Efnahagsmál - 

16. apríl 2009

Atvinnulífið skapar störfin (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið skapar störfin (1)

Aðalfundur SA er haldinn á miðvikudaginn í næstu viku undir yfirskriftinni "Atvinnulífið skapar störfin". Tilgangur samtakanna með þessari yfirskrift er að vekja fólk til umhugsunar um að 20 þúsund ný störf verða því aðeins til á næstu árum að fyrirtækin í landinu búi við starfsskilyrði sem hvetja þau til fjárfestinga og aukinna umsvifa og þar með til þess að ráða fleiri starfsmenn. Ríki eða sveitarfélög munu ekki verða leiðandi í nýrri atvinnusókn og því síður munu auknar álögur á atvinnulífið eða þá einstaklinga sem fjárfesta í atvinnulífi hjálpa til við að skapa ný störf.

Aðalfundur SA er haldinn á miðvikudaginn í næstu viku undir yfirskriftinni "Atvinnulífið skapar störfin". Tilgangur samtakanna með þessari yfirskrift er að vekja fólk til umhugsunar um að 20 þúsund ný störf verða því aðeins til á næstu árum að fyrirtækin í landinu búi við starfsskilyrði sem hvetja þau til fjárfestinga og aukinna umsvifa og þar með til þess að ráða fleiri starfsmenn. Ríki eða sveitarfélög munu ekki verða leiðandi í nýrri atvinnusókn og því síður munu auknar álögur á atvinnulífið eða þá einstaklinga sem fjárfesta í atvinnulífi hjálpa til við að skapa ný störf.

Það kemur sífellt skýrar í ljós hversu skaðleg hávaxtastefna Seðlabankans er fyrir atvinnulífið. Fyrirtæki sem þurfa að fjármagna sig með innlendu lánsfé geta ekki réttlætt nýjar fjárfestingar eða aukningu umsvifa sem kallar á meira lánsfé. Þetta á jafnt við um fyrirtæki sem starfa á heimamarkaði og þau sem vilja sækja fram á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir hagstætt gengi er ekki hægt að búast við auknum útflutningi vegna hinna háu vaxta. Afleiðingar háu vaxtanna eru því enn meiri erfiðleikar hjá fyrirtækjum sem annars gætu verið að standa sig og bæta við starfsfólki og svo að auka afskriftaþörfina í bönkunum og hjá almennum viðskiptaaðilum vegna fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum.

Gjaldeyrishöftin eru svo annar stór skaðvaldur og hafa fengið mun minni umfjöllun en þau eiga skilið. Þróun þeirra og afleiðingar fara nákvæmlega eftir kennslubókinni. Nú hefur gengi krónunnar fallið síðustu vikur þrátt fyrir höftin og þrátt fyrir að þau hafi verið hert. Þá vaknar spurningin hvort haldið verði áfram að fletta eftir kennslubókinni og reynt að herða höftin enn frekar og takmarka meira svigrúm í utanríkisviðskiptum. Ástæðan fyrir því að gjaldeyrishöft virka ekki á Íslandi á árinu 2009 er sama eðlis og þau hafa aldrei virkað í neinu landi neins staðar í sögunni.

Gjaldeyrishöft vinna gegn markaðnum en ekki með honum. Þegar löggjöf er sett sem vinnur gegn markaðnum eins og í þessu tilfelli skapast tveir markaðir. Annar er erlendis þar sem krónan er á útsölu og hinn er heftur markaður hérlendis þar sem reynt er að fá hærra (og eðlilegra) verð. Margir hafa mikla hagsmuni af því að kaupa krónuna þar sem hún fæst á útsölu og nýta hana þar sem hún er verðlögð hærra. Til þess eru ótal löglegar leiðir þrátt fyrir höftin. Um leið og höft eru sett eða þau hert af Alþingi og Seðlabankanum eiga markaðsaðilarnir næsta leik. Og sá leikur verður alltaf ójafn.

Nauðsynlegt er að löggjöf um gjaldeyrisviðskipti eins og önnur viðskipti byggist á því að hagsmunir markaðsaðila og stjórnvalda eða samfélagsins fari saman. Skynsamleg löggjöf setur leikreglur sem virkjar hagsmuni þeirra sem eiga viðskipti í þágu samfélagsins. Því þarf að afnema gjaldeyrishöftin og með réttum aðgerðum í kjölfarið væri gengi krónunnar orðið hærra en það er nú hugsanlega innan eins mánaðar og þá líka á uppleið til lengri tíma.

Afnám gjaldeyrishaftanna er þess vegna ein af lykilforsendum þess að skapa tiltrú á íslenskt efnahagslíf og að framtíð þess byggist á eðlilegum markaðsforsendum. Eftir því sem höftin standa lengur dofnar tiltrúin á að íslenskt atvinnulíf búi við samkeppnishæft fjárfestingaumhverfi. Það er engin tilviljun að frjálsir fjármagnsflutningar og gjaldeyrisviðskipti eru meðal hornsteina samninganna um Evrópska efnahagssvæðið og annarra samninga um milliríkjaviðskipti og þeirra lífskjara sem frjáls viðskipti hafa skapað í heiminum.

Margar aðrar aðgerðir má nefna sem nauðsynlegt er að grípa til þannig að íslensk fyrirtæki þori að fjárfesta á nýjan leik og ráða fólk í vinnu. Bankarnir þurfa að komast í þá stöðu að geta þjónað atvinnulífinu og taka verður á fyrirsjáanlegri uppstokkun og endurskipulagningu margra fyrirtækja þannig að sem minnst tjón verði og að samkeppni sé tryggð.

Samtök atvinnulífsins munu einnig leitast við að tryggja í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna að kjarasamningar á vinnumarkaðnum styðji við nýja atvinnusókn. Samtökin hafa átt í samfelldum viðræðum við verkalýðshreyfinguna um þróun mála og ennfremur hefur verið mikið samráð og samstarf við ríki, sveitarfélög og stéttarfélög opinberra starfsmanna. Allir sem að þeim viðræðum hafa komið hafa lýst miklum vilja til þess að stuðla fyrir sitt leyti að því að kjaraþróun komi ekki í veg fyrir nauðsynlega fjölgun starfa í atvinnulífinu.

Ný störf verða til þegar fyrirtæki fá trú á framtíðina og sjá sér hag í því að ráða fleira fólk. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa grundvöll fyrir þessari tiltrú en þau eru ekki ein ábyrg fyrir því að vel takist til. Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin bera líka sína ábyrgð og stjórnendur fyrirtækjanna hafa lykilhlutverki að gegna. Mikilvægt er að ná sem víðtækastri samstöðu, skilningi og samvinnu milli aðila þannig að allir vinni að sama markmiði. Árangur eins verður alltaf hagur annars.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins