1 MIN
Ávarp formanns á Ársfundi atvinnulífsins
Atvinnulíf. Það er fallegt orð. Í því felst orka, kraftur. Í því felst samfélag. Í raun verður atvinnulíf ekki aðskilið samfélaginu. Við sem byggjum íslenskt samfélag finnum okkur flest innan atvinnulífsins og njótum góðs af krafti þess, kraftinum sem knýr samfélagið.
Það er rúmlega ár síðan við vorum stödd hér í þessu sama húsi og ræddum um orkumál á Ársfundi atvinnulífsins. Margt hefur breyst síðan þá. Á þessu ári sem er liðið hefur á Íslandi ríkisstjórn verið slitið, kosningar hafa verið haldnar, ný ríkisstjórn mynduð. Síðan við vorum hér síðast hefur Donald Trump verið kosinn forseti Bandaríkjanna og ég formaður Samtaka atvinnulífsins.
Nýjum ríkisstjórnum fylgja nýjar áherslur. Hafin er vinna við mótun atvinnustefnu fyrir Ísland. Auðlindastefna hefur verið boðuð. Ferðaþjónustan má eiga von á auknum álögum til viðbótar þeim hundruðum milljarða sem hún skilar til hins opinbera. Veiðigjöldin verða tvöfölduð frá næstu áramótum eftir að Alþingi samþykkti umdeild lög um mitt sumar. Auknar álögur í gegnum veiðigjöld leggjast ofan á þá hátt í 90 milljarða sem sjávarútvegurinn skilar til hins opinbera á ári hverju.
Samtök atvinnulífsins hafa aldrei skorast undan því að taka þátt í stefnumótun með stjórnvöldum. Við fögnum því sérstaklega að leggja eigi áherslu á framleiðni í uppleggi stjórnvalda. Einfaldasta leiðin, og sú leið sem ætti að teljast sjálfsögð, er að einfalda regluverk og lækka skatta og álögur á atvinnulífið. Það eykur þrótt atvinnulífsins, eykur lifsgæði almennings og skilar á endanum fleiri krónum í ríkiskassann.
Ég hef á síðustu árum haft vaxandi áhyggjur af umræðunni um atvinnulífið, umræðu sem náði hámarki þegar tvöföldun veiðigjalda var rædd á Alþingi Íslendinga. Það virðist vera vaxandi tilhneiging að líta svo á að atvinnulífið sé til fyrir ríkissjóð en ekki fyrir eigendur sína, starfsfólk og nærsamfélög. Þetta viðhorf var einmitt mjög ríkjandi í umræðunum um veiðigjöldin.
Í þeirri umræðu var einnig áberandi rof milli verðmætasköpunar og vinnu. Sá hugsunarháttur hefur farið vaxandi á síðustu árum, líklega vegna þess hve ríkið hefur orðið aðsópsmeira í samfélaginu, og náði hann hámarki á tímum heimsfaraldurins.
En. Það stofnar enginn fyrirtæki með það aðalmarkmið að greiða ríkinu, til að stjórnmálin geti ráðstafað fjármagninu til annarra. Það er raunar merkilegt hversu lítil áhersla hefur verið á lækkun tekjuskatts, bæði fyrirtækja og þá ekki síður einstaklinga, þegar kemur að kjarasamningum. Umræðan um veiðigjöldin sýndi að mínu mati tvennt: Annars vegar hversu mikilvægur sjávarútvegur er fyrir samfélög um allt land og hins vegar alvarlegan skort á skilningi á rekstri fyrirtækja sem lýsir sér í rofi milli verðmætasköpunar og lífsgæða í huga sífellt fleiri.
Þetta er eitthvað sem ætti að vera okkur öllum í atvinnulífinu mikið umhugsunarefni.
Eitt er að slíkt rof verði í huga almennings en þegar það nær til stjórnvalda þá er vandinn alvarlegur. Af því ákvarðanir sem eru teknar í dag hafa áhrif á morgun. Illa ígrundaðar ákvarðanir hafa alvarlegri áhrif til lengri tíma.
Í könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu í tilefni af Ársfundi atvinnulífsins kemur fram að ríflega helmingur fyrirtækja telur sig í harðri samkeppni við hið opinbera um starfsfólk. Hið opinbera hefur í mörgum tilfellum leitt launaþróun og stytt vinnutíma auk þess sem réttindi eru enn töluvert meiri en á almennum markaði. Það er ójafn leikur og alvarlegur fyrir samfélagið. Ríki og sveitarfélög fjármagna þessa þróun með lántökum og aukinni skattheimtu á fólk og fyrirtæki. Það er munaður sem ekkert fyrirtæki getur keppt við til lengdar.
Til bæta gráu ofan á svart neita stjórnvöld síðan að viðurkenna að þær auknu álögur sem þau leggja á fyrirtækin hafi í för með sér afleiðingar sem krefjast jafnvel aðhalds og hagræðingar. Þá er skuldinni skellt á stjórnendur og eigendur fyrirtækjanna og jafnvel talað um hefndarráðstafanir gagnvart stjórnarráðinu. En. Ég veit ég tala fyrir hönd margra. Fyrirtækin eru ekki til fyrir ríkisvaldið. Fyrirtækin eru ekki til vegna ríkisvaldsins. Og það sama gildir um einstaklinga, fjölskyldur. Við heyrum sífellt oftar tilkynningar frá hinni og þessari ríkisstofnuninni að fólk eigi að haga sér á þennan eða hinn veginn til að minnka álag á þær. Við heyrum sífellt það viðhorf frá stjórnmálunum að þessi hópur eða hinn, stundum fjölskyldur, eigi nóg til og eigi því að greiða meira af sjálfsaflafé sínu til hins opinbera. Við í atvinnulífinu biðjum um skýrar leikreglur, að stjórnvöld velji ekki sigurvegara og stilli sér ekki upp gegn einkaframtakinu í opinberri umræðu.
Við í atvinnulífinu höfum nefnilega mikla reynslu af því að skapa verðmæti, við höfum mikla reynslu af því að sjá tækifæri, mikla reynslu af því að bregðast við erfðum aðstæðum. Eftir hrunið voru það útflutningsgreinarnar sem komu samfélaginu til bjargar. Orkusækni iðnaðurinn hélt hjólunum gangandi. Hugverkaiðnaðurinn fékk aukið vægi. Sjávarútvegurinn bætti einum stofni, makrílnum, inn í myndina. Ferðaþjónustan tókst á flug. Sumir hafa gert lítið úr þessu. Ja, makríllinn synti bara inn í lögsöguna. Eyjafjallajökull gaus bara. Það er ekkert bara þegar kemur að rekstri fyrirtækja. Það þurfti hugmyndir, það þurfti ákvarðanir, það þurfti fjármagn og fjárfestingu til að nýta þau tækifæri sem gáfust. Það þurfti kraft. Og atvinnulífið er krafturinn sem knýr samfélagið.

Ný ríkisstjórn hefur slegið nýjan tón þegar kemur að orkuöflun. Það er ekki bara jákvætt heldur er það lífsnauðsyn til að íslenskt samfélag geti sótt fram og viðhaldið lífsgæðum sínum. Ný ríkisstjórn hefur líka talað um einföldun regluverks. Það er jákvætt. Það reglugerðarfargan sem hefur flætt yfir atvinnulífið, stundum úr tölvum við Arnarhól og í auknum mælum tölvum í Brussel, hefur flækt daglegt líf í fyrirtækjum og oft aukið kostnað verulega. Þessi ótrúlega þörf stjórnvalda til að þurfa alltaf að svara öllum spurningum og koma í veg fyrir ólíklegustu uppákomur með reglugerðum er verulega hamlandi. Hugsunin á bak við laga- og reglugerðarsetningu virðist í mörgum tilfellum vera að koma í veg fyrir frekar en að gera kleift. Á þessu tvennu er reginmunur. Í öðru felst traust á því að fyrirtæki og einstaklingar fari vel með vald sitt og áhrif en hins vegar að fyrirtæki og einstaklingar reyni alltaf að hámarka gróða sinn án þess að hugsa um afleiðingar á samborgara sína og umhverfi. Við sem höfum staðið í fyrirtækjarekstri vitum að virðingin fyrir starfsfólki, fyrir viðskiptavinum, er alltaf í öndvegi. Það er ekki sjálfbært að misnota stöðu sína. Það er einfaldlega „bad business“.
Stjórnvöld eiga að setja leikreglurnar. En þau eiga ekki að skrifa handritið. Við þurfum ekki að grafa djúpt til að sjá hversu miklu aðilar vinnumarkaðarins hafa áorkað í sínum samningaviðræðum og samstarfi. Það var ekki ríkið sem bjó til lífeyrissjóðakerfið, það var ekki ríkið sem bjó til fæðingarorlofið, sjúkrasjóði, starfsendurhæfingu, fræðslusjóði. Nei, það var gert á vettvangi atvinnulífsins.
Stöðugleikasamningarnir sem voru undirritaðir á fyrri hluta ársins 2024 lögðu grunninn að þeirri hjöðnun verðbólgu sem náðst hefur. Í aðdraganda þeirra urðu samningsaðilar sammála um að skyldur sínar gagnvart sínum félagsmönnum fælust í því að vinna bug á verðbólgu og skapa aðstæður fyrir lækkun stýrivaxta. Hringinn í kringum samningaborðið sat fólk sem tók áhættu með því að skrifa undir. Það var því þeim mun daprara að horfa upp á hið opinbera, ríki og sveitarfélög, semja um verulega hærri launahækkanir en hafði verið samið um á almennum markaði. Það var því þeim mun daprara að sjá æðstu embættismenn ríkisins þiggja 5,6% launahækkun nú í sumar. Á sama tíma og gjöld á einn af mikilvægustu útflutningsgreinunum var tvöfaldað. Þessi atburðarás sýnir mikilvægi þess að ríkissáttasemjari sé bundinn af því tryggja að launastefnu stefnumarkandi kjarasamninga sé fylgt.
Ágætu fundargestir.
Ástandið í alþjóðmálum er alvarlegt, óstöðugt. Stríð geisa víða um heiminn. Stríðið í Úkraínu teygir anga sína víða. Fyrir tveimur vikum síðan var ég staddur í Finnlandi á fundi með leiðtogum atvinnulífsins á Norðurlöndunum. Finnar eiga sem kunnugt er meira en þúsund kílómetra landamæri að Rússlandi og hafa í gegnum tíðina háð mörg stríð við Rússa. Viðbúnaður Finna er mikill. Við Íslendingar getum lært margt af þeim þegar kemur að viðnámsþrótti. Í Finnlandi áforma stjórnvöld að auka viðnámsþrótt samfélagsins með auknu samtali og samráði við atvinnulífið og með því að lækka tekjuskatt á fyrirtæki úr 20% í 18%.
Ofan á það bætist tollastríð Bandaríkjaforseta og hótanir Evrópusambandsins um tolla á útflutning kísilmálma frá Íslandi, hótanir sem ganga gegn samningnum um evrópska efnahagssvæðið. Sjaldan hefur verið mikilvægara að íslensk stjórnvöld gæti hagsmuna landsins á alþjóðavettvangi. Þá er mikilvægt að horfa ískalt á hverjir hagsmunir okkar eru og muna að útflutningsgreinarnar eru lífæð Íslands. Það er á þeim sem lífsgæði okkar hvíla. Það eru útflutningsgreinarnar sem ákvarða svigrúm til launahækkana. Það verðum við að hafa í huga þegar við setjumst næst að samningaborðinu í kjaraviðræðum.
Ríkisstjórnin hefur sett aðildarviðræður við Evrópusambandið á dagskrá. Kannanir hafa sýnt að takmarkaður stuðningur er við það innan atvinnulífsins að stíga skrefið inn í ESB. Við sjáum líka á skoðanakönnunum meðal almennings að þjóðin er klofin í afstöðu sinni til sambandsins. Síðast þegar íslensk stjórnvöld lögðu í Evrópuleiðangur var ekki samstaða innan þeirrar ríkisstjórnar. Sama er upp á teningnum nú. SA munu leggja sitt af mörkum til að greina stöðuna. Hverju mun það skila fyrir íslenskt samfélag, umfram EES samninginn, að ganga alla leið inn í ESB? Innganga er því sem næst óafturkræf og því mikilvægt að umræðan sé byggð á staðreyndum en ekki óskhyggju eða áhyggjum.
Kæru fundargestir.
Í því að stofna og reka fyrirtæki felst þrá til að ráða örlögum sínum og hafa áhrif á framtíðina. Í því felst það að skapa tækifæri og verðmæti fyrir samfélagið sitt. Íslenskt samfélag þarfnast þess krafts til að viðhalda lífsgæðum. Stjórnvöld verða að líta á það sem hlutverk sitt að efla þann kraft frekar en að koma á hann böndum með auknum álögum. Stjórnvöld verða að skapa aðstæður sem hvetja fólk til þess að vinna. Og stjórnvöld verða að taka meiri ábyrgð á útgjöldum ríkissjóðs. Vinnudagurinn á Íslandi snýst ekki um að greiða skatta, hann snýst um að bæta lífskjör, bæta afkomu. Og í ljósi frétta og atburða síðustu daga er enn mikilvægara að fyrir okkur að halda vöku okkar.
Samtök atvinnulífisins munu sem fyrr standa í stafni og berjast fyrir réttlátu og einföldu umhverfi fyrir íslensk fyrirtæki. Þau eru krafturinn sem knýr samfélagið.