatni, orku, matvælum og landrými sé í raun einstakur á heimsvísu. Smáþjóð sem búi að auðlindum sem þessum eigi að geta haldið háum meðaltekjum fólks, háum kaupmætti og lágu atvinnuleysi með öflugu atvinnulífi og góðu mannlífi.

Formaður SI segir að ríkur vilji sé til að benda á það sem vel er gert í atvinnulífinu en forsvarsmönnum þess beri jafnframt skylda til að vara við því sem aflaga hefur farið og ástæða er til að óttast. Ekki verði komist hjá því að fjalla um óþægilegar staðreyndir á borð við þessar:

  • atvinnuleysi 15.000 manna

  • fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki síðustu 70 árin

  • gjaldeyrishöft

  • veikur gjaldmiðill

  • hagvöxtur lítill sem enginn

  • tugir þúsunda heimila í skuldavanda

  • þúsundir fyrirtækja í skuldavanda

  • tilfinnanlegar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki

  • stórminnkaður kaupmáttur fólks 

"Ég vara við því að forystumenn í atvinnulífinu eða í stjórnmálum séu hvattir til að "tala upp" ástand sem er óviðunandi. Ég mæli því heldur ekki bót að hið góða og vænlega sé "talað niður" segir Helgi í niðurlagi greinarinnar og bætir við:

"Eitt af því sem fór úrskeiðis í hruninu var það að bankarnir og útrásarfyrirtækin voru "töluð upp", fáir urðu til að vara við þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp en flestir voru að hjálpast að við að tala útrásina upp. Gilti það jafnt um fyrirtækin sjálf, fjölmiðla, álitsgjafa, stjórnmálamenn - jú, og sjálfan forsetann!

Þurfum við ekki að læra af þeirri reynslu? Sleppum því að tala fyrirtæki og atvinnugreinar upp eða niður. Látum staðreyndir og sannleikann nægja. Sannleikurinn er sagna bestur."

Lesa má grein Helga Magnússonar í heild sinni á vef Vísis

Samtök atvinnulífsins