Efnahagsmál - 

23. september 2010

Ávarp formanns Samtaka atvinnulífsins á skattafundi SA og VÍ

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ávarp formanns Samtaka atvinnulífsins á skattafundi SA og VÍ

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins setti í morgun opinn fund SA og Viðskiptaráðs Íslands um skattamál fyrirtækja sem nú stendur yfir. Þar lögðu samtökin fram ítarlegar tillögur að umbótum á skattkerfinu sem miða að því að efla fjárfestingar, stuðla að sköpun nýrra starfa og bæta lífskjör landsmanna. Í erindi sínu sagði Vilmundur að þær breytingar sem ríkisstjórnin hafi gert á skattkerfinu lýsi ótrúlega mikilli vanþekkingu á efnahagslífinu. Skattkerfið hafi verið fært áratugi aftur í tímann, einfaldleika þess og gagnsæi hafi verið fórnað.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins setti í morgun opinn fund SA og Viðskiptaráðs Íslands um skattamál fyrirtækja sem nú stendur yfir. Þar lögðu samtökin fram ítarlegar tillögur að umbótum á skattkerfinu sem miða að því að efla fjárfestingar, stuðla að sköpun nýrra starfa og bæta lífskjör landsmanna. Í erindi sínu sagði Vilmundur að þær breytingar sem ríkisstjórnin hafi gert á skattkerfinu lýsi ótrúlega mikilli vanþekkingu á efnahagslífinu. Skattkerfið hafi verið fært áratugi aftur í tímann, einfaldleika þess og gagnsæi hafi verið fórnað.

"Engin tilraun var gerð til þess að hlusta á þær aðvaranir sérfræðinga og hagsmunaaðila að kerfið yrði flóknara, eftirlit umfangsmeira og dýrara og ekki síst að hættan á undanskotum og mistökum ykist. Þetta er nánast eins og að horfa inn í postulínsbúð þar sem óð fílahjörð hefur leikið lausum hala."

Ræðu Vilmundar má lesa í heild hér að neðan:

Ráðherra, félagar, góðir fundarmenn

Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fundar sem Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands boða til að kynna sameiginlega skýrslu sem liggur hér frammi og er afrakstur greiningar sem starfsfólk þessara samtaka hafa unnið á síðustu mánuðum ásamt sérfræðingum í skattarétti bæði lögfræðingum, endurskoðendum,hagfræðingum og fleirum. Skýrslan ber heitið "Skattkerfi atvinnulífsins. Fjárfesting - Atvinna - Lífskjör Tillögur til umbóta".

Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 var fyrirsjáanlegt að ríkisfjármálin yrðu mjög erfið viðureignar á komandi árum og að samstillt átak þyrfti til að bregðast við tekjufalli og stórauknum vaxtakostnaði ríkissjóðs. Aðeins þannig yrði markmiði um sjálfbæran ríkisrekstur náð. Þetta var almennt viðurkennt og við undirritun stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í júní 2009 komust menn að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig skyldi skipta aðlögunarþörf ríkissjóðs milli skattahækkunar og lækkunar útgjalda. Atvinnulífið gerði sér fulla grein fyrir þörf ríkisins fyrir skattahækkanir á árunum 2009 og 2010.

Okkur, í forystu atvinnulífsins skorti hins vegar hugmyndaflug til að ímynda okkur að ríkisstjórnin myndi færa skattkerfið áratugi aftur í tímann, fórna einfaldeika þess og gagnsæi, gera það ósamkeppnisfært við nálæg ríki og taka upp að nýju skatta sem eru óréttlátir og flest nálæg ríki hafa losað sig við. Þar að auki munu margar þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd ekki færa ríkissjóði auknar tekjur heldur þvert á móti draga úr skatttekjum ásamt því að draga úr umsvifum í þjóðfélaginu og um leið seinka fjárfestingum og þeim bata sem efnahagslífið þarf svo sárlega á að halda.

Þegar ég fór yfir skýrsluna sem hér er til umfjöllunar þá fór ekki hjá því að ég fyndi til vonbrigða og reiði. Það er vegna þess að breytingarnar sem gerðar voru á skattkerfinu lýsa svo ótrúlega mikilli vanþekkingu á efnahagslífinu. Engin tilraun var gerð til þess að hlusta á þær aðvaranir sérfræðinga og hagsmunaaðila að kerfið yrði flóknara, eftirlit umfangsmeira og dýrara og ekki síst að hættan á undanskotum og mistökum ykist.

Þetta er nánast eins og að horfa inn í postulínsbúð þar sem óð fílahjörð hefur leikið lausum hala.

Tillögurnar sem er að finna í skýrslunni ganga í þá átt að afnema margar af þeim breytingum á skattkerfinu sem gerðar voru á þessu ári og hinu síðasta. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð eru hér eftir sem hingað til reiðubúin að vinna með stjórnvöldum að breytingum til batnaðar á skattkerfinu Forsenda þess er sú að haft verði að leiðarljósi að skattkerfið hér á landi verði samkeppnishæft við það sem best gerist í nálægum löndum. Grunnhugsunin verður að vera sú að skattstofnar séu sem breiðastir og þær skattahækkanir sem nauðsynlegar kunna að vera valdi sem minnstum skaða.

Tillögur Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands um breytingar á löggjöf um skattamál miða að því að halda fólki og atvinnustarfsemi í landinu.  Mikilvægasta hlutverk stjórnvalda nú er að efla atvinnulíf og fjárfestingar í landinu. Mikilvægur hluti þess er að fyrirtæki og fjárfestar búi við stöðugt skattumhverfi þar sem stjórnvöld forðast óþarfa kollsteypur heldur horfa til framtíðar þar sem samkeppnishæfni landsins er höfð að leiðarljósi. Að svo mæltu fel ég Finni Oddssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands, stjórn fundarins.

Tegt efni:

Nýtt rit SA og VÍ: Skattkerfi atvinnulífsins - fjárfesting - atvinna lífskjör (PDF)

Viðtal við Vilmund í síðdegisþætti Bylgjunnar - smellið til að hlusta

Samtök atvinnulífsins