Menntamál - 

11. Júní 2009

Bættur hagur með rafrænum viðskiptum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bættur hagur með rafrænum viðskiptum

Verulegur ávinningur er fólginn í innleiðingu rafrænna viðskipta en samkvæmt nýlegri erlendri rannsókn er ávinningur af upptöku rafrænna innkaupa áætlaður nema allt að 0,8% af vergri landsframleiðslu. Í tilfelli Íslands væri sparnaðurinn því um 11 milljarðar á ári. Áætlað er að 80-90% innkaupa nú séu á pappírsformi en hægt er að lækka kostnað um 70-75% með fyrir hvern reikning sem berst rafrænt í stað pappírs eða um 200 krónur.

Verulegur ávinningur er fólginn í innleiðingu rafrænna viðskipta en samkvæmt nýlegri erlendri rannsókn er ávinningur af upptöku rafrænna innkaupa áætlaður nema allt að 0,8% af vergri landsframleiðslu. Í tilfelli Íslands væri sparnaðurinn því um 11 milljarðar á ári. Áætlað er að 80-90% innkaupa nú séu á pappírsformi en hægt er að lækka kostnað um 70-75% með fyrir hvern reikning sem berst rafrænt í stað pappírs eða um 200 krónur.

Þetta kom fram í máli Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, á aðalfundi Icepro sem fór fram nýverið. Hannes segir að aukin rafræn innkaup muni hjálpa okkur við að koma sterkari út úr kreppunni.

Þróun rafrænna viðskipta á næstunni
Í erindi sínu fjallaði Hannes um þróun rafrænna viðskipta undanfarna áratugi og líklega þróun á næstunni. Hannes sagði hvatann til þess að stunda rafræn innkaup aukast með fjölda þeirra sem notist við þá aðferð - alveg eins og í tilviki síma, internets og tölvupósts. Mikilvægt sé að opinberir aðilar dragi vagninn í þessum efnum líkt og á Íslandi þar sem Fjársýslan taki þegar á móti rafrænum reikningum (XML).

Hvatinn til að innleiða rafræn viðskipti hlýtur að vera mikill hjá fyrirtækjum sem stunda utanríkisviðskipti því þau verða greiðari og ódýrari. Vænta má að þróunin verði hröð næstu árin og innan fárra missera muni öll hugbúnaðarfyrirtæki bjóða upp á rafræn innkaup sem valkost í bókhaldskerfum sínum, en nú þegar er kosturinn fyrir hendi í nokkrum kerfum.

Hannes benti á að á síðasta áratug voru miklar væntingar tengdar við stóraukin rafræn viðskipti vegna þess hversu hratt internetið þróaðist. Þessar fyrstu spár hafi reynst of bjartsýnar og athyglin beinst  að því að skilgreina og fjarlægja hindranir fyrir auknum vexti. Á undanförnum árum hefur rafverslun hins vegar aukist um 25% á ári að jafnaði í OECD-ríkjunum og miklu meira í sumum greinum, t.d. ferðaþjónustu. Hinar upphaflegu og bjartsýnu spár hafa ræst og gott betur á sumum sviðum.

Samstarfsverkefni Norðurlandaþjóða (NES) hefur verið í forystuhlutverki í þessum efnum og er stefnt  að því að Norðurlöndin geti fljótlega og smám saman öll ríki Evrópu skipst á rafrænum skjölum á grundvelli sömu staðla. Þá hefur ESB markað sér stefnu á sviði rafrænnar stjórnsýslu sem lið í því að gera Evrópu að samkeppnishæfasta svæði heims árið 2010.


SA styðja Icepro
Hannes sagði á aðalfundinum Icepro hafa unnið  gríðarlega mikilvægt starf á undanförnum árum á sviði rafrænna viðskipta. Mikilvægt væri að það starf héldi áfram enda væri margt óunnið.

Stjórnvöld hafa nú ákveðið að fella brott tryggan gjaldstofn Icepro - hlutdeild í tryggingagjaldi - og gera þess í stað þjónustusamning sem háður er skilyrðum um framlög frá öðrum. SA hafa stutt við starfsemi Icepro með árgjöldum, en einkum með myndarlegum styrkjum við sérstök verkefni á árunum 2006-2008. Samtök atvinnulífsins munu styðja við Icpro á sama grundvelli og fram til þessa, þ.e. á grundvelli árgjalda og stuðningi við tiltekin, mikilvæg verkefni.

Sjá nánar:

Glærur Hannesar á aðalfundi ICEPRO 4. júní 2009

Vefur Icepro

Samtök atvinnulífsins