Vinnumarkaður - 

29. október 2012

Atvinnulífið leggur sitt af mörkum til að auka launajafnrétti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið leggur sitt af mörkum til að auka launajafnrétti

Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir samkomulag við heildarsamtök á vinnumarkaði, Samband íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið um samstarf til að auka launajafnrétti á Íslandi. Launakannanir á opinberum- og almennum vinnumarkaði hafa sýnt ákveðinn launamun á milli kynja sem erfitt hefur reynst að skýra út. Nýleg könnun meðal opinberra starfsmanna sýndi að óútskýrður launamunur milli kynjanna hefur aukist og nemur nú 13% og allt upp í 19%. Launakönnun VR sýndi hins vegar 9,4% óútskýrðan launamun og hefur hann dregist mikið saman, eða um 32% síðasta áratug.

Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir samkomulag við heildarsamtök á vinnumarkaði, Samband íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið um samstarf til að auka launajafnrétti á Íslandi. Launakannanir á opinberum- og almennum vinnumarkaði hafa sýnt ákveðinn launamun á milli kynja sem erfitt hefur reynst að skýra út. Nýleg könnun meðal opinberra starfsmanna sýndi að óútskýrður launamunur milli kynjanna hefur aukist og nemur nú 13% og allt upp í 19%. Launakönnun VR sýndi hins vegar 9,4% óútskýrðan launamun og hefur hann dregist mikið saman, eða um 32% síðasta áratug.

Umfangsmikil launakönnun SA og ASÍ sem Hagstofa Íslands gerði fyrir samtökin og kynnt var 2010 sýndi 7,4% óútskýrðan launamun á almennum vinnumarkaði og hafði hann farið minnkandi með árunum en rannsóknin byggði á tæplega 185 þúsund athugunum á launum einstaklinga sem störfuðu á almennum vinnumarkaði á árunum 2000-2007.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði við undirritun yfirlýsingarinnar samstarf þessara aðila mikilvægt. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana þurfi að vera sífellt vakandi yfir þessum málum en að kynbundinn launamunur sé óásættanlegur. SA hafi sett þessi mál á dagskrá og svo verði áfram, bæði á vettvangi samtakanna og í samstarfi við aðra. Vinna þurfi frekar í málunum til að útrýma kynbundnum launamun.

Samkomulagið undirritað 24. október 2012

Samtök atvinnulífsins taka nú þátt í vinnu við gerð jafnlaunastaðals sem styttist í að verði að veruleika en honum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að tryggja að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf. Miklar vonir eru bundnar við staðalinn og innleiðingu hans, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, en fyrirtækjum verður í sjálfsvald sett hvort þau taki hann upp eða ekki. Um er að ræða frumkvöðlaverkefni sem ekki hefur verið ráðist í annars staðar í heiminum. Vilhjálmur sagðist vonast til þess að fyrirtæki muni nýta sér staðalinn og hvatti hann þau til að taka þátt í tilraunaverkefni um innleiðingu hans.

Samkomulagið sem undirritað var þann 24. október felur í sér að settur verður á fót aðgerðarhópur samstarfsaðila til tveggja ára en verkefni hans verður m.a. að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast gerð áætlunar um kynningu jafnlaunastaðals, upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja.

Fyrirtæki hafa líka ýmsar leiðir til að kanna launamál í sínum fyrirtækjum og hefur PwC m.a. boðið fyrirtækjum upp á jafnlaunaúttektir en nálgast má upplýsingar um þær hér að neðan.

Tengt efni:

Yfirlýsing um aðgerðir gegn kynbundnum klaunamun undirrituð 24. október 2012

Rannsókn Hagstofu Íslands 2010: Launamunur kynjanna á almennum vinnumarkaði 2000-2007

Launakönnun VR 2012

Kjarakönnun BSRB 2012

Upplýsingar um jafnlaunaúttekt PwC

Samtök atvinnulífsins