Efnahagsmál - 

26. október 2010

Auðvelda þarf íslenskum fyrirtækjum að afla verkefna erlendis

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Auðvelda þarf íslenskum fyrirtækjum að afla verkefna erlendis

Síðastliðin tvö ár hefur nær algjört hrun orðið í verktakagreininni. Starfsmönnum hefur þannig fækkað um 50% til 60%. Til að koma í veg fyrir verkefnaskort og atvinnuleysi og að greinin leggist ekki af í bókstaflegri merkingu er íslenskum fyrirtækjum og starfsmönnum í verktakastarfssemi mikilvægt að geta fengið verkefni við hæfi erlendis.

Síðastliðin tvö ár hefur nær algjört hrun orðið í verktakagreininni. Starfsmönnum hefur þannig fækkað um 50% til 60%. Til að koma í veg fyrir verkefnaskort og atvinnuleysi og að greinin leggist ekki af í bókstaflegri merkingu er íslenskum fyrirtækjum og starfsmönnum í verktakastarfssemi mikilvægt að geta fengið verkefni við hæfi erlendis.

Þar keppa fyrirtækin við starfsmenn fyrirtækja með heimilisfesti í ríkjum sem flest hver hafa sett lög sem við uppgjör tekjuskatts leyfa að innlendur skattur af erlendu tekjunum sé dregin frá heildarskattinum. Með öðrum orðum þá greiðir starfsmaðurinn ekki tekjuskatt í heimalandinu af erlendu tekjunum en á móti eru launin oftast lægri erlendis þar sem um er að ræða lönd utan Evrópu og N-Ameríku. Fyrir vikið geta fyrirtækin tryggt að starfsmenn fái ekki lægri útborguð laun en áður sem eykur samkeppnishæfni þeirra. Allir hagnast á þessu fyrirkomulagi; starfsmaðurinn eykur tekjur sínar, fyrirtækið verður samkeppnisfært með eigin starfsmenn og ríkið sparar bótagreiðslur.

Hér á landi er slíkur frádráttur ekki leyfður. Þetta veldur fyrirtækjunum erfiðleikum vegna þess að þau vildu auðvitað frekar eiga kost á að bjóða starfsfólki áframhaldandi starf. Til að komast inn í þetta kerfi eru starfsmennirnir því oft nauðbeygðir að bregða búi og flytja erlendis sem í mörgum tilvikum er ógerlegt þegar um fjölskyldumenn er að ræða.

Því er lagt til í lög um tekjuskatt verði tekin inn sambærileg ákvæði og gilda á Norðurlöndunum um skattaívilnun fyrir menn sem starfa að verkefnum erlendis í sex mánuði eða lengur. Ákvæðinu er ætlað að hvetja menn og fyrirtæki til að leita sér verkefna erlendis án þess að eiga tvísköttun á hættu. Þannig eigi maður sem ber fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi en aflar tekna vegna vinnu erlendis samfellt í sex mánuði eða lengri tíma rétt á því að heildartekjuskattur hans sé lækkaður um þá skattfjárhæð sem reiknast af hinum erlendu tekjum. Dvelji maður erlendis við störf lengur en í tólf mánuði haldi hann rétti sínum til lækkunar á tekjuskatti af hinum erlendum tekjum jafnvel þótt launin sæti ekki skattlagningu í vinnulandinu ef skattundanþágan byggist á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum í vinnulandinu.

Þetta myndi tvímælalaust auðvelda íslenskum fyrirtækjum sem taka að sér framkvæmdir erlendis að hafa með sér Íslendinga að heiman og stuðla að fækkun byggingamanna á atvinnuleysisskrá.

Samtök atvinnulífsins