Menntamál - 

20. júní 2011

Atvinnulífið veitir 200 milljónum til HR

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið veitir 200 milljónum til HR

Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI) og Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV) hafa tekið höndum saman um að styðja við og efla háskólastarf á Íslandi með 200 milljón króna framlagi til Háskólans í Reykjavík. Þetta kom fram í ávarpi dr. Ara Kristins Jónssonar, rektors Háskólans í Reykjavík, við útskriftarathöfn HR sem haldin var í Hörpu þann 18. júní. SA, SI og SVÍV eru bakhjarlar HR.

Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI) og Sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands um viðskiptamenntun (SVÍV) hafa tekið höndum saman um að styðja við og efla háskólastarf á Íslandi með 200 milljón króna framlagi til Háskólans í Reykjavík. Þetta kom fram í ávarpi dr. Ara Kristins Jónssonar, rektors Háskólans í Reykjavík, við útskriftarathöfn HR sem haldin var í Hörpu þann 18. júní. SA, SI og SVÍV eru bakhjarlar HR.

Í ræðu sinni sagði Ari framlagið mikilvæga lyftistöng fyrir Háskólann í Reykjavík en um leið marki það fyrsta skrefið í þá átt að halda áfram öflugri uppbyggingu skólans. "Með þessu framlagi er atvinnulíf landsins að sýna í verki að  fjárfesting í háskólamenntun er fjárfesting í framtíð atvinnulífs og samfélags."

Ari Kristinn undirstrikaði mikilvægi öflugs háskólastarf fyrir íslenskt samfélag og sagði það spila lykilhlutverk í samkeppnishæfni atvinnulífs. Það ætti bæði við um menntun starfsfólks sem og rannsóknir til nýsköpunar.

"Staðreyndin er því miður sú að þó miklar framfarir hafi orðið á undanförnum árum, þá teljumst við enn ekki vel menntuð þjóð, því hlutfall háskólamenntaðra er lægra hér en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta má vel lesa í ýmsum samanburðarskýrslum, en það sem kannski lýsir þessu best er að í því mikla atvinnuleysi sem við glímum nú við, þá stendur vöntun á vel menntuðu fólki vexti fyrirtækja fyrir þrifum. Sem þjóð, þá verðum við því að taka okkur þessa útskriftarnema og þá sem með þeim hafa unnið til fyrirmyndar og fjárfesta í framtíð okkar með fjárfestingu í háskólamenntun.

Það sem til þessa hefur verið lagt í háskóla landsins hefur skilað sér með eindæmum vel því mjög gott starf er unnið þrátt fyrir að framlög hins opinbera á hvern nemanda séu aðeins helmingur þess sem gerist í nágrannalöndunum. Þessu hefur verið stofnað í verulega hættu með þeim niðurskurði sem orðið hefur á undanförnum árum, en nú má það ekki bíða lengur að snúa blaðinu við og fjárfesta í háskólamenntun, því það er fjárfesting sem mun skila sér á skömmum tíma í auknum hagvexti og bættum lífskjörum fyrir okkur öll."

Í ræðu rektors kom ennfremur fram að Háskólinn í Reykjavík væri, þrátt fyrir ungan aldur, nú þegar orðinn stærsti tækni- og viðskiptaháskóli Íslands, en HR útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tæknimenntun á háskólastigi og um helming þeirra sem lýkur viðskiptamenntun. 470 nemendur voru brautskráðir frá skólanum en í máli rektors koma fram að í könnun sem gerð var á meðal útskriftarnema kom í ljós að meðal þeirra sem ætla sér strax að vinna þá séu yfir 80% komnir með starf fyrir útskrift.

Samtök atvinnulífsins