1 MIN
Bankið í ofnunum
Í nýjustu úttekt sinni um íslenska hagkerfið bendir OECD á að bein erlend fjárfesting sé fremur lítil á Íslandi, að hluta vegna smæðar hagkerfisins og fjarlægðar frá öðrum mörkuðum en einnig vegna íslensks regluverks þar sem talsverðar hömlur eru lagðar á erlenda fjárfestingu. OECD leggur til að ráðist verði í lagalegar umbætur til stuðnings erlendri fjárfestingu, íslensku hagkerfi til góðs.
Þrátt fyrir strangt regluverk er það engu að síður markmið stjórnvalda að laða að erlent fjármagn. Íslandsstofa hefur meðal annars það hlutverk að laða að erlenda fjárfestingu til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Um slíka fjárfestingu ríkir alþjóðleg samkeppni. Lagaleg umgjörð rekstrar og fjárfestingar þarf því að gera Ísland að álitlegum kosti hjá fjársterkum aðilum sem margir hverjir búa yfir verðmætri þekkingu á sínu sviði.
Opinber umræða um erlenda fjárfestingu skiptir líka máli. Á dögunum birtust greinar eftir Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra, þar sem farið er með dylgjur um meinta skattasniðgöngu af hálfu eigenda HS Orku og látið að því liggja að allir þeir sem að rekstri fyrirtækisins koma séu ýmist óheiðarlegir eða vanhæfir. Það þarf ekki að hafa mörg orð um slíkan málflutning.
Það kemur ekki endilega á óvart að þeir sem aldrei hafa staðið í ströngu við tugmilljarða króna uppbyggingu á orkuinnviðum á virku eldstöðvakerfi hafi ekki sérstaka innsýn í hvað þarf til að slíkt dæmi gangi upp. En það er engu að síður áhugavert að menn á borð við Indriða, sem virðist sérlega umhugað um skatttekjur ríkissjóðs, skuli ekki átta sig á því að þær verða síst meiri ef allir erlendir fjárfestar verða endanlega hraktir af landi brott.
Kannski færi best á því að Indriði einbeitti sér að bankinu í ofnunum.
Grein Önnu Hrefnu birtist fyrst sem Endahnútur í Viðskiptablaðinu 5. nóvember síðastliðinn.