Efnahagsmál - 

27. Maí 2005

Basel II: hærri vextir og aukinn kostnaður fyrirtækja?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Basel II: hærri vextir og aukinn kostnaður fyrirtækja?

Skiptar skoðanir voru um áhrif gildistöku Basel II regluverksins á ráðstefnu sem haldin var um fyrirbærið á vegum Sambands íslenskra sparisjóða og Samtaka atvinnulífsins, en það tekur gildi árið 2007. Fram kom að fjármálafyrirtæki muni þurfa að meta viðskiptavini sína mun betur og fyrirtæki þurfi að gefa þeim mun ítarlegri upplýsingar. Kostnaður af innleiðingu Basel II er ekki ljós en kjör sumra fyrirtækja gætu batnað á meðan kjör annarra gætu versnað. Þolinmæði fjármálafyrirtækja gagnvart vanskilum mun minnka og innheimta verður hert.

Skiptar skoðanir voru um áhrif gildistöku Basel II regluverksins á ráðstefnu sem haldin var um fyrirbærið á vegum Sambands íslenskra  sparisjóða og Samtaka atvinnulífsins, en það  tekur gildi  árið 2007. Fram kom að fjármálafyrirtæki muni þurfa að meta viðskiptavini sína mun betur og  fyrirtæki þurfi að gefa þeim mun ítarlegri upplýsingar. Kostnaður af innleiðingu Basel II er ekki ljós en kjör sumra fyrirtækja gætu batnað á meðan kjör annarra gætu versnað. Þolinmæði fjármálafyrirtækja gagnvart vanskilum mun minnka og innheimta verður hert.

Yfirskrift ráðstefnunnar sem Samband íslenskra sparisjóða og Samtök atvinnulífsins stóðu að á Grand hótel Reykjavík þann 25. maí, var Basel II: Aðgangur að fjármagni í framtíðinni. Ráðstefnan var fjármögnuð af framkvæmdastjórn ESB og var sjónum einkum beint að áhrifum nýrra Basel II eiginfjárreglna lánastofnana á samskipti þeirra við svokölluð lítil og meðalstór fyrirtæki (SMEs) á EES. Samkvæmt skilgreiningu Basel II er ársvelta þeirra undir 50 milljónum evra eða fjórum milljörðum íslenskra króna. Flest eru íslensk fyrirtæki því lítil eða meðalstór, reyndar eins og nær öll evrópsk fyrirtæki, en Stefán Ágúst Magnússon, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips, benti þó á að fæstir íslenskir athafnamenn vildu kannast við það enda allir hér á landi að reka stórfyrirtæki! Samkvæmt úttekt Einars Þórs Harðarsonar, deildarstjóra í útlánaeftirliti hjá Landsbanka Íslands, eru um 100 íslensk fyrirtæki yfir ofangreindum veltumörkum.

Basel II reglurnar taka gildi árið 2007 og voru fundarmenn sammála um það að frekari umræður um Basel II ættu eftir að magnast upp meðal íslenskra stjórnenda - það væri brýnt fyrir þá að kynna sér málið enda geti hinar nýju Basel II reglur haft bein áhrif á rekstur íslenskra fyrirtækja - bæði til hins betra og verra. Kostnaður af innleiðingu þeirra liggur ekki fyrir, hvorki fyrir fjármálastofnanir né önnur fyrirtæki.

Meiri og dýpri upplýsingagjöf fyrirtækja til lánastofnana

Basel-II regluverkið er runnið undan rifjum Evrópu-sambandsins en það snýr að sambandi fjármálafyrirtækja við lántakendur og hefur það að markmiði að meta betur áhættu útlána og raunar að minnka útlánaáhættu. Baselnefndin svokallaða sem skóp regluverkið, hafði það að markmiði að setja reglur sem myndu styrkja og efla traust og stöðugleika hins alþjóðlega bankakerfis og innleiða betri starfshætti.

En hvað þýðir þetta í raun fyrir rekstur íslenskra fyrirtækja? Um það virðast menn ekki alfarið vera sammála, sumir segja að þetta breyti ekki neinu, aðrir segja breytingarnar eiga eftir að koma í ljós án þess að vita í hverju þær verða fólgnar, en á sama tíma benda sérfræðingar á að Basel II regluverkið eigi eftir að hafa bein áhrif á fjármagnskostnað fyrirtækja og fyrirtæki þurfi í auknum mæli að veita fjármálastofnunum upplýsingar, oftar en áður - víðtækari og dýpri upplýsingar.

Einar Þór Harðarson, deildarstjóri í útlánaeftirliti Landsbanka Íslands, benti til að mynda á að Basel II kallaði á hraðari endurskoðun gagna og mögulega þyrftu stórir lántakendur að skila fjármálafyrirtækjum milliuppgjörum til að sýna fram á að reksturinn væri í lagi og gæti staðið undir greiðslu lána. Þá sagði Einar að reglurnar myndu leiða til þess að vanskil yrðu litin alvarlegri augum, t.d. 90 daga vanskil og innheimta fjármálastofnana yrði hert. Einnig yrðu fyrirtæki að búa sig undir að verða sett í staðlað lánshæfismat - jafnvel í fyrsta skipti. Einar skaut á að það myndi kosta stóru bankana þrjá allt að hundrað milljónir að innleiða regluverkið, en sem fyrr segir liggur kostnaður vegna innleiðingar þessara nýju Basel II reglna ekki fyrir - hann hefur ekki verið metinn sérstaklega. Einar benti þó á að nýju reglurnar hefðu eflaust í för með sér að "betri fyrirtækjum" myndu bjóðast betri kjör en áður, en "verri fyrirtækjum" sem stæðu illa í skilum yrði refsað með verri kjörum eða þeim yrði hreinlega ekki lánað. Einar endaði erindi sitt á því að taka fram að hið nýja evrópska regluverk myndi þó ekki umturna rekstri fyrirtækja á Íslandi, en taka þyfti tillit til þeirra.

Skrýmsli sem engu breytir?

Það er ljóst að mismikil hrifning er með þær afurðir sem streyma frá Evrópusambandinu, og þegar Stefán Ágúst Magnússon, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips, velti vöngum yfir fyrirbærinu Basel II - sá hann einna helst fyrir sér skrýmsli með reglugerðahala sem sæi ekki fyrir endann á. Hann sagðist heldur ekki sjá greinilega þörf fyrir þessar reglur, verið væri að færa gamlar reglur og starfsvenjur í nýjar umbúðir - sem þó gæti verið ágætt í sjálfu sér. Stefán benti jafnframt á að vel rekin fyrirtæki fengju í dag betri kjör en illa rekin fyrirtæki - það væri ekkert nýtt. Stefán tók jafnframt fram að fyrirtæki ættu ekki að búa sig undir straumhvörf í upplýsingagjöf til fjármálastofnana, bankar hafi safnað upplýsingum um fyrirtæki áratugum saman og metið þau á grundvelli þeirra - það væri engin nýlunda. Um þetta sagði í kynningu Stefáns: "...ef íslenskir bankar hafa verið að nota þessar upplýsingar rétt, þ.e. með minnstu mögulegri rekstraráhættu og markaðsáhættu, og unnið sína heimavinnu þá geta þeir ekki komið í dag og réttlætt mikla breytingar á kjörum til íslenskra fyrirtækja."

Frekari upplýsingar um Basel-II má finna hér, en erindi framsögumanna og gögn sem dreift var á fundinum verða birt á síðunni.

Samtök atvinnulífsins