Auka þarf tiltrú á atvinnulífið

Ályktun stjórnar Samtaka atvinnulífsins
samþykkt á fundi 5. júlí 2001


Stjórn Samtaka atvinnulífsins lýsir áhyggjum af mikilli gengislækkun krónunnar undanfarna mánuði, vaxandi verðbólguþrýstingi af þeim sökum og versnandi afkomu fyrirtækja. Ennfremur lýsa samtökin sérstökum áhyggjum af minnkandi tiltrú á atvinnulífið og af þeim efnahagssamdrætti sem nú virðist hafinn. Samtökin telja að þróun gengis og verðlags á næstu mánuðum skipti sköpum um hvort þau markmið kjarasamninga á almennum vinnumarkaði náist að hér takist að tryggja áfram efnahagslegan stöðugleika og treysta lífskjör. Samtökin telja að allir sem haft geta áhrif á framvinduna verði að gera sitt ítrasta til að stuðla að því að þessi markmið náist.  Þótt nokkur lækkun á gengi krónunnar frá því sem það reis hæst á síðasta ári, einkum í ljósi mikils viðskiptahalla, hafi átt rétt á sér telja samtökin að svo mikil gengislækkun sem raun ber vitni eigi sér  ekki efnahagslegar forsendur.

Launakostnaður íslenskra fyrirtækja hefur vaxið mun hraðar en í nágrannalöndunum og jafnframt hraðar en framleiðni fyrirtækjanna.  Launakostnaður sem hlutfall af rekstrarkostnaði fyrirtækja og hlutur launa í þjóðartekjum hefur vaxið hratt og leitt til versnandi afkomu fyrirtækja og verðbólguþrýstings.   Þá hefur fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja verið hár sökum hárra vaxta hér á landi og gengislækkun undanfarinna mánaða hefur haft alvarleg áhrif á afkomu þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem skulda í erlendum gjaldmiðlum.

Hefja þarf ferli vaxtalækkana
Til að bregðast við þessari stöðu hefur fjöldi fyrirtækja gripið til aðhaldsaðgerða. Koma þarf í veg fyrir að almennrar svartsýni taki að gæta í þjóðfélaginu um horfur í efnahags- og atvinnumálum. Það sem mestu skiptir nú er að treysta tiltrú á atvinnulífið og sporna gegn því að samdráttur verði of mikill. Samtökin leggja því áherslu á mikilvægi þess að hafist verði handa við lækkun vaxta til mótvægis. Það er trú samtakanna að lækkun vaxta  á næstunni muni ekki ýta undir verðbólgu, því hún stafar einkum af gengislækkun undanfarinna mánaða en ekki af eftirspurnarþrýstingi.  Meginviðfangsefni peningamálastefnunnar er ekki að draga úr ofþenslu síðustu missera heldur að fást við samdrátt í atvinnulífinu.  Lækkun vaxta á ekki að þurfa að tefla verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í tvísýnu.

Lækka þarf skattbyrði atvinnulífsins
Ennfremur leggja Samtök atvinnulífsins áherslu á mikilvægi skattalækkana fyrir atvinnulífið og ítreka fyrri tillögur sínar um lækkun tekjuskattshlutfallsins í 15%, afnám eignarskatts og afnám stimpilgjalda. Samtökin fagna yfirlýsingum ráðamanna um fyrirætlanir í þeim efnum, en árétta mikilvægi þess að ráðist verði í slíkar breytingar strax í haust. Áhrif slíkra skattalækkana skila sér ekki strax því fyrirtækin þurfa umþóttunartíma til að breyta fjárfestingaráformum sínum, en taki slíkar breytingar gildi í ársbyrjun 2002 munu þær hafa mikilvæg mótvægisáhrif á þá þróun til niðursveiflu sem nú er hafin. 


Hraða ber einkavæðingu
Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að einkavæðingu opinberra fyrirtækja verði hraðað, og fagna fyrirhugaðri sölu á þriðjungi hlutabréfa í Landsbanka Íslands. Víðtæk einkavæðing fjarskipta-, fjármála- og orkufyrirtækja þjónar þeim tilgangi að efla erlenda fjárfestingu og skapa ný og hagstæð fjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóði og aðra innlenda fjárfesta. Með því má jafnframt draga úr halla á fjármagnsjöfnuði þjóðarbúsins og þrýstingi á gengi krónunnar. Einkavæðing gegnir ennfremur því hlutverki að auka samkeppni og framleiðni í efnahagslífinu og renna þannig styrkari stoðum undir batnandi lífskjör.

Loks telja Samtök atvinnulífsins bráðnauðsynlegt að allir sýni ítrasta aðhald í verðlagsmálum. Þetta á við um verðhækkanir einkafyrirtækja í samkeppni, en ekki síður gjaldskrárhækkanir opinberra aðila, sem ekki búa við aðhald markaðarins