Efnahagsmál - 

15. Maí 2009

Aukið flækjustig og misráðin neyslustýring

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Aukið flækjustig og misráðin neyslustýring

Heilbrigðisráðherra hefur viðrað hugmyndir um sérstakan skatt á sykraða gosdrykki í þeim tilgangi að draga úr neyslu þeirra og stuðla með þeim hætti að bættri tannheilsu landsmanna. Þessi áform ganga þvert á þá skattastefnu sem Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög þeirra hafa barist fyrir um árabil sem felst í einföldun, hlutleysi og skilvirkni skattkerfisins.

Heilbrigðisráðherra hefur viðrað hugmyndir um sérstakan skatt á sykraða gosdrykki í þeim tilgangi að draga úr neyslu þeirra og stuðla með þeim hætti að bættri tannheilsu landsmanna. Þessi áform ganga þvert á þá skattastefnu sem Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög þeirra hafa barist fyrir um árabil sem felst í einföldun, hlutleysi og skilvirkni skattkerfisins.

Sumarið 2006 skilaði nefnd á vegum forsætisráðherra, skipuð helstu hagsmunaaðilum og fulltrúum ráðuneyta, skýrslu um ástæður hás matvælaverðs hér á landi og setti fram tillögur til úrbóta, en eins og alkunna er þá finnst hvergi hærra matvælaverð í heiminum en hér á landi. Skýrslan var gefin út í nafni Hagstofustjóra þar sem nefndarmenn voru ekki sammála í öllum atriðum. Um einn þátt var nefndin þó einhuga sem var að afnema svonefnd vörugjöld á matvæli.

Vörugjöld (e. excise taxes) þekkjast í öllum löndum en afmarkast við tiltölulega fáa vöruflokka, einkum olíuvörur, áfengi og tóbak. Víðtæk notkun vörugjalda er hins vegar séríslenskur skattur sem leggst á hundruði vöruflokka og er arfur frá löngu liðinni tíð þegar tollar voru lækkaðir eða afnumdir í tengslum við aðildina að EFTA en vörugjöld á innfluttar og innlendar vörur tekin upp í staðinn. Ef sérstakur skattur yrði lagður á gosdrykki flokkaðist hann undir vörugjald.

Í skýrslu Hagstofustjóra segir að vörugjöld hafi uppsöfnunaráhrif, brengli verðhlutföll og gefi ranga mynd af undirliggjandi verði. Vörugjöldin myndi skjól fyrir óeðlilega hátt verð á samkeppnis- og staðgönguvörum. Niðurstaða nefndarinnar var að neikvæð áhrif þessarar skattlagningar á verðhlutföll og verðlag, ekki síst á samkeppnisvöru, vegi þyngra en hugsanleg jákvæð áhrif á neysluvenjur. Stjórnvöldum beri því að leita annarra ráða en skattlagningar til þess að ná þess háttar markmiðum. Með öðrum orðum þá myndi sérstakur skattur á gosdrykki  ekki einungis hækka verð á þeim heldur stuðla að hærra verði á öðrum drykkjarvörum.

Framleiðendur verða fyrir miklu óhagræði og tímasóun vegna vörugjaldanna þar sem miklum tíma er sóað í skýrslugerð, utanumhald og flókna útreikninga í tengslum við uppgjör á gjöldunum. Afnám þeirra myndi því stuðla að aukinni hagkvæmni og lægri framleiðslukostnaði hér á landi.

Nefndin vísaði því einnig á bug að árangur hefði náðst með vörugjöldunum í þá veru að draga úr neyslu óhollra eða óæskilegra vara enda hefðu vörur sem bera vörugjald aukist að vægi í neysluútgjöldum heimilanna á undanförnum árum. Vænlegra til árangurs væri því að beita öðrum aðferðum en sértækri skattlagningu til að ná markmiðum um heilsusamlegar neysluvenjur, s.s. upplýsingum og áróðri.

Lög um afnám vörugjalda af matvælum voru samþykkt á Alþingi í desember 2006. Með lögunum voru vörugöld afnumin af gosdrykkjum og staðgönguvörum á borð við kolsýrt vatn, te og kaffi. Alþingi heyktist þó á því að stíga skrefið til fulls og afnema öll vörugjöld af matvælum því eftir voru skilin vörugjöld af sykri og sælgæti. Vörugjaldakerfið með sínum göllum og óhagræði er því enn við lýði á sviði matvæla, auk þess að vera enn afar víðtækt á sviði byggingavöru og ýmsum heimilisbúnaði.

Álagning sérstaks skatts á gosdrykki er skref aftur á bak í þróun skattkerfisins. Það er ekki góð byrjun hjá nýrri ríkisstjórn að ganga þvert á skattastefnu samtakanna í atvinnulífinu í ljósi margítrekaðra áforma hennar um samráð, samstarf og samvinnu við samtökin í atvinnulífinu.

Samtök atvinnulífsins