Vinnumarkaður - 

20. febrúar 2023

Atkvæðagreiðsla um verkbann er hafin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atkvæðagreiðsla um verkbann er hafin

Greiða atkvæði

Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) auglýsir hér með almenna leynilega rafræna atkvæðagreiðslu meðal aðildarfyrirtækja sinna um boðun verkbanns sem nær til alls starfsfólks sem starfar á félagssvæði Eflingar - stéttarfélags skv. aðalkjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags og kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar – stéttarfélags vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

Um er að ræða ótímabundið verkbann sem hefst á hádegi fimmtudaginn 2. mars 2023, nema að kjarasamningar hafi náðst eða vinnustöðvun verið aflýst fyrir þann tíma.

Atkvæðagreiðsla hefst klukkan 11:00 mánudaginn 20. febrúar 2023 og lýkur klukkan 16:00 miðvikudaginn 22. febrúar 2023.

Heimild til boðunar atkvæðagreiðslu um verkbann var samþykkt á fundi stjórnar Samtaka atvinnulífsins þann 14. febrúar 2023. Rétthafar félagsmanna SA greiða atkvæði um þá tillögu.

Kosningin fer fram samkvæmt XIII. kafla samþykkta Samtaka atvinnulífsins um vinnustöðvanir. Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins getur veitt undanþágu frá verkbanni, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Umsóknir um undanþágu skulu berast á netfangið verkbann@sa.is .

Tengill til að fá aðgang að rafrænni atkvæðagreiðslu og atkvæðaseðli er hér fyrir ofan (virkjast kl. 11:00 20.02.2023). Allir forsvarsmenn aðildarfyrirtækja munu fá tengilinn jafnframt sendan í tölvupósti. Til að greiða atkvæði þarf rétthafi rafræn skilríki. Ef vandamál koma upp með sms auðkenningu getum við aðstoðað með ykkur með hjáleið í gegnum netfang forsvarsmanns.

Félagsmenn sem hafa ekki fengið send kjörgögn skulu senda erindi til kjörstjórnar og óska þess að verða bætt á kjörskrá. Erindi skal sent á netfangið verkbann@sa.is .

Allar upplýsingar á vinnumarkaðsvef

Á vinnumarkaðsvef má kynna sér svör við algengum spurningum um allt er lýtur að kjaraviðræðum og vinnumarkaðsmálum.

Ef frekari spurningar vakna eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við lögmenn vinnumarkaðssviðs SA.

Spurt og svarað um verkbann - opið félagsmönnum

Kjarasamningar 2022-24

Samtök atvinnulífsins