Efnahagsmál - 

15. Mars 2001

Bandaríkin framar Evrópu í vaxtargreinum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bandaríkin framar Evrópu í vaxtargreinum

Ætli Evrópuríkin sér að verða samkeppnishæf þekkingarsamfélög þurfa þau að taka sig á, samkvæmt nýrri skýrslu Samtaka evrópskra atvinnu- og iðnrekenda (UNICE) um hið svonefnda "nýja hagkerfi". Ísland kemur sums staðar vel út í samanburðinum.

Ætli Evrópuríkin sér að verða samkeppnishæf þekkingarsamfélög þurfa þau að taka sig á, samkvæmt nýrri skýrslu Samtaka evrópskra atvinnu- og iðnrekenda (UNICE) um hið svonefnda "nýja hagkerfi". Ísland kemur sums staðar vel út í samanburðinum.

Samtök atvinnulífsins tóku þátt í gerð skýrslunnar, þar sem kastljósinu er beint að miklum og stöðugum hagvexti í Bandaríkjunum nær allan undanfarinn áratug, samfara stöðugri og lágri verðbólgu. Útbreiðsla nýrrar upplýsinga- og samskiptatækni og breytingar samfara henni hafa leitt til meiri framleiðni og þjóðarframleiðslu og hærra atvinnustigs, án mikillar verðbólgu. Þessi samsetning er gjarnan sögð kjarni hins "nýja hagkerfis".

Breytingar eiga sér stað með auknum hraða og áhætta eykst í viðskiptum. Fyrirtæki sem eru lengur en keppinautarnir að tileinka sér þessar nýjungar munu hverfa, að því er fram kemur í skýrslunni. Þjóðfélög sem ekki ná að aðlagast nýrri tækni jafn hratt og önnur munu dragast hlutfallslega aftur úr í lífskjörum.

Ætli Evrópuríkin sér að ná Bandaríkjunum verða stjórnvöld að sjá fyrirtækjunum fyrir auknum hvötum til nýsköpunar og þróunar, efla símenntun og verðlauna frumkvöðla. Lækka verður kostnað við að setja á fót ný fyrirtæki, efla verður sveigjanleika á vinnumarkaði og tryggja verður öflugt framboð á nútíma upplýsinga- og samskiptaleiðum. Loks verða Evrópuríkin að lækka skattbyrði fyrirtækja og almennings, að því er fram kemur í skýrslunni.

Ísland kemur sums staðar mjög vel út í samanburðinum, sem nær í flestum tilfellum til EES-ríkjanna, Bandaríkjanna og Japans. Ísland er t.d. ásamt Noregi í öðru til þriðja sæti hvað varðar aðgang fólks að tölvum og fylgir fast á hæla Bandaríkjanna. Hér á landi er 51 tölva á hverja eitt hundrað íbúa samanborið við 52 í Bandaríkjunum en 25 að meðaltali í aðildarríkjum ESB. Þá er Ísland í öðru sæti hvað snertir útbreiðslu farsíma, næst á eftir Finnlandi. Þannig eru 73% íslensku þjóðarinnar með farsímaáskrift samanborið við 76% í Finnlandi, 40% í Bandaríkjunum og 58% að meðaltali innan ESB. Samkvæmt þessu eru miklir möguleikar hérlendis á sviði hagnýtingar tölvutækni og rafrænna viðskipta. Tölur um rafræn viðskipti benda hins vegar ekki til að Íslendingar standi þar framarlega. Loks er sveigjanleiki á vinnumarkaði meiri hérlendis en víðast annars staðar og aðgangur að Netinu greiður.

Per Magnus Wijkman, hagfræðingur hjá samtökum iðnaðarins í Svíþjóð og formaður ritnefndar UNICE, kynnir niðurstöður skýrslunnar á iðnþingi Samtaka iðnaðarins föstudaginn 16. mars.

Sjá skýrsluna á heimasíðu UNICE.

Samtök atvinnulífsins