Vinnumarkaður - 

17. Febrúar 2009

Aukin fjölbreytni nauðsynleg í íslensku atvinnulífi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukin fjölbreytni nauðsynleg í íslensku atvinnulífi

Auka má fjölbreytni verulega í íslensku atvinnulífi. Þegar blæs á móti í rekstrinum líkt og nú þarf að taka til og leita nýrra leiða til aukinnar hagsældar. Það er því klókt að auka fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja og í stjórnunarstöðum. Það getur verið ein þeirra leiða sem koma íslensku atvinnulífi fyrr af stað í sókn til bættra lífskjara.

Auka má fjölbreytni verulega í íslensku atvinnulífi. Þegar blæs á móti í rekstrinum líkt og nú þarf að taka til og leita nýrra leiða til aukinnar hagsældar. Það er því klókt að auka fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja og í stjórnunarstöðum. Það getur verið ein þeirra leiða sem koma íslensku atvinnulífi fyrr af stað í sókn til bættra lífskjara.

Þetta kemur fram í nýrri atvinnustefnu SA en þar er m.a. fjallað um þá staðreynd að áður en fjármálakreppan skall hér á af fullum þunga voru nærri sex af hverjum tíu stærstu fyrirtækjanna með hreinræktaðar karlastjórnir. Það er mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins að konur og karlar eigi í reynd jafna möguleika til starfa, starfsþróunar og launa. Karlar eru enn í miklum meirihluta í stjórnum og í stöðu yfirmanna fyrirtækja þó svo að hlutfall kvenna sem stjórnenda hafi farið hækkandi undanfarin ár.

Mikilvægt er fyrir nýsköpun og frjóa uppsprettu hugmynda í fyrirtækjum að þar starfi fólk með ólíkan bakgrunn, með ólíka menntun, á ólíkum aldri og með ólíka reynslu. Úr slíkum suðupotti skapast nýjungar með opnum samskiptum þar sem öllu er haldið til haga.

Samtök atvinnulífsins skipa í 24 sæti stjórnarmanna í 9 lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægt fjárhagslegt afl en í árslok 2007 nam hrein eign allra lífeyrissjóðanna í landinu um 1.650 milljörðum króna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir landsmenn að sjóðunum sé stjórnað faglega en Samtök atvinnulífsins hafa viljað auka fjölbreytni stjórnarmanna og rétta hlut kynjanna innan stjórnanna. Árið 2008 voru konur helmingur tilnefndra stjórnarmanna SA á því ári og skipa nú konur fjórðung af þeim sætum sem SA skipa í lífeyrissjóðunum. Áfram verður haldið á þessari braut. Konum verður að fjölga í stjórnum og í hópi stjórnenda.

Á næstu árum þarf með skipulegum hætti að útvíkka málaflokkinn jafnréttismál þannig að líka sé hugað að því hvernig tekst að nýta sem best allan þann mannauð sem býr í því fólki sem hefur flust til Íslands og haslað sér þar völl. Íslenskt atvinnulíf á mikið undir því að þetta fólk aðlagist að íslensku samfélagi og ekki skapist ástand þar sem því er mismunað.

Ennfremur er þessari umræðu tengt hvernig Íslendingar geta keppt um hámenntað fólk sem er að velta fyrir sér búsetu á Íslandi. Sérstaklega þarf að huga að því fólki sem giftist íslenskum námsmönnum og öðrum Íslendingum sem flytjast tímabundið til útlanda. Nauðsynlegt er að það sé raunhæfur kostur fyrir fólk sem hefur þannig tengsl við land og þjóð að flytjast hingað og finna störf við sitt hæfi.

Sjá nánar:

Atvinnustefna SA 

Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna SA (PDF)

Samtök atvinnulífsins