Bætum lífskjörin!

Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins kynnti Ari Edwald, framkvæmdastjóri samtakanna, skýrsluna Bætum lífskjörin!, nýja skýrslu samtakanna um leiðir til að bæta lífskjörin í landinu með kerfisumbótum. Í henni er fjallað um reglubyrði og opinbert eftirlit, vinnumarkaðinn, matvælaverð og landbúnaðarkerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og tengsl þessara sviða við efnahagsstefnu, einkavæðingu og atvinnufrelsi.

Ari sagði bætt lífskjör í landinu í raun vera höfuðmarkmið Samtaka atvinnulífsins. Tilefni skýrslunnar tengdist hins vegar því að hlutfall launa af landsframleiðslu þyrfti að lækka og því væri nauðsynlegt að auka verðmætasköpun og framleiðni, lækka kostnað og minnka sóun.

Innra eftirlit og umbun fyrir notkun vottaðra gæðakerfa
Ari sagði eftirlitsiðnaðinn íþyngja atvinnulífinu. Auka þyrfti áherslu á innra eftirlit og umbuna fyrirtækjum fyrir að styðjast við vottuð gæðakerfi. Hann greindi frá því að samkvæmt samantekt væru bein gjöld atvinnulífsins vegna eftirlitsiðnaðar 1,6 milljarðar króna á ári og hefðu hækkað um 30% á tíum árum, að núvirði. Heildarkostnaðurinn væri hins vegar mun hærri, enda þyrftu t.d. mörg fyrirtæki að hafa sérstakt starfsfólk vegna hans. Heildarkostnaður samfélagsins vegna eftirlitsiðnaðarins gæti verið á bilinu 15 til 40 milljarðar króna á ári, ef viðmið ESB væru yfirfærð á Ísland, og því eftir miklu að slægjast í hagræðingarskyni.

Tvískiptur vinnumarkaður
Ari fjallaði um mikilvægi sveigjanleika á vinnumarkaði og um tvískiptingu íslensks vinnumarkaðar, í almennan og opinberan. Sagði hann opinberan vinnumarkað stífan og ósveigjanlegan í anda þess þýska á meðan sá almenni væri sveigjanlegur í anda þess engilsaxneska. Þá væru ýmis réttindi mun meiri á opinberum vinnumarkaði, svo sem lífeyrir, orlof, uppsagnarvernd og veikindaréttur. Á undanförnum árum hefðu svo laun hækkað mun meira á opinberum vinnumarkaði en á almennum og því væri svo komið að vinnumarkaðurinn væri í vaxandi mæli tvískiptur og lítið flæði þar á milli. Þessi tvískipting ylli óskilvirkni og væri mikilvæg röksemd fyrir ágæti útboða og einkarekstrar.

Lægra matvælaverð og kostir samkeppni í heilbrigðiskerfi og menntakerfi
Ari sagði innlendar landbúnaðarvörur meginorsök hærra matvælaverðs hérlendis en í nágrannalöndunum. Veruleg umskipti væru framundan á alþjóðavettvangi og aukin hagkvæmni á þessu sviði væri skilvirk leið að bættum lífskjörum. Þá fjallaði hann um gríðarlegan útgjaldavöxt í heilbrigðiskerfinu þar sem nauðsynlegt væri að læra af nágrannalöndunum og taka upp breyttar fjármögnunarleiðir og nýta kosti samkeppni og einkarekstrar. Hérlendis er hlutfall opinberra útgjalda til heilbrigðismála það næst hæsta innan OECD, sem hlutfall af landsframleiðslu, þrátt fyrir hagstæða aldurssamsetningu þjóðarinnar. Betri nýting fjármuna hlyti að verða höfuðviðfangsefni heilbrigðisgeirans á næstu árum, til að sporna gegn hækkandi skattbyrði þjóðarinnar.

Góður árangur af samkeppnis- og þjónustuvæðingu háskólastigsins gefur að sögn Ara tóninn fyrir önnur skólastig. Hann minnti á það stefnumið SA að útskrifa ætti nemendur tveimur árum fyrr úr framhaldsskóla, en þjóðhagsleg hagkvæmni þess hefur verið metin á níu milljarða króna á ári fyrst í stað sem síðan færi vaxandi.

Sjá glærur Ara Edwald

Sjá skýrsluna Bætum lífskjörin! (pdf-form)