Barbapabbi og menntakerfið

Menntakerfið er í sífelldri þróun þótt mörgum finnist það ekki slá taktinn nægilega fast í samræmi við þarfir einstaklinga, umhverfi og samfélag. Það hefur hins vegar mikið vatn runnið til sjávar frá því að elstu menntaskólar landsins voru í raun starfsmenntastofnanir líkt og Dr. Jón Torfi Jónasson hefur bent á. Í upphafi var menntun þar til að undirbúa starfsmenntun þeirra sem þá var talin mest þörf fyrir, presta og lækna og lögfræðinga.

Við stöndum á ákveðnum tímamótun í umræðu og stefnumörkun menntakerfisins. Ef við nýtum vel þá deiglu sem nú er í menntamálum, má binda vonir við að okkur takist að færa menntun til þess að hún svari betur kröfum 21. aldar. Nauðsynlegt er að gaumgæfa vel hvernig menntakerfið getur skilað hæfu og vel menntuðu starfsfólki til fjölbreyttari starfa en nokkru sinni fyrr.  Ýmislegt hefur verið dregið fram í umræðunni líkt og í skýrslu Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands um Stærsta efnahagsmálið- sóknarfæri í menntun eða Hvítbók menntamálaráðherra.

Eðlilega á að skoða allar leiðir við að nýta tíma og fjármagn betur í menntakerfinu, gera skil á milli og innan skólastiga sveigjanlegri og skoða lestrarkennsluskyldu strax í leikskóla, svo nokkur dæmi séu nefnd. Inntak og uppbygging kennaramenntunar er ekki undanskilin þessari skoðun, sameining skólastofnana eða efling iðn- og starfsmenntunar.  Allt eru þetta bæði spennandi og nauðsynleg viðfangsefni.  

Menntakerfið er bæði formlegt og óformlegt

Menn afla sér menntunar í  skólum en ekki síður utan hins formlega skólakerfis, m.a. innan fyrirtækja en þar á sér stað mikil gerjun og uppbygging í menntamálum. Sum fyrirtæki hafi lengi verið með virka fræðslu-og menntastefnu meðan að önnur eru að hasla sér völl á þessu sviði með það að markmiði að efla skipulega þekkingu og færni starfsmanna. Með réttu hefur verið sagt að fyrirtækin séu námsstaðir.  

Það sem á endanum skiptir máli er hvað þú kannt en ekki endilega hvar þú hefur lært það.  Í könnun sem gerð var í Noregi, þegar spurt var hvar viðkomandi hefði öðlast sína þekkingu, kom fram að 35% sögðu skólann hafa skipt sig mestu meðan 41% sögðu þekkinguna komna með þátttöku úr atvinnulífinu. Með þessu er ekki verið að tala skólakerfið niður heldur einfaldlega verið að varpa ljósi á mikilvægi þeirrar færni og þekkingaröflunar sem fer fram innan fyrirtækjanna. Að draga það fram og viðurkenna í reynd kastar engri rýrð á menntun sem aflað er í skólum.

Menntunin sem á sér stað utan hins formlega kerfis hefur skipt miklu máli. Frá aldamótum hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp framhaldsfræðsluna. Aðilar vinnumarkaðarins í samstarfi við stjórnvöld, sveitarstjórnir, framhaldsskóla og fleiri hafa staðið fyrir þessari uppbyggingu en Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og samstarfaðilar hennar um allt land hafa gegnt hér lykilhlutverki.  Viðurkenning hins formlega kerfis á tilvist hins óformlega hefur hins vegar verið gloppótt.

Í heildstæðri úttekt sem Capacent gerði fyrir menntamálaráðuneytið á framhaldsfræðslukerfinu og Ríkisendurskoðun tekur undir kemur fram að í meginatriðum hafi markmiðum framhaldsfræðslulaganna verið náð og fjármunir ríkisins til málaflokksins verið nýttir á skilvirkan hátt. Þetta er afar jákvætt og sýnir að markviss samvinna aðila vinnumarkaðarins sín á milli sem og við ýmsa aðra aðila skilar sér í uppbyggingu innviða samfélagsins. Hitt er síðan að taka ber föstum tökum þeim ábendingum sem settar voru fram í skýrslunni um að kynna framhaldsfræðslukerfið betur fyrir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum og jarðtengja samband framhaldsfræðslunnar við hið formlega skólakerfi.

Hrista þarf upp í hugsun og nálgun

Til þess þarf að hrista upp í hugsunarhætti og nálgun í menntakerfinu gefast nú ýmis tækifæri, hvort sem við ræðum vinnu í tengslum við Hvítbók ráðherra, svonefndan hæfniramma eða eflingu framhaldsfræðslukerfisins, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir menntakerfið og hagsmunaaðila sem því tengjast er það ögrun að takast á við þessi verkefni og vera tilbúin í uppstokkun á hugsun og nálgun. Í öllu falli þarf að tryggja að kerfið sjálft sé ekki stærsta hindrun þess að ungir sem aldnir finni sér farveg til að efla sig og sækja sér menntun við hæfi. Innan sem utan þess stóra mengis sem við köllum menntakerfi er því ákall um aukinn sveigjanleika, valfrelsi og nýja hugsun.

Hin þekkta barnabókarhetja. Það á að geta verið alls konar fyrir alls konar fólk og alls konar fyrirtæki. Í samræmi við mismunandi þarfir einstaklinganna, atvinnulífs og samfélags verður menntakerfið að vera í stakk búið til að mæta einstaklingum með mismunandi hæfileika þannig að hægt verði að ýta undir hæfni þeirra, þekkingu og færni.  Þannig aukum vellíðan einstaklinga og sjálfstraust þeirra til að takast á við fjölbreytileg verkefni samfélagsins hverju sinni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. desember 2014