Efnahagsmál - 

21. ágúst 2013

Aukinn kaupmáttur með hóflegum launahækkunum og lágri verðbólgu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukinn kaupmáttur með hóflegum launahækkunum og lágri verðbólgu

Ekkert svigrúm er til þess að hækka laun á næstu árum í takt við launahækkanir síðustu ára. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið sem fjallar í dag um vinnumarkaðinn og komandi kjarasamninga. Hann segir að miklar launahækkanir á hverju ári leiði til mikillar verðbólgu sem éti upp kaupmátt fólks. Reynsla Norðurlandanna sýni að hægt sé að ná umtalsverðum kaupmætti til lengri tíma með hóflegum launahækkunum. Samtök atvinnulífsins séu sammála verkalýðsfélögunum um að auka kaupmátt en það verði ekki gert með því að hækka laun umtalsvert á skömmum tíma.

Ekkert svigrúm er til þess að hækka laun á næstu árum í takt við launahækkanir síðustu ára. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Morgunblaðið sem fjallar í dag um vinnumarkaðinn og komandi kjarasamninga. Hann segir að miklar launahækkanir á hverju ári leiði til mikillar verðbólgu sem éti upp kaupmátt fólks. Reynsla Norðurlandanna sýni að hægt sé að ná umtalsverðum kaupmætti til lengri tíma með hóflegum launahækkunum. Samtök atvinnulífsins séu sammála verkalýðsfélögunum um að auka kaupmátt en það verði ekki gert með því að hækka laun umtalsvert á skömmum tíma.

Þorsteinn bendir á að svo virðist í spám greiningardeilda bankanna sé  gert ráð fyrir því að laun muni hækka um 5-6% á ári. Þessar launahækkanir skýri alfarið spá bankanna um 3,9-4,7% verðbólgu á árunum 2014 og 2015. Mikilvægt sé að þessar spár gangi ekki eftir því svo mikil verðbólga sé skaðleg.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag bendir Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur, á að of miklar launahækkanir muni leiða til verðbólguskots og kalla á vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands sem muni m.a. hækka greiðslubyrði óverðtryggðra lána. Fyrirtæki á innanlandsmarkaði neyðist til að mæta hækkun launa með verðhækkunum þar sem ekkert bendi til að einkaneysla sé að aukast. Með því að taka réttar ákvarðanir og byggja hækkun launa á framleiðniaukningu atvinnulífsins sé hægt að auka kaupmátt fólks.

Magnús segir fátt benda til að nýsköpunarfyrirtæki séu að verða til sem muni ríða baggamuninn og auka þjóðarframleiðsluna umtalsvert. "Maður sér ekki að Ísland sé að fara að eignast sitt Nokia fyrirtæki eins og Finnar gerðu eftir sína kreppu."

Samtök atvinnulífsins