Efnahagsmál - 

07. maí 2002

Atvinnulífið og Evrópumálin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið og Evrópumálin

Fimm forstjórar tóku þátt í umræðum um atvinnulífið og Evrópumálin á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Það voru þeir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda, Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, Hörður Arnarson, forstjóri Marel, Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings og Þórður Friðjónsson, forstjóri Verðbréfaþings Íslands og formaður hnattvæðingarnefndar. Umræðunum stjórnaði Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Fimm forstjórar tóku þátt í umræðum um atvinnulífið og Evrópumálin á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Það voru þeir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda, Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, Hörður Arnarson, forstjóri Marel, Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings og Þórður Friðjónsson, forstjóri Verðbréfaþings Íslands og formaður hnattvæðingarnefndar. Umræðunum stjórnaði Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Tryggja hér betur gengisstöðugleika
Í umræðunum lýsti Halldór J. Kristjánsson þeirri skoðun sinni að almennt séð væri starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja vel tryggt með EES-samningnum, en tók þó fram að hann teldi að vaxta- og gjaldmiðilsmálin kölluðu á aðskilda umræðu. Hann sagði ýmislegt benda til að erfitt gæti orðið að taka upp evru en jafnframt að leita þyrfti leiða til að tryggja hér betur gengisstöðugleika.

Krónan ekki til eftir kannski 5-10 ár
Sigurður Einarsson vitnaði til nýlegs erindis framkvæmdastjóra samtaka breskra banka og verðbréfafyrirtækja, þar sem hann lagði fram nokkra kvarða til að mæla viðskipta- og efnahagslegt hagræði af ESB-aðild. Sagði hann alla þá mælikvarða fremur jákvæða. Hins vegar væru pólitískar spurningar um sjálfstæði og sjávarútvegsstefnu allt annars eðlis. Sigurður sagði að íslenska krónan yrði ekki til eftir kannski fimm til tíu ár. Það væri óhjákvæmileg þróun, fyrirtæki væru í vaxandi mæli að færa lántökur og annan kostnað yfir í aðra gjaldmiðla og nefndi hann sem dæmi að Kaupþing bæri t.d. húsnæðiskostnað sinn núorðið í evrum.

Sjávarútvegsstefna ESB óásættanleg
Brynjólfur Bjarnason sagði það viðhorf ríkjandi innan sjávarútvegsins að EES-samningurinn tryggi okkar hagsmuni vel. Sjávarútvegsstefna ESB væri óásættanleg, sbr. grundvallaratriðið um jafnan aðgang. Brynjólfur sagðist binda takmarkaðar vonir við endurskoðun stefnunnar og sagðist ekki hafa mikla trú á að reglan um hlutfallslegan stöðugleika ætti eftir að halda. Þá sagði hann umgengni ESB um auðlindina hafa verið til skammar.

Fjárfesting hér mjög erfið
Hörður Arnarson sagði hnattvæðinguna vera ferla sem halda myndi áfram af fullum krafti og að hann sæi fyrir sér að innan 5-10 ára yrðu tvö sterk hagkerfi í heiminum, dollarahagkerfi og evruhagkerfi. Hugsanlega eitt til viðbótar í Asíu á grundvelli japanska jensins. Hann lagði áherslu á að þeir sem tækju þátt í þessu ferli næðu árangri og að ESB gegndi mikilvægu hlutverki í þessum efnum. Aðspurður um erlendar fjárfestingar sagði hann aðalatriðið gagnvart fjárfestum vera stöðugleika, hvort sem væri gagnvart markaðnum eða samkeppnisaðilum. Vaxtastig og gengissveiflur undanfarin misseri gerðu hins vegar fjárfestingu hér mjög erfiða. Hann sagðist sjá marga galla við ESB, svo sem ófullkomna sjávarútvegsstefnu, ósveigjanlegan vinnumarkað og miklar reglubyrðar. Þessi mikli óstöðugleiki vægi hins vegar þyngra á vogarskálunum að hans mati.

Hagstjórn við evruaðild
Þórður Friðjónsson sagði að með kyrrstöðu gagnvart Evrópuþróuninni væri Ísland að fjarlægjast hnattvæðingar- og Evrópuþróunarferlin. Hann vísaði, aðspurður um hagsveiflur og hagstjórn við evruaðild, í rök skýrslu hnattvæðingarnefndar fyrir því að við ættum að hafa alveg "þokkaleg" tækifæri til hagstjórnar sem ESB-ríki með evruna. Vísaði hann þar til skynsamlegrar stefnu í ríkisfjármálum og til sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði.

Samtök atvinnulífsins