Efnahagsmál - 

21. mars 2003

Bæta ber skertan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Bæta ber skertan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir

Ráðgjafarnefnd EES hefur samþykkt ályktun um stækkun EES. Aðild að nefndinni eiga aðilar vinnumarkaðar o.fl. í aðildarríkjum EFTA og fulltrúar Efnahags- og félagsmálanefndar ESB (ECOSOC).

Ráðgjafarnefnd EES hefur samþykkt ályktun um stækkun EES. Aðild að nefndinni eiga aðilar vinnumarkaðar o.fl. í aðildarríkjum EFTA og fulltrúar Efnahags- og félagsmálanefndar ESB (ECOSOC).

Skoða tollalækkun á sjávarafurðir
Í ályktun nefndarinnar segir að bæta verði EFTA-aðildarríkjum EES þann markaðsaðgang með sjávarafurðir sem þau tapa við aðild Mið- og Austur-Evrópuríkja að ESB, en sem kunnugt er falla fríverslunarsamningar ríkjanna við EFTA-ríkin niður við aðildina að ESB. Jafnframt er tekið fram að lausn í anda þess sem samið var um við síðustu stækkun ESB, þar sem EFTA-ríkin fengu tollfrjálsa kvóta á grundvelli fyrri viðskipta við Austurríki, Finnland og Svíþjóð þegar þau gerðust aðilar að ESB, sé ekki fullnægjandi. Markaðir í væntanlegum aðildarríkjum ESB hafi ekki náð fullum þroska og innan fárra ára verði þeir án efa mun mikilvægari en þeir eru nú. Stefna beri að einfaldri lausn og m.a. beri að ræða þann möguleika að lækka tolla á sjávarafurðir frá EFTA-ríkjunum, í stað þess að veita þeim tollfrjálsa kvóta.

Engin lagaleg stoð fyrir fjárkröfum ESB
Varðandi kröfur ESB um verulega hækkun á framlögum EFTA-ríkjanna í þróunarsjóði ESB í kjölfar stækkunar tekur nefndin skýrt fram að samkvæmt EES-samningnum hafi ESB enga lagalega stoð til að setja fram slíkar kröfur. Jafnframt beri að hafa í huga að EFTA-aðildarríki EES hafi engan aðgang að t.d. uppbyggingarsjóðum ESB. Á hinn bóginn kemur fram að EFTA-ríkin hafi gefið til kynna að þau séu reiðubúin til að auka framlag sitt í þróunarsjóði ESB í kjölfar stækkunar. Almennt segir nefndin að komast beri að niðurstöðu sem feli í sér jafnvægi m.a. gagnvart spurningunum um fjárframlög og markaðsaðgang með sjávarafurðir.

Stækkun EES og ESB samtímis
Loks leggur ráðgjafarnefnd EES áherslu á mikilvægi þess að stækkun EES fari fram samtímis stækkun ESB.

Sjá ályktun ráðgjafafnefndar EES, um stækkun EES, á heimasíðu EFTA.

Samtök atvinnulífsins