Efnahagsmál - 

03. Febrúar 2005

Aukin fjárfestingaráform fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukin fjárfestingaráform fyrirtækja

Fleiri fyrirtæki hyggjast auka fjárfestingar sínar á árinu en á sama tíma í fyrra, samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. 27% fyrirtækja hyggjast fjárfesta meira í ár en á síðasta ári og sama hlutfall hyggst fjárfesta minna. 46% hyggjast fjárfesta álíka mikið og á síðasta ári. Í sambærilegri könnun fyrir ári síðan hugðust hins vegar 22% fjárfesta meira en árið áður en 31% hugðust fjárfesta minna. Könnunin í ár sýnir því talsverða aukningu fjárfestingaráforma miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur ekki á óvart miðað við það sem ætla mætti af helstu hagvaxtarspám undanfarinna mánaða. Þá kemur þetta ágætlega heim og saman við nýlega könnun SA á ráðningaráformum fyrirtækja, en samkvæmt henni var þó nokkur fjölgun starfa framundan á vinnumarkaði.

Fleiri fyrirtæki hyggjast auka fjárfestingar sínar á árinu en á sama tíma í fyrra, samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. 27% fyrirtækja hyggjast fjárfesta meira í ár en á síðasta ári og sama hlutfall hyggst fjárfesta minna. 46% hyggjast fjárfesta álíka mikið og á síðasta ári. Í sambærilegri könnun fyrir ári síðan hugðust hins vegar 22% fjárfesta meira en árið áður en 31% hugðust fjárfesta minna. Könnunin í ár sýnir því talsverða aukningu fjárfestingaráforma miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur ekki á óvart miðað við það sem ætla mætti af helstu hagvaxtarspám undanfarinna mánaða. Þá kemur þetta ágætlega heim og saman við nýlega könnun SA á ráðningaráformum fyrirtækja, en samkvæmt henni var þó nokkur fjölgun starfa framundan á vinnumarkaði.


 

Mikill samdráttur í sjávarútvegi
Ef horft er á einstakar atvinnugreinar eftir aðildarfélögum SA er samdráttur fjárfestinga í sjávarútvegi mest áberandi. Ef skoðaður er mismunur á hlutfalli þeirra sem hyggjast auka fjárfestingar og minnka þær kemur í ljós að í fiskvinnslu (SF) boða 43% fleiri fyrirtæki samdrátt en aukningu og 32% fyrirtækja í útgerð (LÍÚ) gera slíkt hið sama. Þetta eru svipaðar tölur og fyrir ári síðan en árin áður hafði veruleg fjárfesting átt sér stað í sjávarútvegi. Ljóst er að hátt gengi krónunnar hefur þarna mikið að segja. Gengið hefur einnig mjög slæm áhrif á rekstrarskilyrði margra fyrirtækja í ferða- þjónustu en engu að síður hyggjast 13% fleiri fyrirtæki innan hennar auka fjárfestingu en minnka. Ljóst er að mörg fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar sjá fram á aukna veltu samfara miklum hagvexti, á meðan mörg þeirra sem háð eru tekjum af erlendum ferðamönnum glíma við lækkandi tekjur í krónum talið. 
 

Mest breyting í verslun og þjónustu
Ákveðið jafnvægi ríkir í fjárfestingaráformum iðnfyrirtækja (SI) og rafverktaka (SART), en í báðum greinum virðist samdráttur í fjárfestingaráformum fara minnkandi. Þá boða mun færri fjármálafyrirtæki (SFF) aukningu í fjárfestingum en fyrir ári síðan, eða 4% í stað 22% fyrir ári. Mest breyting virðist hins vegar framundan í verslun og þjónustu (SVÞ), en þar hyggjast nú 21% fleiri fyrirtæki auka fjárfestingu en minnka á meðan 2% fleiri hugðust minnka hana fyrir ári síðan. Þarna er væntanlega fyrst og fremst um að ræða mælingu á auknum umsvifum í atvinnulífinu almennt, samfara miklum hagvexti.

Samdráttur á landsbyggðinni
Talsverður munur er á svörum fyrirtækja eftir starfssvæði þeirra. Fyrirtæki sem starfa á höfuðborgarsvæðinu eða landinu öllu boða auknar fjárfestingar, 6-11% fleiri en boða samdrátt, en fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni boða samdrátt, 13% fleiri en boða aukningu.

Starfssvæði 

Munur á aukningu / samdrætti

Höfuðborgarsvæðið 

+6%

Landsbyggðin 

-13%

Landið allt 

+11%Þarna er í rauninni um að ræða aðra mælingu á samdrætti í sjávarútvegi annars vegar, og á aukningu í verslun og þjónustu hins vegar. Ekki virðist hins vegar vera munur á svörum eftir stærð fyrirtækja í fjölda starfsfólks talið.

Ekki skilaboð um upphæðir
Ekki er hægt að draga beinar ályktanir af þessum tölum um heildarfjárfestingu atvinnulífsins í krónum talið. Einstakar fjár- festingar geta skipt sköpum og til dæmis er ljóst að fjárfest- ingar vegna yfirstandandi stóriðjuframkvæmda verða mun meiri í ár en í fyrra. Þá hafa nýlega átt sér stað gríðarlegar fjárfestingar íslenskra fyrirtækja erlendis sem munu hafa veruleg áhrif á heildarupphæð fjárfestinga íslensks atvinnulífs á þessu ári. Hins vegar sýnir könnunin að fyrirtækin eru almennt að taka við sér í fjárfestingum miðað við fyrri ár, sem kemur ekki á óvart miðað við helstu hagvaxtarspár.

Um könnunina
Könnunin var gerð í janúar og var hún send til 853 fyrirtækja. Svör bárust frá 515 þeirra, eða 60,4%.

Samtök atvinnulífsins