Efnahagsmál - 

27. janúar 2006

Atvinnurekstur er forsenda byggðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnurekstur er forsenda byggðar

Atvinnulíf og atvinnurekstur er forsenda byggðar eða a.m.k. mikilvægasta undirstaða hennar. Ef engin fyrirtæki og engin starfsemi er til staðar, þá er engin forsenda fyrir byggð! Þetta sagði Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri Akranesskaupstaðar, í erindi sínu á Orkulindinni Ísland - ráðstefnu SA, SI og Samorku um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi.

Atvinnulíf og atvinnurekstur er forsenda byggðar eða a.m.k. mikilvægasta undirstaða hennar. Ef engin fyrirtæki og engin starfsemi er til staðar, þá er engin forsenda fyrir byggð! Þetta sagði Guðmundur Páll Jónsson, bæjarstjóri Akranesskaupstaðar, í erindi sínu á Orkulindinni Ísland - ráðstefnu SA, SI og Samorku um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi.

Guðmundur sagði að þegar tölur varðandi íbúaþróun á Akranesi væru skoðaðar mætti sjá að á árunum 1950 - 2003 hafa orðið þrjú áberandi vaxtarskeið. Fyrst þegar Sementsverskmiðjan tók til starfa, síðan þegar Íslenska Járblendifélagið hóf rekstur og loks með tilkomu Norðuráls. "Tilkoma þessara fyrirtækja var sem vítamínsprauta inn í samfélag sem þegar stóð traustum fótum með öflugum sjávarútvegi,  þjónustufyrirtækjum og heilbrigðisstofnunum."

Ný hugsun og bjartsýni

"Eitt af því sem fylgir komu fyrirtækja eins og stórfyrirtækjanna á Grundartanga er alveg ný hugsun og bjartsýni," sagið Guðmundur. "Þegar fólk með ólíka menntun og ólíkan bakgrunn kom saman og lagðist á árar með kraftmiklum heimamönnum fóru hjólin að snúast. Í kjölfarið fylgdu nýjar hugmyndir og ný vinnubrögð. Gleggsta dæmið um þetta eru Hvalfjarðargöngin. Ef einhver hefði komið fram með þá hugmynd fyrir 20-30 árum síðan að bora göng undir Hvalfjörð hefði slík hugmynd ekki fengið mikinn hljómgrunn - slíkt hefði einfaldlega þótt óhugsandi og vonlaust hefði verið að fá fjárfesta að slíku verki."

"Spin-off"

Þá fjallaði Guðmundur um "spin-off"-áhrif af þessari starfsemi, t.d. nýtingu þeirrar þekkingar sem henni fylgir. "Einn hlutur því tengdur er tilurð Faxaflóahafna en Akurnesingar beittu sér mjög fyrir því að af þeirri sameiningu yrði - eru arkitektar þess, eins og ég kallaði það áður. Með tilkomu þessa öfluga fyrirtækis opnast margir möguleikar t.d. varðandi sérhæfðari þjónustu við fyrirtæki og stofnanir."

Loks sagði Guðmundur ekki mega gleyma þeim fyrirtækjum sem fyrir eru, en uppbyggingin á Grundartanga styður við þau þannig að þau taki við sér og nái að blómstra í þeirri uppsveiflu sem er á svæðinu. "Þarna hefur uppbyggingin á Grundartanga haft mikil áhrif, enda sækja verktakar og iðnaðarmenn frá Akranesi verkefni þangað. Þetta hefur einnig augljós áhrif á stöðu iðnmenntunar í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ungt fólk  sækir í slíkt nám ekki síst vegna þess að það veit að næga atvinnu er að fá."

Sjá erindi Guðmundar Páls Jónssonar.

Samtök atvinnulífsins