Auður fólginn í aukinni orkuframleiðslu og iðnaðaruppbyggingu

Á næstu árum er hægt að ráðast í framkvæmdir á sviði orkuframleiðslu og iðnaðaruppbyggingu á Íslandi fyrir um 1.000 milljarða króna. Þetta má gera með því að hraða framkvæmdum við ný álver og virkjanir og opna þar með leið fyrir gjaldeyrisstreymi inn til landsins til skemmri og lengri tíma með stóraukinni iðnframleiðslu. Þetta kemur fram í samtali við Þór Sigfússon, formann SA, í Viðskiptablaðinu í dag.

Í ítarlegri fréttaskýringu blaðsins um undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar segir að Íslendingar séu í öfundsverðri stöðu þrátt fyrir að þurfa að horfast í augu við fjármálakreppu nú um stundir. Aðspurður um hvaða verkefni  standi á bak við 1.000 milljarðana nefnir Þór byggingu gagnaveitu og kísilflöguverksmiðju hins danska fyrirtækis Tomahawk Development (Icelandic Silicon Corporation) í Helguvík en í  júlí var búið að tryggja 109 milljóna evra framkvæmdafé til fyrsta áfanga þess verkefnis. Einnig álver Norðuráls í Helguvík sem nú er byrjað að reisa, álver á Bakka ýmislegt fleira.

Í Viðskiptablaðinu í dag segir ennfremur í umfjöllun blaðsins:

Bendir Þór líka á fleiri þætti sem ættu að gefa Íslendingum von til bjartrar framtíðar. Þar er t.d. sú staðreynd að Íslendingar eru öflug matvælaframleiðsluþjóð með um 1% af veiddum heildarafla á heimsvísu. "Íslensku lífeyrissjóðirnir eru líka gríðarlega sterkir og þá finnst mér mjög merkilegt að meðalaldur Íslendinga er um fjórum árum lægri en t.d. meðalaldur Frakka og Ítala. Þetta er geysilega þýðingarmikið," segir Þór og telur það eitt af lykilatriðunum hvað varðar samkeppnishæfni landsins. Bendir hann á að víða í Evrópu séu menn komnir að vendipunkti varðandi hækkandi hlutfall eldri þjóðfélagsþegna sem eru að hverfa af vinnumarkaði.

Margir fjármálasérfræðingar hafa líkt og Þór sagt að undanförnu að með aukinni framleiðslu útflutningsatvinnuveganna verði helst hægt að standa undir þeim áföllum sem nú ríða yfir þjóðfélagið. Í þessu sambandi má einnig nefna fund framkvæmdastjórnar SA með framkvæmdastjóra orkumála í ESB, Andris Piebalgs, á dögunum. Setti hann fram nokkrar hugmyndir um aukið samstarf Íslands og ESB í orkumálum.  Aðilar gætu m.a. unnið saman að notkun vetnis sem orkubera, lagt saman krafta í rannsóknum

og þróunarstarfsemi og stuðlað sameiginlega að aukinni notkun jarðhita.

Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast rafrænt eintak á vef blaðsins.