Fréttir - 

11. Mars 2016

Báðir foreldrar nýti fæðingarorlof sitt til fulls

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Báðir foreldrar nýti fæðingarorlof sitt til fulls

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að fæðingarorlofskerfið verði endurreist í sem næst upphaflegri mynd með hækkun hámarksgreiðslna og að hlutfall viðmiðunartekna verði áfram 80%. Sú aðgerð hefur mest áhrif á töku feðra á fæðingarorlofi en SA telja rétt að báðir foreldrar nýti fæðingarorlof sitt til fulls til samvista með börnum sínum.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að fæðingarorlofskerfið verði endurreist í sem næst upphaflegri mynd með hækkun hámarksgreiðslna og að hlutfall viðmiðunartekna verði áfram 80%. Sú aðgerð hefur mest áhrif á töku feðra á fæðingarorlofi en SA telja rétt að báðir foreldrar nýti fæðingarorlof sitt til fulls til samvista með börnum sínum. 

Samtök atvinnulífsins ásamt Alþýðusambandi Íslands áttu frumkvæði að því ferli sem leiddi til setningar gildandi fæðingarorlofslaga. Fram að þeim tíma fengu mæður í starfi hjá hinu opinbera greidd dagvinnulaun sín í þágildandi fæðingarorlofi og konur á almennum vinnumarkaði sem voru svo heppnar að eiga aðild að öflugum sjúkrarsjóðum, eins og sjúkrasjóði VR, fengu greidd 80% launa sinna í fæðingarorlofinu.

Markmið SA og ASÍ var að jafna réttindi milli vinnumarkaða, jafna samkeppnisstöðu kynjanna á vinnumarkaðnum með þeirri skiptingu orlofsins milli foreldra sem þar er kveðið á um og þar með stuðla að jafnrétti kynjanna. Reynslan af upptöku fæðingarorlofskerfisins var mjög góð og ótrúlegur árangur náðist varðandi þátttöku feðra við umönnun barna sinna og þar með jöfnun á aðstöðu kynjanna.

Samtök atvinnulífsins leggjast gegn tillögu meirihluta starfshóps félags- og húsnæðismálaráðherra um að fyrstu 300.000 kr. viðmiðunartekna verði óskertar. Sú framkvæmd flækir kerfið og hefur ekki verið sýnt fram á að sá kostnaðarauki sem tillögunni fylgir muni fremur stuðla að markmiðinu um jafnrétti kynja en hækkun hámarksfjárhæðarinnar. Æskilegra er að nýta þá fjármuni til hækkunar hámarksgreiðslu úr sjóðnum og komast þannig nær fyrra viðmiði. Þá á það ekki að vera hlutverk fæðingarorlofsgreiðslna að stuðla að tekjujöfnun í landinu.

SA geta ekki heldur fallist á þá tillögu meiri hluta starfshópsins að fæðingarorlof vegna barns verði lengt í 12 mánuði með vísan til aukins kostnaðar og lengri fjarveru foreldra frá störfum. Alls óljóst er að slík lenging muni stuðla að jafnrétti kynjanna. SA telja að brúa eigi hið svokallaða umönnunarbil, eftir að núgildandi fæðingarorlofi lýkur, með aukinni dagvistunarþjónustu sveitarfélaga.

Samtök atvinnulífsins telja að fyrirkomulag fjármögnunar verði að liggja fyrir samhliða ákvörðun. Annað sé ábyrgðarlaust. Frekari hækkun tryggingagjalds kemur ekki til álita af hálfu SA.

Samtök atvinnulífsins