Efnahagsmál - 

22. Júní 2012

Aukning kaupmáttar og einkaneyslu eykur tekjur ríkissjóðs

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukning kaupmáttar og einkaneyslu eykur tekjur ríkissjóðs

Upplýsingar um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins sem fjármálaráðuneytið hefur nú birt styðja við áður framkomnar vísbendingar um jákvæða þróun á vinnumarkaði og í hagkerfinu. Aukning kaupmáttar og einkaneyslu, umfram það sem fjárlög ársins byggja á, hefur bætt rekstrarafkomu ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins um nálægt 15 ma.kr. Verði áframhaldandi vöxtur í atvinnulífinu næstu mánuði munu tekjur ríkissjóðs í ár verða umtalsvert umfram áætlun fjárlaga. Tekjur af auknum veiðum á makríl, loðnu og þorski og auknum fjölda ferðamanna er mikilvæg skýring á jákvæðri þróun í efnahagslífinu.

Upplýsingar um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins sem fjármálaráðuneytið hefur nú birt styðja við áður framkomnar vísbendingar um jákvæða þróun á vinnumarkaði og í hagkerfinu. Aukning kaupmáttar og einkaneyslu, umfram það sem fjárlög ársins byggja á, hefur bætt rekstrarafkomu ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins um nálægt 15 ma.kr. Verði áframhaldandi vöxtur í atvinnulífinu næstu mánuði munu tekjur ríkissjóðs í ár verða umtalsvert umfram áætlun fjárlaga. Tekjur af auknum veiðum á makríl, loðnu og þorski og auknum fjölda ferðamanna er mikilvæg skýring á jákvæðri þróun í efnahagslífinu.

Tekjur ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins reyndust 24 ma.kr. hærri en í fyrra, eða sem nemur 16%, á meðan að gjöldin jukust um rúma 14 ma.kr., eða 9%. Innheimtar tekjur af tekjuskatti einstaklinga aukast um tæp 20% og heildarlaunastofn tryggingagjalds  jókst um 13%.  Á sama tíma hækkaði launavísitalan að frádregnum eingreiðslum kjarasamninga um 10%. Af tölum Hagstofunnar um vinnumarkaðinn má ráða að störfum á fjórum fyrstu mánuðum ársins hafi fjölgað um nálægt 3.000, eða um 2%, og að atvinnulausum hafi fækkað um 2.000.

Tekjur af óbeinum sköttum aukast um tæp 16% á milli ára. Þar af aukast tekjur af virðisaukaskatti (VSK) um 15% sem er nokkuð umfram áætlun í fjárlögum. Tekjur af VSK eru sveiflukenndar eftir mánuðum, m.a. vegna endurgreiðslna innskatts, en tekjur af skattinum voru töluvert yfir áætlun í janúar, febrúar og apríl en verulega undir áætlun í mars. Fram kemur að bráðabirgðatölur fyrir maí bendi til þess að innheimtan sé nokkuð yfir áætlun í þeim mánuði.

Aflaverðmæti á föstu verðlagi jókst um 26% á fyrsta ársfjórðungi 2012 frá sama tímabili í fyrra. Þá gefur fyrirsjáanleg aukning í aflaheimildum í þorski á næstu árum vonir um auknar útflutningstekjur. Rekja má betra ástand þorskstofnsins til ákvörðunar stjórnvalda árið 2007 um þriðjungs skerðingu á aflaheimildum á þorski.

Í forsendum fjárlaga 2012 er m.a. gert ráð fyrir 8 ma.kr. hagnaði af sölu eigna ríkisins. Ólíklegt er að þessu markmiði verði náð en gera má ráð fyrir að meiri arðgreiðslur, einkum frá Seðlabanka Íslands, vegi upp þann tekjumissi.

Útgjöld stofnana ríkisins virðast almennt vera innan heimilda fjárlaga og fátt bendir til annars en að svo muni verða í árslok, með nokkrum undantekningum hjá framhaldsskólum og heilbrigðisstofnunum. Hins vegar má búast við að útgjöld almannatrygginga og sjúkratrygginga fari nokkuð fram úr heimildum fjárlaga þegar líða tekur á árið. Líklegt er að greiðslur og endurgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til ellilífeyrisþega verði umfram útgjaldaheimildir sem og útgjöld vegna lyfja og sérfræðilækna. Það er venja, frekar en undantekning, að áformaður útgjaldasparnaður í fyrrnefndum málaflokkum náist ekki og að magnbreytingar verði meiri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga.

Þegar á heildina er litið má ætla að heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 2012, að undanskyldum óreglulegum útgjöldum, víki óverulega frá heimildum fjárlaga. Á síðustu árum hafa óregluleg útgjöld ríkissjóðs verið verulega umfram heimildir fjárlaga og ekki er ólíklegt að svo verði einnig í ár. Á þessu stigi er þó erfitt að meta þá fjárhæð með neinni vissu.

Samtök atvinnulífsins