Vinnumarkaður - 

01. nóvember 2004

Aukið frelsi í þjónustuviðskiptum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukið frelsi í þjónustuviðskiptum

Stofnanir ESB hafa nú til umfjöllunar drög að tilskipun um þjónustuviðskipti á innri markaðinum. Þjónustugeirinn í löndum ESB er mjög mikilvæg grein sem skapar um 65-70% af vergri þjóðarframleiðslu. Hér er því mikið í húfi. Raunin er hins vegar sú að einungis 20% af viðskiptum milli landa tengjast þjónustu. Því hefur verið haldið fram að löggilding tilskipunarinnar muni hafa í för með sér allt að 15-35% aukningu í þjónustuviðskiptum milli aðildarríkja. Almennt muni þjónustugeirinn njóta góðs af tilskipuninni vegna aukinna milliríkjaviðskipta og fjárfestinga sem hún hefði í för með sér. Vöxtur slíkra viðskipta mun skila arði fyrir þjóðfélögin í heild sinni. Andstæðingar tilskipunarinnar hafa hins vegar lýst áhyggjum af félagslegum áhrifum hennar, einkum fyrir starfsfólk sem færi til starfa erlendis á vegum fyrirtækja. Hefur ýmsu verið haldið fram í því sambandi, m.a. hérlendis. Það er því ástæða til að líta nánar á hvað er hér á ferðinni.

Stofnanir ESB hafa nú til umfjöllunar drög að tilskipun um þjónustuviðskipti á innri markaðinum. Þjónustugeirinn í löndum ESB er mjög mikilvæg grein sem skapar um 65-70% af vergri þjóðarframleiðslu. Hér er því mikið í húfi. Raunin er hins vegar sú að einungis 20% af viðskiptum milli landa tengjast þjónustu. Því hefur verið haldið fram að löggilding tilskipunarinnar muni hafa í för með sér allt að 15-35% aukningu í þjónustuviðskiptum milli aðildarríkja. Almennt muni þjónustugeirinn njóta góðs af tilskipuninni vegna aukinna milliríkjaviðskipta og fjárfestinga sem hún hefði í för með sér. Vöxtur slíkra viðskipta mun skila arði fyrir þjóðfélögin í heild sinni. Andstæðingar tilskipunarinnar hafa hins vegar lýst áhyggjum af félagslegum áhrifum hennar, einkum fyrir starfsfólk sem færi til starfa erlendis á vegum fyrirtækja. Hefur ýmsu verið haldið fram í því sambandi, m.a. hérlendis. Það er því ástæða til að líta nánar á hvað er hér á ferðinni.

Þjónusta hluti fjórfrelsisins

Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að frelsi í þjónustuviðskiptum er ein stoð hins svonefnda fjórfrelsis á Evrópska efnahagssvæðinu. Frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa hefur hins vegar tíðum reynst vera meira í orði en á borði vegna gífurlegrar skriffinnsku, hægagangs og mikils kostnaðar, t.d. vegna þýðinga og lögfræðiaðstoðar. Sem dæmi um ástæður þessa má nefna mismunandi stjórnsýsluhætti á milli landa, t.d. hvað varðar kröfur vegna starfsleyfisveitinga. Þetta hefur reynst smáum og meðalstórum fyrirtækjum þungbært og jafnvel ofviða og þau því gjarnan horfið frá slíkum viðskiptum.

           

Megintilgangurinn með þessari tilskipun er því að tryggja að það sem þegar er heimilt geti í raun gengið. Sagt hefur verið að tilskipunin geri það sama fyrir þjónustuviðskipti og fullgilding innri markaðarins árið 1992 gerði fyrir vöruviðskipti. Það hlýtur að teljast mikið fagnaðarefni ef ESB tekst þannig að hrinda í framkvæmd auknu frelsi í viðskiptum með þjónustu, frelsi sem þegar er kveðið á um í sáttmálum sambandsins en hefur sem fyrr segir oft reynst meira í orði en á borði.

Gagnkvæm viðurkenning

Með tilskipuninni verður reglan um gagnkvæma viðurkenningu á lögum og reglum fest í sessi í þjónustuviðskiptum, með nokkrum undantekningum. Þetta mun hafa í för með sér að sá aðili sem á löglegan hátt býður þjónustu í heimalandi sínu mun einnig geta boðið hana í öðru landi EES án þess að þurfa að fara á ný í gegnum allar þær leyfisveitingar og viður-kenningar sem hann hefur þegar öðlast heima fyrir. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta gildir eingöngu þegar rætt er um flutninga á þjónustu yfir landamæri en ekki varðandi frelsi til stofnunar þjónustufyrirtækis í öðru landi. Í þeim tilvikum gildir löggjöf þess lands sem verður fyrir valinu til stofnunar fyrirtækisins.

Útsendir starfsmenn

Í tilskipunardrögunum er sem fyrr segir að finna undantekningar frá reglunni um gagnkvæma viðurkenningu. Þetta á t.d. við um útsenda starfsmenn, þar sem áfram mun gilda tilskipun um útsenda starfsmenn nr. 96/71/EB en hún var innleidd í lög hérlendis með lögum nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja. Þar eru taldar upp þær íslensku lagareglur sem skulu gilda um starfskjör þeirra og leyfileg frávik. Meginreglan er að beita skal íslenskum lögum að því er varðar lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, orlof, hámarks-vinnutíma og hvíldartíma svo og vinnuvernd, fæðingarorlof og jafnrétti kynja. Tilskipunin um þjónustu mun engin áhrif hafa á þessi atriði. Þá er það skýrt tekið fram í tilskipunardrögunum  (24. gr.) að það sé á ábyrgð yfirvalda þess ríkis sem viðkomandi starfsmaður starfar tímabundið í að tryggja að farið sé eftir þessum ákvæðum, í samstarfi við stjórnvöld í heimaríki hans hverju sinni. Þjónustutilskipunin breytir þessu ekki, heldur þvert á móti styrkir hún skyldur til samstarfs og upplýsingastreymis á milli landa, en á einfaldari máta en áður.

"Mýtur leiðréttar"

Vegna villandi umræðna um tilskipunardrögin hefur framkvæmdastjórn ESB sett fram nokkra punkta til að leiðrétta "mýtur" í umræðu um tilskipunardrögin. Þar er m.a. lögð áhersla á það sem fram kemur hér að framan, varðandi hvaða reglur muni gilda um útsenda starfsmenn og eftirlit með þeim. Punktana má nálgast hér (pdf-skjal).

Sjá tilskipunardrögin á vef ESB (pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins