Efnahagsmál - 

11. október 2010

Aukin skattheimta óheillaspor sem takmarkar vöxt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukin skattheimta óheillaspor sem takmarkar vöxt

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastóri SA, tók þátt í umræðum um skattastefnu ríkisstjórnarinnar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 10. október ásamt Helga Hjörvar alþingismanni. Hannes segir skattastefnuna koma í veg fyrir nauðsynlega uppbyggingu atvinnulífsins. Frekari hækkun tekjuskatts fyrirtækja og fyrirhuguð hækkun á fjármagnstekjuskatti hindri fjárfestingar í atvinnulífinu en en aukin fjárfesting sé einmitt það sem Ísland þurfi á að halda til að komast út úr kreppunni. Fjárfestingar eru nú í algjöru lágmarki - þær hafa aldrei verið lægri.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastóri SA, tók þátt í umræðum um skattastefnu ríkisstjórnarinnar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 10. október ásamt Helga Hjörvar alþingismanni. Hannes segir skattastefnuna koma í veg fyrir nauðsynlega uppbyggingu atvinnulífsins. Frekari hækkun tekjuskatts fyrirtækja og fyrirhuguð hækkun á fjármagnstekjuskatti hindri fjárfestingar í atvinnulífinu en en aukin fjárfesting sé einmitt það sem Ísland þurfi á að halda til að komast út úr kreppunni. Fjárfestingar eru nú í algjöru lágmarki - þær hafa aldrei verið lægri.

Aðspurður sagði Hannes aukna skattheimtu ekki réttu leiðina til að auka tekjur ríkissjóðs við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Það sem auki tekjur ríkisins til framtíðar séu fjárfestingar, ný störf og aukin verðmætasköpun. Um leið og sá grunnur sem atvinnulífið stendur á verði veikari minnki tekjur ríkisins til lengri tíma litið. Hannes segir að í raun ættu stjórnvöld að hvetja til fjárfestinga en því sé þveröfugt farið.

Hannes segir það hagsmuni allra að á Íslandi sé öflugt atvinnulíf til að tryggja ríkinu góðar tekjur til velferðarmála. Skattapólitík sem vinni gegn þessu markmiði hljóti að vera röng.

Í umræðunni var ennfremur komið inn á veikleika í fjárlagafrumvarpinu 2011 og viðhorf stjórnenda til þróunarinnar í atvinnulífinu næstu mánuði. Lítil sem engin fjárfestingaráform eru í kortunum meðal íslenskra fyrirtækja og stjórnendur hyggjast ekki ráða nýja starfsmenn á næstunni. Þá undirstrikaði Hannes að taka þurfi mjög hratt á skuldavanda fjölmargra fyrirtækja til að þau geti byrjað að fjárfesta á ný. 

Hægt er að hlusta á umræðuna á Sprengisandi á vef Bylgjunnar en stjórnandi þáttarins er Sigurjón M. Egilsson:

Hlusta hér - 1. hluti

Hlusta hér 2. hluti

Samtök atvinnulífsins