Efnahagsmál - 

09. Oktober 2009

Ávarp Vilhjálms Egilssonar á Umhverfisþingi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ávarp Vilhjálms Egilssonar á Umhverfisþingi

"Við verðum að horfa til framtíðar og byggja upp ný arðbær störf, spara og fjárfesta okkur út úr kreppunni. Hver sá sem horfir á möguleika okkar utanfrá sér á augabragði vannýttar náttúruauðlindir sem geta orðið til gagns og skapað skilyrði fyrir velmegun og velferð þjóðarinnar allrar." Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í ávarpi á Umhverfisþingi sem nú stendur yfir.

"Við verðum að horfa til framtíðar og byggja upp ný arðbær störf, spara og fjárfesta okkur út úr kreppunni. Hver sá sem horfir á möguleika okkar utanfrá sér á augabragði vannýttar náttúruauðlindir sem geta orðið til gagns og skapað skilyrði fyrir velmegun og velferð þjóðarinnar allrar." Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í ávarpi á Umhverfisþingi sem nú stendur yfir.

"Það er frumskylda okkar sem gegnum leiðandi hlutverkum í stjórnmálum, atvinnulífi eða samtökum fólks eða fyrirtækja að sjá til þess að  fólk geti séð fyrir sér og sínum. Okkur ber skylda til að treysta  þær undirstöður sem tryggja fólki vinnu og möguleika til fullrar þátttöku  í samfélaginu. Umhverfismál og sjálfbær þróun snýst um fólk."

Vilhjálmur kom víða við í ræðu sinni, en hann segir Samtök atvinnulífsins ganga út frá því sem vísu að sjálfbær nýting auðlinda og skynsamleg langtímasjónarmið séu ráðandi í atvinnuuppbyggingu.  "Við skynjum að náttúran og auðlindir okkar eru ekki óendanlegar, þeim eru sett takmörk sem við verðum að lifa við og læra á."

Vilhjálmur undirstrikaði að Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á ábyrgð í nýtinu auðlinda landsins. "Ábyrg en jákvæð stefna er hins vegar ekki alltaf til vinsælda fallin og því miður eru margvíslegir fordómar sem atvinnulífið þarf að glíma við þegar nýting auðlindanna er annars vegar," sagði Vilhjálmur.

Vilhjálmur ræddi um ábyrga stjórnun fiskveiða og nefndi að í öllum alþjóðlegum samanburði hafi Íslendingar náð mjög góðum árangri við stjórn fiskveiða. "Tækifærismennska og skammtímasjónarmið eru þó skammt undan og freistingar óábyrgra stjórnmálamanna eru stundum óbærilegar.  Það erum við að upplifa núna með svokölluðum strandveiðum sem eru gamaldags atkvæðakaup á kostnað heildarhagsmuna.  Jafnvel fræðimenn í faginu taka að sér að leiða ábyrgðarleysið," sagði Vilhjálmur.

Samtök atvinnulífsins eru andvíg þeim áformum stjórnvalda að færa rannsóknir og stefnumótun um auðlindir frá atvinnuvegaráðuneytum til Umhverfisráðuneytisins. "Rannsóknir á auðlindunum eru samofnar þróun atvinnugreinanna.  Náin tengsl rannsókna, nýtingar og stjórnsýslu  styrkja mjög þann skilning sem nauðsynlegur er á sjálfbærri og ábyrgri nýtingu.  Frá sjónarhóli atvinnulífsins er mun heppilegara að rannsóknum vegna auðlindanýtingar sé stýrt af ráðuneytum og ráðherrum sem hafa framþróun viðkomandi atvinnugreinar að markmiði. Atvinnulífið getur ekki búið við að litið sé á auðlindanýtingu og fyrirtæki sem nýta sér auðlindir sem eilíft vandamál," sagði Vilhjálmur.

Framkvæmdastjóri SA ræddi einnig um loftslagsmál og sagði íslenskt atvinnulíf gera ráð fyrir auknum kröfum um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum. Mikilvægt væri þó að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja. "Það er afar mikilvægt að ekki verði gerðar meira íþyngjandi kröfur til einstakra fyrirtækja og atvinnugreina hér en gilda í nálægum löndum.  Starfssemi á Íslandi má ekki flytjast um set og byggjast upp þar sem kröfur eru minni."

Vilhjálmur mótmælti harðlega áformum um sérstaka skattlagningu á orkufrekan iðnað sem hvergi tíðkist. "Áhrifin verða fyrst og fremst þau að fæla fjárfesta frá og byggja starfsemina upp annars staðar.  Umhverfisáhrifin eru því engin. Það eru alger öflugmæli að kynna þessa skattheimtu sem umhverfisgjöld.  Á næstu árum er við það miðað að íslenskur orkufrekur iðnaður falli undir viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir en muni ekki þurfa að greiða fyrir þær nema að því marki sem útstreymi  er umfram það sem gerist hjá þeim bestu í viðkomandi atvinnugrein."

Þá vék Vilhjálmur að stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera og aðkomu umhverfisráðherra að honum:

 "Samtök atvinnulífsins gerðu ásamt fleirum sáttmála 25. júní við ríkisstjórnina þar sem m.a. eru skýr  ákvæði um að stjórnvöld muni greiða götu álversins í Helguvík og tengdra framkvæmda.  Takið eftir: Greiða götu.  Nú hefur umhverfisráðherra gert grófa atlögu að þessum sáttmála með því að fella úr gildi án lagaheimilda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 25. mars um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á Suðvesturlínu. Við gerðum stöðugleikasáttmálann við ríkisstjórnina í góðri trú  og í vinnslu hans var okkur aldrei tjáð að það væru nein sérstök vandkvæði á því að tryggja að engar hindranir yrðu af hálfu opinberra aðila í vegi álversins í Helguvík og tengdra framkvæmda þann 1. nóvember næstkomandi.

Það er athyglisvert að ráðherrann talar ítrekað um "þá sem gerðu stöðugleikasáttmálann" þegar hún er að verja ákvörðun sína. Samt er ríkisstjórnin aðili að sáttmálanum. Í hausnum stendur "ríkisstjórn Íslands". Er ekki ráð að einhver veljviljaður ráðherranum hér á þessu þingi hnippi í hana og vekji athygli hennar á því að hún er í ríkisstjórninni og sjálf aðili að sáttmálanum"

Sjá nánar:

Ræða Vilhjálms Egilssonar á Umhverfisþingi 2009 (PDF)

Samtök atvinnulífsins